11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég sagði í fyrri ræðu minni, að Vestfirðingafjórðungur hefði orðið afskiptur af benzínskattinum til vega. En hv. 1. þm. Eyf. fór að tala um, að benzínvegur hafi verið lagður um Vestfirðingafjórðung. Þetta er að vísu rétt, en mér fannst satt að segja í því tilfelli, að þar mætti segja, að það væri lítið, sem hans tunga fyndi ekki, þar sem þessi vegur, sem hann átti við, er lagður yfir eyðiheiði 3 til 4 km. frá Norðlendingafjórðungi, þar sem áður var almenn braut, og hann verður ekki til nytja fyrir Vestfirðingafjórðung, nema einn hrepp í Strandasýslu, svo ég verð að segja, það er ekki mikið gagn að því fé fyrir fjórðunginn. Ég verð að segja, eins og ég hefi áður haldið fram, að sá fjórðungur er fyrir borð borinn að því er snertir fé af benzínskatti til vega.

Ég get tekið undir það, sem hv. 9. landsk. sagði, að það væri æskilegt, að fé til vega af benzínskatti væri skipt þannig, að þessi fjórðungur væri ekki afskiptur. Ég vil þó ekki hanga í þeirri hreppapólitík, sem hann virðist vera með, að Vestfirðir yrðu aðeins þessa aðnjótandi, heldur vil ég taka fjórðunginn í heild, svo Vestfirðingar þurfi ekki að fara yfir ófærur til þess að komast á vegarspotta, sem lagðir kunna að verða í fjörðum vestur fyrir benzínskattinn. Það er miklu heppilegra að færa sig smátt og smátt vestur landið heldur en að grípa niður hér og þar, sem oft verður að litlu liði. Það hefir yfirleitt skaðað mjög mikið vegagerð hér á landi, hvernig gripið hefir verið niður hér og þar. án þess það hafi verið verulega kerfað niður, hvernig vegir ættu að liggja í landinu. Það hefir oft verið þannig, að þeir umbjóðendur kjördæma, sem hafa verið aðgangsfrekastir og bezta aðstöðu hafa haft til að ná í fé, hafa fengið mest til sinna kjördæma. En það hefir ekki verið heppilegast fyrir landið f heild sinni. Ég teldi sjálfsagt að fara þá leið að leggja fyrst vegina út frá sjálfum vegastofnum og fara svo áleiðis með vegina eins og greinar út um landið. En ég er búinn að taka till. mína um benzínskattinn aftur, og ég ætla því ekki að fara lengra út í þetta mál.

En ég ætla aðeins að minnast á aðra hlið frv., og það er viðskiptagjaldið. Ég verð að segja, að mér þykir það orðið ægilegt. Nú er svo komið, að þetta leiða gjald hefir frá því, sem það var áður, hækkað um 7% á sumum almestu nauðsynjavörum, af innkaupsverði vörunnar. Á hveiti t. d. hefir viðskiptagjaldið hækkað um 7% af innkaupsverði, og sama er að segja um byggingarefni, eins og t. d. sement og timbur. Það hefir hækkað úr 2% af innkaupsverði upp í 8 %, og svo leggst þar á 11% f ofanálag, svo það verður 9% alls, eða eins og ég tók áður fram, þá er hækkunin 7%. Þetta er ákaflega mikið álag á nauðsymlega þurftarvöru manna, og það er mjög leitt að þurfa að leggja slíka skatta á fólk í þessu árferði. En ég skal játa, að það er þörf á fé og nauðsynlegt að fá það inn í ríkissjóðinn. Við vitum það bezt, sem fengizt höfum við samningu fjárl., að það verður einhverstaðar að fá fé í ríkissjóðinn, svo fjárl. verði nokkurveginn tekjuhallalítil. Og eins og sakir standa nú, þá geri ég ráð fyrir, að ekki sé hægt að ná samkomulagi meðal stjórnarfl. um tekjuauka á annan hátt en þennan, því ekki fæst gerður stórkostlegur niðurskurður á fjárl., og er ekki heldur hægt úr þessu. En ánægður er maður ekki með að þurfa að horfa á þessa hækkun á mestu nauðsynjavörum. Þar eru að vísu með aðrar miður nauðsynlegar vörur, sem ekkert gerir til, þó að hækki, og það jafnvel meira en gert er.