21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Einar Olgeirsson:

Það er örstutt aths. út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við 3. gr. frv. Ég vil gera þá fyrirspurn, hvort þetta eigi að gilda undir öllum kringumstæðum, líka þó að auðséð sé, að þeir, sem flytja vörur til landsins, hafi alls ekki gert það með það fyrir augum að losna við tollgreiðslu, heldur orðið að láta vörurnar liggja vegna þess, að þó að þeir hafi fengið gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir þær, þá hafa þeir, bankanna vegna, ekki getað fengið þær út fyrr. við vitum, að það er algengt. einnig um samvinnufélögin, að það hefir orðið að bíða lengi eftir vörum, sem búið var að panta og gjaldeyris- og innflutningsleyfi hefir fengizt út á, dagsett á réttum mánuði, vegna bankanna. Það er mjög hart undir slíkum kringumstæðum fyrir samvinnufélögin, sem auðvitað setja sér það sem mark og mið að reyna að komist sem mest hjá því að þurfa að setja óþarflega álagningu á vörurnar, að verða af slíkum ástæðum að láta vörurnar bíða fram yfir þann tíma, sem tollurinn er miðaður við, en hefðu getað komizt undan, ef vörurnar hefðu fengizt út á réttum tíma. Ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á þessu, og mér finnst, að þetta ákvæði þurfi að vera svo rúmt, að hægt væri að veita undanþágu, ef hæstv. fjmrh. er sjálfur sannfærður um, að þarna sé alls ekki alltaf um það að ræða, að menn reyni að svíkjast undan tollgreiðslunni, heldur séu að verki óviðráðanleg atvik fyrir viðkomandi innflytjanda, svo sem ráðstafanir banka eða annað slíkt.

Ég ræddi um þetta við 1. umr. og þarf því ekki að fara frekar út í það nú. Það fór eins og mig grunaði, að sjálfstæðismenn mundu ekki vera eins mótfallnir þessum tollal., þegar þeir ræddu við okkur í þinginu eins og í útvarpsumr., þegar verið var að ræða um þau þar.