21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Ísleifur Högnason:

Við 1. umr. þessa máls, tók flokksbróðir minn, hv. á. þm. Reykv., þetta frv. til rækilegrar athugunar, og get ég þar ekkert um bætt. Ég mun því nú aðeins ræða einstakar gr. frv., um leið og ég get ekki látið hjá líða að mótmæla frv. í heild.

Það er þá fyrst og fremst að athuga við skattstigann, að breyt., sem er ráðgerð hér, á elski að ná lengra en upp í 28 þús. kr. tekjur, en í l., sem er ætlazt til, að breytt verði, á hann að enda á 50 þús. kr. Sem sagt, það á ekki að hækka skatt af tekjum, sem eru frá 28 þús. og upp í 50 þús. kr., heldur á hann að haldast. Ég vil gjarnan heyra frá hv. meiri hl. n. orsökina fyrir því. hvers vegna ekki er haldið þarna áfram, því að ég þykist vita, að á árinu, sem er að líða, hafa fleiri fyrirtæki haft tekjur yfir 28 þús. kr. virðist mér líka, að andinn í þessu frv. beri að sama brunni að því er það snertir, að þessi skattur eigi að leggjast á alþýðu manna, sem sízt getur borgað, en þeim, sem helzt geta borgað, er hlíft. Þessi kostnaður nemur, eins og hann er nú áætlaður, rösklega 2½ millj. kr., eða um 90 kr. á hverja 4 manna fjölskyldu í landinu. Þetta er vitanlega aðallega skattur á fólki, sem hefir úr litlu að spila, kannske ekki nema 1000–1500 kr. árstekjur, og það hlýtur að leiða af þessu almennan skort meðal atvinnuleysingja.

Þá vil ég taka til athugunar niðurlag 3. gr., sem hljóðar svo:

„Gjöld þau, sem greinir í 1.–5. tölul. hér á undan, skal einnig greiða af vörum, sem aðflutningsgjöld hafa ekki verið greidd af, er lög þessi öðlast gildi, þótt vörurnar hafi verið fluttar til landsins fyrir gildistöku laga þessara“.

Þetta mun vera nýmæli, og ef til framkvæmda kemur — en mér þykir ótrúlegt, að hæstv. ríkisstj. láti tollgæzluna á hverjum stað annast vörukönnun og taka skatt af erlendum vörum, sem fluttar eru inn til landsins fyrir áramót —, þá mun þetta nema drjúgum skilding. Ef ekki á að hækka þennan tolllið til hálfs, þá finnst mér ástæða fyrir hv. fjhn. að gæta að því, hvort hún getur ekki fallizt á að fella þetta ákvæði niður, því að frv. hlýtur að fara fram úr áætlun um tekjur, ef þessa er ekki gætt. vegna þess, hve áliðið er þingtímann, vil ég ekki fjölyrða um þetta, en ég óska eftir, að hv. n. taki þessa tvo liði til athugunar, og ef hún getur fallizt á að hækka skattstigann upp í 50000 kr., hvort þá er ekki hægt að afnema tolla á nauðsynjavörum, eins og t. d. rúgmjöli, hveiti og öðrum nauðsynjavörum, sem hafa hækkað.

Fyrir hönd míns flokks og allrar alþýðu í landinu mótmæli ég þessu frv. og tek það fram um leið, að við kommúnistar höfum bent á leið hér í þinginu til þess að ná a. m. k. helmingnum af þeim tekjum, sem farið er fram á, með vaxtaskatti, lúxusbílskatti, lúxusíbúðarskatti og skatti á lóðum og löndum, sem notuð eru í brask.