18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög 1938

*Stefán Stefánsson:

Ýmsum vopnum var beitt gegn bændaflokksmönnum í kosningunum á síðastl. vori. Það væri ástæða til að minnast þeirra nokkuð, en nú er ekki tími til þess. Eitt af þeim vopnum, sem beitt var gegn okkur, var, að við ætluðum að hjálpa heildsölunum í Reykjavík til að drepa S. Í. S. og kaupfélögin. Þessu vopni beitti hv. 1. landsk., Brynjólfur Bjarnason, gegn okkur bændaflokksmönnum í gær, og gefur það mér tilefni til þess að minnast nokkuð á þessa hluti. Hann lét þau orð falla, að ef sjálfstæðismenn og bændaflokksmenn hefðu náð meiri hluta í kosningunum á síðastl. vori, þá hefðu samvinnufélögin og kaupfélögin verið lögð í rústir. Ég verð að segja, að þessi aðdróttun í garð okkar bændaflokksmanna er beinlínis svívirðileg, þar sem kunnugt er, að flokkurinn hefir verið og mun verða samvinnuflokkur. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda , á ræðu eftir forseta Alþjóðasambands samvinnumanna um það, hvernig kommúnistar búa að samvinnufélögunum þar sem þeir ráða, en Kommfl. hér fylgir eins og kunnugt er hinum brennandi vita frá Moskva um sín mál, og þá sjálfsagt einnig í afstöðu þeirri, sem þeir taka til samvinnumálanna. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur ummæli eftir forseta alþjóðasambands samvinnumanna, sem tekin eru úr grein, sem birtist í Nýja dagblaðinu. Þar segir svo um foringja Kommfl.: „Margir þeirra urðu á eitt sáttir um það, að sú hreyfing væri borgaraleg og ætti hvergi heima nema í borgaralegu ríki“. — Það er því skoðun þeirra, að samvinnustefnan sé borgaraleg stefna og eigi hvergi heima nema í borgaralegu ríki. En það vita allir, að þessi flokkur, Kommfl., vill drepa hið borgaralega þjóðfélag og þá um leið samvinnustefnuna í landinu.

Á öðrum stað segir svo: „Afleiðingin af þessu varð sú, að þótt samvinnufélögin væru lögð niður sem frjáls, sjálfstæð og hlutlaus fyrirtæki, voru þau endurreist sem öreigafélagsskapur og tekin í þjónustu byltingarinnar.“ Það er svo með þennan félagsskap eins og alla aðra, að hann er tekinn í þjónustu byltingarinnar.

Hann segir ennfremur: „Samvinnufélögin áttu að annast dreifingu nauðsynjavara fyrir ríkið.“ Og enn segir hann: „Er nú harla lítið eftir af sjálfsákvörðunarrétti samvinnuhreyfingarinnar innan rússneskra landamæra.“

Ef maður gæti hugsað sér, að Kommfl. fengi hér æðstu ráð, þá býst ég við, að lítið myndi verða eftir af sjálfsákvörðunarrétti samvinnufélaganna íslenzku, ef þeir fengju nokkru þar um ráðið.

Forseti Alþjóðasambandsins bendir að síðustu á, að afleiðingin af þessum aðförum hafi orðið sú, að meðlimum samvinnufélaganna í Rússlandi hafa fækkað úr 73 millj. manna niður í 36 millj. Af þessu má sjá, hvernig aðbúnaðurinn er í Rússlandi. Öll stærstu kaupfélögin hafa verið tekin og eignir þeirra gerðar upptækar og lagðar undir ríkið. Aðeins úti í sveitunum, var sem félögin hafa verið sterk, hefir Kommfl. ekki þorað að leggja samvinnufélögin niður með öllu, en hann hefir gert eins lítið úr þeim og verða má.

Þá má ganga út frá því sem vísu, að ef Kommfl. Íslands verður nokkurn tíma nokkurs megnugur, sem vonandi ekki verður, þá muni hann heita slíku vopni, sem flokksbræður þeirra í Rússlandi hafa beitt í þessu efni. Það situr illa á slíkum flokki að vera með aðdróttun í garð Bændafl. um áform hans í garð S. Í. S. Enda er þess skemmst að minnast, að flokkur þessi, kommfl., talaði um S. Í. S. sem auðhring og glæfrafyrirtæki, sem þyrfti að gera upp sem fyrst. Hv. 1. landsk. (BrB) mun hafa haft þessi ummæli, þegar hann var ritstjóri Verkalýðsbl.

Um hinn þjóðnýtingarflokkinn, sósíalista, er það einnig vitað, að þó þeir á yfirborðinu telji sig vinveitta samvinnufélagsskapnum, þá líta

þeir S. Í. S. hinu versta hornauga og tala um það sem ríki í ríkinu og telja það standa í vegi fyrir útbreiðslu hinna sósíalistísku hugsjóna um byggðir landsins. Báðir þessir þjóðnýtingarflokkar viðurkenna ekki samvinnufélagsskapinn, enda er ríkisverzlun þeirra takmark. Mundi lítið verða úr sjálfsákvörðunarrétti samvinnufélaganna á Íslandi, eigi síður en er nú á Rússlandi, ef þessir flokkar réðu.

Það má að gamni aðeins drepa á, að þessir þjóðnýtingarflokkar hafa í blöðum sínum undanfarið ekki aðeins talið Bændafl. og Sjálfstfl. í vasa heildsalanna, heldur einnig er Framsfl. kominn þangað líka. Alþýðublaðið hefir hvað eftir annað verið með þetta í sínum skrifum undanfarið.

Hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, gat þess í gærkvöldi, að engin ádeila hefði komið fram gegn afurðasölulöggjöfinni. Ég verð að segja, að hvað Bændafl. snertir, þá hefir hann aldrei hafið ádeilur viðvíkjandi löggjöfinni sjálfri, heldur aðeins viðvíkjandi framkvæmd hennar, enda átti Bændafl. mestan þátt í því, að afurðasölulöggjöfin var sett. Það má minna á það, að till. um skipun afurðasölumálsins voru fyrst bornar fram af Jóni Jónssyni í Stóradal 1933. Það má líka minna á það, að afurðasölulöggjöfin var að mestu fullbúin í hendur hæstv. landbrh. og forsrh., Hermanns Jónassonar. Það féll aðeins í hans hlut að setja bráðabirgðal. um þetta. Bændafl. hefir gert þær tvær kröfur viðvíkjandi þessari löggjöf, að framleiðendur fái í sínar hendur stjórn afurðasölumálanna og bændur fái tryggt afurðaverð.

Hæstv. forsrh. gat þess í gær um ríkisverksmiðjurnar, að verksmiðjureksturinn byggðist á því, að þær liðu ekki tap, eða m. ö. o. að atvinnureksturinn bæri sig. Það er eins með búskapinn. Það, sem við bændaflokksmenn förum fram á, er, að að innureksturinn liði ekki tap, eða m. ö. o. að hann beri sig, svo að bændur fái greitt tilkostnaðarverð fyrir sínar afurðir. Búskapurinn getur því aðeins staðizt, að hann liði ekki tap, eins og hæstv. forsrh. sagði um ríkisverksmiðjurnar.

Hv. þm. Dal. (ÞBr) gat þess í gær og færði fyrir því full rök, að bændur hefði ekki enn fengið tilkostnaðarverð fyrir sínar afurðir. Mér þykir hæstv. forsrh. vera nægjusamur fyrir bændanna hönd, ef hann heldur, að öll afurðasölulöggjöfin sé komin í það horf, sem hún á að komast í. Þangað er hún ekki komin enn, en Bændafl. mun halda uppi sífelldri baráttu þangað til því takmarki er náð, sem hann hefir sett sér í þessu máli.

Ég vil aðeins drepa á það, að í byrjun þessa þings bárum við bændaflokksmenn fram mikilvægt frv. viðvíkjandi landbúnaðinum, um fóðurmjölsbirgðir, þar sem ákveðið var í l. gr., að ríkisstj. skuli sjá um, að fyrirliggjandi séu í landinu nægilegar, innlendar fóðurmjölsbirgðir. Jafnskjótt og búið var að flytja framsögu í þessu máli, reis hæstv. forsrh. upp og lýsti því yfir, að ríkisstj. hefði samskonar frv. í undirbúningi, og tilnefndi hann flm. að því hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt) og hv. þm. Mýr. (BÁ) og gat þess þá, að þetta frv. yrði lagt fram einhvern næstu daga. Þetta frv. er ekki komið fram á þinginu enn, og ég hefi fyllstu ástæðu til að ætla, að þetta frv. hafi ekki verið í undirbúningi, eins og hæstv. forsrh. vildi vera láta, heldur hafi hann séð, að þarna var góð hugmynd á ferðinni, sem bændaflokksmenn fluttu, og því hafi verið um að gera að reyna að ræna flokkinn hugmyndinni og eigna hana Framsfl. Það hefir verið svo með Framsfl., að hann hefir ekki þolað Bændafl. að koma sínum áhugamálum fram, heldur hefir hann hnuplað þeim og borið þau fram sem frv. Framsfl. og látið líta svo út sem þau væru fram borin af þeim flokki upphaflega.

Þá er það hæstv. atvmrh. (HG). Hann lét ]mu orð falla hér í gær og einnig í dag — og þau orð hefir einnig væntanlegur samherji hans í kommfl., Einar Olgeirsson. látið falla hér –að Bændafl. væri dauður. Ég get strax lýst því yfir að við bændaflokksmenn kippum okkur ekki upp við slíkar dánartilkynningar, því við allar útvarpsumræður frá því að flokkurinn var stofnaður hefir því verið lýst yfir, að Bændafl. væri dauður. En það er samt svo, að Bændafl. lifir, og hann lifir góðu lífi. Bændafl. jók sína atkvæðatölu um 200 eða rúmlega það við síðustu kosningar, en á sama tíma minnkaði atkvæðatala Alþfl. um 200 kjósendur. Og hvort er nú meira lífsmark? Ég geri ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. segi sem svo, að nokkuð af atkv. okkar bændaflokksmanna sé frá Sjálfstæðisfl. Ég skal ekki draga í efa, að eitthvað kunni að vera þaðan. En ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því, hvað mörg atkv. hann haldi, að hans flokkur hafi fengið frá Kommfl. og Framsfl. Það mun vera nokkurn veginn vist, að 3 kjördæmakjörnir þm. Alþfl. eru kosnir með atkv. Kommfl. og Framsfl. Þessir þm. eru hæstv. atvmrh. sjálfur, þm. N.-Ísf. (VJ) og þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Þessir þm. eru ekki komnir inn á þing á atkv. sósíalista eingöngu. Það gæti meira að segja verið vafi á því, hvort sósialistar yrðu langlífari hér á landi heldur en Bændafl.

Ég vil segja við þennan hæstv. ráðh.: Maður, líttu þér nær! Ég hefði talið það vel viðeigandi, að hæstv. ráðh. hefði hafið útfararsönginn yfir sinum eigin flokki, en hæstv. ráðh. er þar nokkur vorkunn, þar sem hann mun ætla þetta hinum nýja dósent, sem hann mun telja manna hæfastan til yfirsöngva. Nú standa fyrir dyrum bæjarstjórnarkosningar, og svo segja kunnugir menn, og það flokksmenn hæstv. ráðh., að hjarta hans og annara foringja sósíalista séu þegar tekin að síga, þó 6 vikur séu til kosninga, svo þau munu verða komin nokkuð langt niður á kjördegi. Svo vonlitlir eru þessir foringjar, að þeirra eigin sögn, að þeir telja sig aðeins vissa með 2 fulltrúa, en hafa von um 3, þar sem þeir nú hafa 5 fulltrúa í Reykjavík. Reynist svo að vera, sem foringjarnir munu telja, þá er hinum nýja dósent óhætt að fara að semja líkræðuna. þar sem líklegt má telja, að hæstv. menntmrh. telji sæmd sina þar við liggja, að hún verði fyrst send Nygren til yfirlestrar, svo þannig fáist sönnuð hæfni dósentsins til yfirsöngva.

Allir minnast þess, að í 4 ára áætlun sósíalista, sem þeir hafa að mestu leyti svikið — en af því er flóttinn svo ör frá þeim til kommúnista — lofuðu þeir ýmsu, og m. a. lofuðu þeir að færa nýtt fjör í atvinnuvegi landsmanna. Því miður hefir enginn orðið var við þetta fjör. En það er eitt, og aðeins eitt, sem þessum sósialistaforingjnm hefir tekizt að færa fjör í, og það er vinnudeilur og verkföll í þessu landi. Ég vil ráða þessum góðu mönnum til þess næst, þegar þeir gefa út 4 ára áætlun, að fella þá niður hina feitletruðu liði um að hleypa fjöri í atvinnuvegina, en setja með feitu letri í staðinn, að þeir ætli að hleypa nýju fjöri í vinnudeilur og verkföll. Þeir eru óhæfir til að hleypa nýju fjöri í atvinnuvegina, og því er þessi breyting á stefnuskrá þeirra tilhlýðileg og heppileg. Annars mætti kannske segja þeim til hróss um fjörspretti, sem þeir hafa fært í hlutina, að þeim hefir tekizt að færa fjör í eitt, og það er flóttinn úr þeirra eigin herbúðum og yfir til kommúnista. Svo ör hefir þessi flótti verið, að þar hefir ekki verið farinn seinagangur, heldur hefir verið farið á harðaspretti á milli herbúðanna. Þannig hefir þessum flokki tekizt að verða þess valdandi, að þau fræ, sem kunna að vera til fasisma í þessu landi, fái að dafna sem bezt.