02.12.1937
Neðri deild: 40. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

124. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Þetta frv. um breyt. alþýðutryggingarl. er flutt fyrir tilmæli hæstv. ríkisstj., eins og frá er skýrt í grg. Um efni þess er samkomulag í öllum höfuðatriðum milli stjfl. beggja, og vil ég strax, til þess að fyrirbyggja misskilning, lýsa yfir því f. h. Alþfl., að því fer fjarri, að þeim kröfum, sem sá flokkur vildi gera til endurbóta á tryggingunum og hann býst við að vinna að, sé fullnægt með þessu frv. Hinsvegar telur flokkurinn, að svo mikið hafi þó á unnizt, að það horfi til verulegra bóta, svo verulegra bóta, að það megi ekki setja það fyrir sig, þó að ekki fáist meira fram að svo stöddu. Frv. er nokkuð síðbúið, og ég legg því verulega áherzlu á, að það fái að ganga sem allra skjótast til 2. umr. og meðferðar n. Þess vegna mun ég að þessu sinni ekki gefa tilefni til þess að tefja fyrir frv. með því að fara um það mörgum orðum. Kemst ég þó ekki hjá að gera lauslega grein fyrir höfuðatriðum þeirra breyt. á tryggingarlöggjöfinni, sem farið er fram á með frv. og eru aðallega þrennskonar.

Í fyrsta lagi eru breyt. fólgnar í því, að fyrirkomulagi trygginganna er að sumu leyti breytt, sérstaklega stjórn þeirra og öðru skipulagi. Í öðru lagi eru með breyt. þessum aukin hlunnindi þeirra tryggðu að talsvert miklu leyti. Í þriðja lagi er leitazt við að breyta tryggingal. þannig, að fjárhagsafkoma trygginganna, þ. e. sérstakl. sjúkrasamlaganna, verði öruggari eftir en áður.

Um skipulagsbreyt. er það að segja, að verksvið tryggingarráðs, sem er mjög takmarkað eða þá ónákvæmlega afmarkað í l. eins og þau eru nú, er gert ákveðnara og viðtækara. Nú er hlutverk þess aðallega í því fólgið að úrskurða vafaatriði um iðgjöld og bætur. En framkvæmdin hefir engu að siður orðið sú, að tryggingarráð hefir aðstoðað framkvæmdarstjóra tryggingastofnunarinnar við störf hans. Hér er farið fram á, að það verði lögfest, að svo skuli vera, auk þess sem tryggingarráð hafi sama úrskurðarvald um vafaatriði viðvíkjandi iðgjöldum og bótum eftir sem áður.

Þá er farið fram á, að tryggingarstofnun ríkisins skipi alla formenn sjúkrasamlaga. Nú eru þeir kosnir. Þetta ákvæði er sett eftir kröfum frá sjúkrasamlögum sjálfum, og stendur auk þess í nánu sambandi við það, að í frv. er gert ráð fyrir, að sjúkrasamlögin verði undir nánara eftirliti tryggingarstofnunarinnar heldur en verið hefir, þannig að tryggingarstofnunin geti betur litið eftir öllum rekstri þeirra og ráðstöfunum, og þar á meðal mannaráðningum og launakjörum við samlögin. Er til þess ætlazt, að með reglugerð verði þetta nánar ákveðið.

Um þá aukningu hlunninda til handa þeim tryggðu, sem í frv. felst, er þetta að segja: Við slysatryggingarnar er bætt tveimur nýjum tryggingarskyldum starfsgreinum: Þvotta- og ræstivinnu og sendisveinastörfum, en þó því aðeins, að slík störf séu stunduð sem regluleg atvinna. Þannig er þvotta- og ræstivinna ekki tryggingarskyld, ef hún er stunduð sem algerð aukavinna, og nefni ég t. d. ræstun skóla til sveita. Líka er sendisveinn ekki tryggður, þó að gripið sé til hans, ef hann er ekki ráðinn til starfsins svo sem títt er við verzlanir og aðrar stofnanir. Eftir ósk tryggingarstofnunarinnar eru hér líka tekin upp ákvæði um, að slysatryggingunni sé heimilt að tryggja fólk frjálsri tryggingu. Menn óska stundum eftir því að fá að tryggja sig á þann hátt gegn hæfilegum iðgjöldum. Líka kemur það fyrir, að þeir, sem eru skyldutryggðir, vilja gjarna kaupa sér hærri tryggingu með því að borga viðbótariðgjald. En það yrði þá einnig heimilt.

Borið hefir á óánægju yfir því, að foreldrar geta misst börn sin, sem hafa verið slysatryggð, án þess þar fyrir að eiga kröfu á nokkrum dánarbótum. Með breyt. frv. er farið fram á, að allir foreldrar fái dánarbætur eftir slysatryggð börn sin, þannig, að þeim verði, hvernig sem á stendur, tryggð sem minnsta upphæð 500 kr.

Þá er ætlazt til, að tvímælalaust verði, að útgerðarmenn skuli greiða iðgjöld til slysatryggingarinnar einnig fyrir þá háseta, sem eru ráðnir upp á hlut. En um þetta mun hafa verið nokkur ágreiningur.

Gamalt fólk er samkv. frv. leyst undan tryggingarskyldu í sjúkrasamlögum, það, sem er 67 ára og eldra. En hinsvegar er óskertur réttur þess til að tryggja sig þar, ef það vill, og nýtur það þá alveg sömu hlunninda sem aðrir, án tillits til aldurs. Hefir allmikið borið á því, að gömlu fólki, sem ekki hefir þekkt neitt til trygginga og veitist erfiðara en yngra fólki að átta sig á nýmælum, hefir þótt hart að vera skyldað til að kaupa sér tryggingu, líka með fram vegna þess, að margt af því er ekki kvillasamt, með því að það er yfirleitt búið að ljúka sér af með fjölda sótta, sem ungt fólk er móttækilegt fyrir.

Þá er farið fram á, að fullnægt sé þeirri kröfu, sem komið hefir fram frá sjúkrasamlögum, að mönnum sé heimilt að kaupa sér tryggingu í sjúkrasamlögum án tillits til efnahags, þannig að þeir, sem hafa hærri tekjur en svo, að þeir eftir núgildandi l. fái notið hlunninda sjúkrasamlaga, geta eftir frv. með viðbótariðgjaldi fengið rétt til hlunninda. Þennan rétt eiga þeir að geta fengið með því að greiða a. m. k. 100% hærra iðgjald en aðrir samlagsmenn.

Almennri óánægju hefir það valdið, að sjúkrahjálp, sem látin er í té utan sjúkrahúsa, hefir yfirleitt ekki verið greidd öll af sjúkrasamlögunum, heldur af flestum þeirra, samkv. heimild laganna, aðeins að þrem fjórðu hl. Einn fjórða hl. hefir viðkomandi tryggður orðið að greiða sjálfur. Þetta ákvæði komst upphaflega inn í lögin fyrir kröfur læknastéttarinnar og átti að miða til þess að draga úr því, að fólk yrði um of heimtufrekt og ónærgætið í kröfum til lækna um læknishjálp. Nokkru kann að hafa valdið um þessa óánægju, að sumir læknar hafi verið um of óbilgjarnir í kröfum sínum um greiðslu þessa fjórða hluta. Óánægja almennings með þetta atriði hefir verið svo rík, að ég geri ráð fyrir, að þessum hreyt. frv. verði mjög fagnað.

Dagpeningatrygging er í frv. gerð frjáls. En heimilt er sjúkrasamlögum að gera hana að skyldu. Þetta er eftir ósk sjúkrasamlaganna sjálfra, eða trúnaðarmanna þeirra, með því að í ljós hefir komið, að engin leið er að viðhalda dagpeningatryggingu að gagni, nema með svo háum iðgjöldum, að öllum þorra .fólks verða þau um megn.

Þá er og gert ráð fyrir, að hinn svonefnda biðtíma (sbr. 30. gr. sjúkratryggingarl.) megi draga saman, ef svo er ákveðið í samþykktum, þannig, að fólk, sem flyzt inn á samlagssvæði og út af því aftur, ef til vill oftar en einu sinni, en greiðir samlaginu samanlagt í fleiri en einni dvöl það, sem svarar til fulls biðtíma eftir núgildandi tryggingal. fái, eftir því sem nánar kann að verða ákveðið í samþykktunum, sömu réttindi sem eftir samfelldan biðtíma. Þetta er einkum gert með tilliti til fólks, sem er í vetrarvistum í kaupstöðum, en flyt burtu áður en það hefir náð fullum biðtíma að núgildandi l. Kemur slíkt einkum illa við vetrarstúlkur í Rvík, sem eru e. t. v. 6 mánuði í vist hér vetur eftir vetur, en ná aldrei tryggingarréttindum eftir því sem ákvæði l. eru nú.

Enn er gert ráð fyrir því í frv., að meiri áherzla verði lögð á það en í núgildandi f., að unglingar, sem ekki hafa fastar tekjur, fái afslátt af sjúkrasamlagsiðgjöldum sínum, eftir nánar settum reglum í samþykktum. Sama er að segja um þurfamenn, að ætlazt er til, að ríkari áherzla verði lögð á, að bæjar- og sveitarsjóðir greiði iðgjöld þeirra manna, sem fyrir fátæktar sakir geta ekki staðið í skilum með iðgjöld sín, og sé bæjar- og sveitarstjórnum skylt að setja um þetta fastar reglur, er ráðherra staðfestir. Þessum ákvæðum viðvíkjandi sveitar- og bæjarfél. var hagað þannig, vegna þess að ekki þótti fært að binda í l. fastar allsherjar reglur um þetta atriði.

Undan því hefir verið mjög kvartað, einkum af þeim, sem fengið hafa úthlutaða atvinnubótavinnu hér í Rvík, að hart væri gengið að með innheimtu iðgjalda til sjúkrasamlagsins. Að sjálfsögðu verður ekki komizt hjá því að heimila almennt, að iðgjöldum til sjúkrasamlaga megi halda eftir af kaupi. En þá er of langt gengið, þegar þeir, sem á atvinnubótavinnu eiga að lifa, og fá með höppum og glöppum örfáar krónur í kaup, sem illa geta nægt þeim til að fullnægja sárustu þörfum, verða að sætta sig við, að öllu eða því nær öllu sé haldið eftir upp í sjúkrasamlagsiðgjöld. Samkomulag hefir orðið um. að á þessu þyrfti að ráða bót, sem ætlazt er til, að gert verði með því að heimila að vísu áfram að halda megi eftir iðgjöldum af launum alls fólks, en aldrei meira en nemi 10% af ógoldnu kaupi. Að þessu ætti að vera allmikil réttarbót fyrir þá, sem minnst vinna sér inn.

Eftir óskum ýmissa þeirra manna, einkum hér í Rvík, sem eiga sér sérstaka tryggingarsjóði, t. d. starfsfólks við Landsbankann og við aðrar slíkar stofnanir og fyrirtæki, er hér gert ráð fyrir, að lögfest verði, að þeir, sem hafa keypt sér elli- og örorkulífeyri í slíkum einkasjóðum, fái tilsvarandi endurgreiðslu á iðgjöldum sínum til lífeyrissjóðs með nánar tilgreindum skilyrðum.

Þá er lagt til, að vextir ellistyrktarsjóðanna gömlu verði afhentir sveitarfélögunum til eigin úthlutunar ellistyrkja. Um þetta hafa borizt almennar kröfur úr sveitum landsins. En um úthlutun ellistyrkja eða ellilífeyris, svo og örorkubóta, eru settar miklu nánari reglur en áður, til aukinnar tryggingar því, að sú styrktarstarfsemi nái hinum eiginlega tilgangi sínum, sem er sá, að með þessum styrkjum geti gamalt fólk og öryrkjar fleytt sér fram án þess jafnframt að leita á náðir hins opinbera sem þurfamenn. Þessar reglur eru nokkuð flóknar, og verða óhjákvæmilega að vera það, ef þær eiga að endast til þess, sem þeim er ætlað, sem er að koma í veg fyrir, að greiðslur úr lifeyrissjóði og vextir ellistyrktarsjóðanna verði einkum notað til þess að ala önn fyrir eiginlegum þurfamönnum á kostnað gamalmennanna og lækka þannig framfærslukostnað sveitarfélaganna. Á þessari misnotkun hefir mikið þótt bera hér í Rvík, og raunar víðar, en verður erfitt við að koma, ef þessar breyt. verða samþ., sem ég vona að verði.

Þá er loks að geta þess, að bráðabirgðal. voru gefin út um það, að menn yngri en 67 ára, er áður nutu ellistyrks, skyldu áfram fá að njóta slíks styrks, og eru ákvæði um það tekin upp í frv. til endursamþykktar.

Nú er ég kominn að þriðja meginatriði breyt. þeirra, sem frv. fer fram á, að gerðar verði á tryggingarl., þ. e. þeim kafla frv., sem miðar að því að bæta fjárhagsafkomu sjúkrasamlaganna.

Gert er ráð fyrir, að í þá átt miði drjúgum nánara eftirlit af hálfu Tryggingarstofnunar ríkisins með rekstri allra samlaga, einkum varðandi mannahald, launagreiðslur og samninga við lækna, sjúkrahús og lyfjabúðir, sem þau eiga mest undir um afkomu sína. Sjúkrasamlögunum var í upphafi ætluð fullkomin sjálfsstjórn í trausti þess, að þannig fyndu þau til mestrar ábyrgðar og gættu bezt hagsmuna sinna. En þeir, sem þessu treystu, verða að játa, að hér hafa þeir orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. Sum sjúkrasamlög hafa af ótrúlegri léttúð tekið á sig þær kvaðir, sem vitað er, að þau fá ekki risið undir. Er eftir á séð, að öruggara hefði verið, að Tryggingarstofnunin hefði frá því fyrsta haft nánari afskipti af og eftirlit með rekstri samlaganna heldur en hún var látin hafa.

Þá er jafnframt bætt aðstaða sjúkrasamlaga til að ná hagkvæmum samningum við lækna, sjúkrahús og lyfjabúðir. Og fyrst og fremst með því, að sá varnagli er sleginn, að ef kröfur þessara aðilja til sjúkrasamlaganna verða slíkar, að þau geti fyrirsjáanlega ekki risið undir þeim, eru samlögin jafnframt því, sem þau láta ósamið, losuð við skuldina til að greiða fullan sjúkrakostnað meðlima sinna til lækna, sjúkrahúsa og lyfjabúða, og verða þá hinir tryggðu að láta sér nægja minni greiðslur, eftir getu viðkomandi samlags, upp í áfallinn kostnað, og læknar, sjúkrahús og lyfjabúðir að skipta við hvern einstakan án milligöngu samlagsins. vonast er þó til, að til þessa þurfi ekki að koma. Svo eftirsóknarverðir eru fastir samningar við sjúkrasamlög læknum, sjúkrahúsum og lyfjabúðum, að takast ætti að halda þessum aðiljum til fyllstu sanngirni, ef við liggur, að annars verði engir samningar gerðir.

Það, sem þó mestu kynni að muna um fjárhagslega afkomu sjúkrasamlaganna, er það, að gert er ráð fyrir, að ekki sé skylt að tryggja þá, sem þegar hafa tekið mjög alvarlega langvarandi, virka sjúkdóma, þ. e. a. s. með tilliti til þeirra sjúkdóma. Þetta er rétt tryggingarregla og hliðstæð því, að menn brunatryggja ekki hús sitt eftir að það er brunnið. Hér má til nefna sjúkdóma eins og berklaveiki, holdsveiki, geðveiki og aðra slíka langvarandi sjúkdóma, sem falla undir l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Um þetta verður nánar ákveðið í reglugerð. Þó ber að skilja ákvæði frv. svo, að ef maður einu sinni er kominn í tryggingu og tekur slíkan alvarlegan, langvarandi sjúkdóm, þá er tryggingunni skylt að annast hann án tillits til þess, hver sjúkdómurinn er, í allt að 26 vikur, nema fyrir liggi, að hann hafi áður notið sjúkrahús eða hælisvistar vegna þess sjúkdóms, sem þá fellur þegar undir ríkisframfærsluna, að svo miklu leyti, sem fullnægt er skilyrðum laga þar að lútandi.

Ákvæði viðvíkjandi beinum fjárframlögum ríkissjóðs eða hins opinbera til sjúkratrygginganna eru tvenn. Hámark framlags ríkis og bæjar- og sveitarfélaga er hækkað úr 9 kr. upp i

10 kr. á hvern tryggðan. Einnig er ætlazt til, að í stað 150000 kr. verði 200000 kr. veittar á ári úr ríkissjóði til lífeyrissjóðs. Þetta er miðað við, að bætt verði upp það, sem lífeyrissjóður tapar við, að vextir ellistyrktarsjóðanna eru afhentir bæjar- og sveitarfélögunum til úthlutunar.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. sé ljóst, að í frv. þessu er um breyt. að ræða, sem líklegar eru til að megna nokkurs um að gera rekstur trygginganna öruggari og betri bæði að því er snertir hina tryggðu og einnig fjárhagshlið trygginganna sjálfra. Ég treystist þó ekki til fyrir hönd trygginganna að taka alls hugar glaður og öruggur við þessum endurbótum, því að eflaust verður eftir sem áður erfitt fyrir tryggingarnar að fá staðizt fjárhagslega. Stjórn Tryggingarstofnunar ríkisins, sem sérstaklega hefir kynnt sér þessa hlið málsins, efast mikið um, að þær endurbætur, sem frv. felur í sér að þessu leyti, séu fullnægjandi. En þess er því miður engin von, eins og nú hagar til hér á Alþ., að frekari endurbótum sé hægt að koma á um þetta að þessu sinni. Og þá geri ég ráð fyrir, að þeir, sem unna tryggingunum vaxtar og viðgangs, vilji þó heldur taka þetta, sem býðst, en ekkert.

Vil ég svo óska, að málið gangi til 2. umr. og allshn.