11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það hefir verið ögn rætt um þá brtt., sem við hv. þm. Vestm. flytjum, og mér hefir skilizt bæði undir umr. og eins fyrir utan þær, að það myndi verða erfitt að koma henni í framkvæmd eins og hún er nú orðuð. En þar sem svo virðist, að flestir hv. þm. séu á því, að það sé full ástæða til að hjálpa útgerðinni, eins og hag hennar er nú komið, og þar sem það hefir komið beint fram hjá hv. 1. þm. Eyf., að það væri erfitt að framkvæma þetta, þá höfum við leyft okkur að koma fram með skriflega brtt. við 3. gr., um að aftan við 1. tölulið 1. málsgr. bætist: „Endurgreiða skal þó þennan skattauka af öllum vörum, sem hér eru nefndar og ætlaðar eru til útgerðar“. Þar með er sagt, að hægt sé að endurgreiða hann aftur, og þá ætti þetta að vera auðveldara í framkvæmdinni fyrir ríkisstj. heldur en með hinni till. Ég vona, þegar málið er komið inn á þessa braut, að það gæti fengið samþykki hv. d.

Svo langar mig til að segja nokkur orð út af því, sem hæstv. forsrh. sagði víðvíkjandi 2. brtt., sem er um það, að lækka tolla á ávöxtum og grænmeti. Hann vildi halda því fram, og beitti þar fyrir sig ekki minni manni en dr. Skúla Guðjónssyni, að það væri óþarfi að flytja inn ávexti vegna þess, að þeir hefðu ekki verið fluttir inn áður, og fjöldi Íslendinga hefði þó komizt vel til manns og verið hraustir menn, þó þeir hafi ekki notið ávaxta í sínum uppvexti. Ég vil samt ekki láta þessu ómótmælt, þar sem svo á að heita, að sérfróður maður um þessi efni eigi sæti í þessari hv. d.

Þegar maður ræðir um ávexti og grænmeti yfirleitt, þá eru það tvö viðhorf, sem ávallt verður að hafa fyrir augum. Annað þetta viðhorf, sem snertir bætiefni, minntist hæstv. forsrh. á. Rannsóknum á þeim hefir farið mjög fram á síðari árum, og það er ekki hægt að mótmæla þeim rökum, sem þar hafa fram komið. Svo er hitt atriðið, sem snertir næringargildi þeirra fæðutegunda, sem neytt er. Þetta tvennt verður maður að taka með, þegar rætt er um þetta. Hæstv. forsrh. sagði eitthvað á þá leið, að þær vörutegundir, sem við höfum hér á landi, væru eins auðugar af fjörefnum og vörur annara þjóða. Það má segja, að þetta sé rétt að svo miklu leyti, sem við höfum þær vörur, sem aðrar þjóðir hafa. Bætiefnin eru t. d. svo mismunandi eftir því, hvaða vörutegundir um er að ræða. Það eru t. d. sérstök bætiefni í smjöri, mjólk, lýsi, og önnur bætiefni í grænmeti og ávöxtum. Það er vitanlegt, að við höfum nægilegt af þeim bætiefnum, sem eru í mjólk og smjöri, þó það sé oft erfitt fyrir almenning að fá þessar vörutegundir vegna dýrleika. En það eru ýmsir sjúkdómar, sem orsakast af skorti á bætiefnum, sem ekki eru til í þessum vörutegundum. Þessir sjúkdómar stafa einmitt af skorti á þeim bætiefnum, sem eru í ávöxtum og grænmeti, hinu svokallaða C-bætiefni. Skortur á því orsakaði sjúkdóma, sem voru algengir í gamla daga hér á landi, en þeir þekkjast hér miklu minna á síðari árum. Einn af þessum sjúkdómum var skyrbjúgur. En auk þess eru margir aðrir sjúkdómar, þó ég minnist sérstaklega á þennan sjúkdóm, vegna þess að hann er sá alvarlegasti. Þó maður geti sagt t. d., að einn maður hafi hraustar og góðar tennur, þá er ekki þar með sagt að hann hafi fengið það, sem hann þarf af öllum bætiefnum. Sérstaklega á þetta við í seinni tíð, þar sem mataræði fólksins hefir breytzt svo mikið. Það má líka taka tillit til þess, að á síðari árum hefir fólksdauði, og þá sérstaklega ungbarnadauði, minnkað að verulegum mun. Það gefur auga leið, að þetta hefir orðið af því, að margir, sem áður dóu af vesöld og skorti, hafa nú komizt yfir þann þröskuld, en eru að einhverju leyti veikari en þeir væru, ef þeir hefðu verið hraustir, þegar þeir voru ungir. Það er því ekki hægt að gera samanburð á því sem áður var, og því, sem nú er, hvað þetta snertir, nema að taka svo margt til greina. Það er áreiðanlegur hlutur, að ef þessi frægi landi okkar og vísindamaður, Skúli Guðjónsson, þekkti aðstöðuna hér, þá myndi hann líka mótmæla því, að ekki væri full þörf á því fyrir Íslendinga að neyta meiri ávaxta og meira grænmetis en gert hefir verið.

Það má kannske segja, að hægt sé að rækta þetta í landinu sjálfu, en við vitum allir, að það er allmiklum erfiðleikum bundið að gera það. Og þó við höfum nýlega haldið sýningu á grænmeti, ávöxtum og ýmsu þess háttar í Kaupmannahöfn, þá held ég, að það hafi verið meira til þess að sýnast en að það geti komið að hagkvæmum notum fyrir Íslendinga vegna dýrleika. Þó við höfum t. d. sýnt, að hægt sé að rækta þrúgur hér á landi, þá dettur engum í hug, að hægt sé að rækta slíka vöru til þess að selja hana, því hún yrði svo dýr, að hún gæti ekki keppt við innflutta vöru, ef innflutningur væri leyfður. Það má víst yfirleitt segja, að ekki sé hægt að rækta ávexti hér á landi. Það er eingöngu ein tegund, sem hægt er að rækta hér, en það eru tómatar, en þeir eru svo dýrir, að þeir eru illkaupandi.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að það hefir verið minnzt á það, að ávextir þeir, sem hingað kæmu, væru dýrir og skemmdir. Mér er kunnugt um, að Þjóðverjar flytja inn ódýra ávexti frá Austur- og Vestur-Afríku. Það kemur til af því, að Þjóðverjar eru að hugsa um sínar nýlendur og reyna að hlynna að fólkinu þar og gera það sér vinveitt. Þeir flytja því þaðan mjög mikið af ódýrum ávöxtum. Nú höfum við til skamms tíma ekki tekið út alian þann þýzkan gjaldeyri, sem við höfum fengið fyrir útfluttar afurðir okkar, og þess vegna álit ég, að það væri ólíkt skynsamlegra að kaupa dálítið meira af ávöxtum og grænmeti þaðan heldur en að kaupa það dýru verði frá öðrum löndum, eins og t. d. Portúgal. Ég er sannfærður um, að það er hægt að fá ódýrari ávexti frá Þýzkalandi heldur en frá Portúgal. Ég tek þetta fram til athugunar fyrir hæstv. ríkisstj.

Það er annað í þessu sambandi, sem ég vil minnast á og er byggt á misskilningi hjá framsóknarmönnum yfirleitt. Þeir hafa yfirleitt verið á móti því, að grænmeti væri innflutt og ýmislegt þess háttar, vegna þess að þeir álíta, að það spilli fyrir því, að keypt sé kjöt og mjólk og aðrar landbúnaðarafurðir, sbr. Nýja dagbl., þar sem til að var um, að sjálfstæðismenn ættu að fara á Austurvöll og bita þar gras. Þetta var í mjólkurstríðinu, þegar verið var að tala um grænmetisnotkun. Þetta er misskilningur, því eftir því, sem grænmetisneyzla vex, þá vex að sama skapi kjötneyslan. Það er ekki hægt að borða þetta eitt út af fyrir sig. Það verður að hafa hitt líka.

Ég ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta. Ég vildi aðeins gera þessa aths., til þess að láta því ekki ómótmælt, að við hefðum nógar fæðutegundir, sem nauðsynlegar væru vegna þess að fólk vantaði bætiefni.

Svo vil ég líka minna á það, sem ég gat um í upphafi, að það er líka næringargildi fæðutegundanna, sem kemur þarna til greina. Við læknarnir erum oft í vandræðum með sjúklinga, sem þurfa bókstaflega á grænmeti að halda vegna sjúkdóma sinna. Það eru líka ýmsir menn, sem í sjálfu sér eru taldir frískir dags daglega, en hafa þó meltingarkvilla, sem nauðsynlegt er að lækna með grænmeti og ávöxtum. Það er ólíkt skynsamlegri ráðstöfun að leyfa innflutning á slíkum fæðutegundum og lækka tolla á þeim heldur en láta skrifa lyfseðla á lyfjabúðir, sem aldrei getur verið eins gott eins og að fá vörutegundirnar sjálfar með öllu því næringargildi, sem þær hafa.