11.12.1937
Neðri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri h(. (Vilmundur Jónsson):

Allshn. hefir klofnað um málið og skilað tveimur nál., á þskj. 304 frá meiri hl., en þskj. 305 frá minni hl. Meiri hl., sem er skipaður fulltrúa Alþfl. og fulltrúum Framsfl. í n., leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem getið er um í nál. Skal ég leyfa mér að gera grein fyrir þeim að svo miklu leyti sem þörf er á. Raunar er aðeins ein brtt. efnisbreyt., hinar mega heita aðeins orðabreyt.

Till., sem felur í sér efnisbreyt., er við 1. gr. frv. og á þá leið, að ráðh. skipi tryggingarráð ettir tilnefningu þriggja stærstu þingflokkanna, en það hefir verið svo, að ráðh. hefir skipað þetta ráð án þess að til slíkrar tilnefningar kæmi. Að ekki var ákveðið upphaflega, að tryggingarráð væri kosíð af Sþ., sem eðlilegast mundi vera, mun hafa komið til af því, að nauðsynlegt þótti, að svo væri kveðið á, að í tryggingarráði ættu sæti menn með sérþekkingu, tryggingarfræðingur eða hagfræðingur og lögfræðingur, en nú hefir þessi millileið verið valin og jafnframt gert ráð fyrir því, að þótt ráðh. skipi tryggingarráð eftir tilnefningu þingflokkanna, þá leitist hann við að ná samkomulagi um, að tilnefningu sé hagað þannig, að tryggingarráð þurfi ekki að vera án þessara sérfróðu manna.

2. brtt. er aðeins orðabreyt. við 2. gr. frv., þar sem talað er um frjálsa tryggingu. En hún á að vera bæði fyrir þá, sem eru ekki tryggðir skyldutryggingu, og líka þá, sem eru skyldutryggðir, en vilja hækka trygginguna með því að bæta við frjálsri tryggingu. Er þá óviðkunnanlega til orða tekið, þar sem talað er um bæði hærri og lægri bætur en ákveðið er í l., því að ef einhver er skyldutryggður og bætir við frjálsri tryggingu, þá getur ekki verið um annað að ræða en viðbótarupphæð, þ. e. hærri bætur. Þetta liggur í hlutarins eðli, og er því lagt til, að þessi orð séu felld niður.

3. brtt. er við 9. gr. frv., þar sem talað er um þá, sem tryggingarskyldir eru í sjúkrasamlagi samkv l. Gr. er orðuð um í því skyni að gera hana auðskildari, án þess að ætlunin sé að breyta efni hennar á nokkurn hátt. Tryggingarskylda og réttindi nær yfir 16–67 ára aldur, enda séu menn ekki haldnir alvarlegum langvinnum virkum sjúkdómum. Þó skulu þeir, sem slíkum sjúkdómum eru haldnir, hafa rétt til að tryggja sig gegn öðrum sjúkdómum, sem ekki koma þessum við. Gamalt fólk, eldra en 67 ára, er ekki tryggingarskylt, en hefir sama rétt til tryggingar og aðrir, enda uppfylli það sömu skilyrði. Þessi gr. hefir valdið misskilningi, en brtt. n. miðar ekki til annars en að ekki orki tvímælis það, er ég nú hefi greint, og ætla ég, að það hafi nú komið skilmerkilega fram.

4. brtt. er við 19. gr. frv. og er aðeins um það, að í 36. gr. l. skuli vitnað til 31. gr., en í þeirri gr. l. er gert ráð fyrir því öryggisákvæði, að ef sjúkrasamlag stendur frammi fyrir því, að eiga að gera samninga við lækna og aðra, sem það telur sér fyrirsjáanlega um megn að fullnægja, þá er jafnframt því sem það lætur ósamið, dregið úr hinni almennu skyldu þess til að fullnægja öllum þeim skyldum við hina tryggðu, sem í 30. gr. l. getur. Í 36. gr. þarf aðeins að vitna til þessa öryggisákvæðis, ef ákvæði þessara tveggja gr. eiga ekki að stangast á.

Þá er brtt. við 26. gr. frv., sem er um ellitryggingar, og er hún á þá leið, að þeir, sem tryggðir eru í lífeyrissjóði, öðrum en lífeyrissjóði ríkisins, en viðurkenndur af honum, eigi rétt á endurgreiðslu á iðgjöldum sínum, sem nemur meðaliðgjaldi til lífeyrissjóðs ríkisins, en þeir, sem borga minna en meðaliðgjald, eigi auðvitað aldrei að fá meira endurgreitt en þeir hafa greitt. Vera kann. að þetta hafi legið í hlutarins eðli, en þó þótti viðkunnanlegra að taka það greinilega fram, og þess vegna er þessi brtt. fram borin: „þó aldrei hærri upphæð en nemur greiddum iðgjöldum þeirra“.

Með 6. brtt., sem er við 36. gr. frv., er lagt til, að gr. verði orðuð um, en efnisbreyt. er ekki önnur en sú, að niður er fellt ákvæðið um að halda sérstökum iðgjöldum til lífeyrissjóðs frá kaupstöðum, frá þorpum með yfir 300 íbúa og frá sveitum. Var samkomulag um það í n., að þetta ákvæði skyldi fellt niður, og raunar líka við tryggingarstofnunina, sem vann með n. að þessum breyt. Er ekki gert ráð fyrir, að þetta hafi nein áhrif til breyt. á úthlutun ellilaunanna frá því, sem nú er í frv. Að öðru leyti hefir gr. verið lagfærð að orðalagi, og engan veginn horfið frá höfuðtilgangi frv., að tryggt sé betur en áður, að því fé, sem verja á til ellitrygginga, verði ekki á kostnað gamalmennanna úthlutað eins og hreinu þurfamannafé.

Minni hl. n. hefir skilað nál. á þskj. 305, eins og ég gat um, og gerir hann það að till. sinni, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá á þá leið, að skipuð verði 3 manna n. til þess að gera heildarendurskoðun á tryggingarlöggjöfinni, og fái málið ekki aðra afgreiðslu á þessu þingi. Það liggur í hlutarins eðli, að meiri hl. leggur á móti þessari dagskrá, og nægir að vísa til þess, að þetta mál var eitt af þeim málum, sem stjórnarflokkarnir sömdu um sin á milli, er samkomulag var um stuðning við ríkisstjórnina, að fram skyldi ganga á þessu þingi.

Minni hl. styður till. sína með því, að málið sé ekki nægilega undirbúið. Nú er það svo, að hér er að flestu leyti um algerða byrjunarstarfsemi að ræða, og hlýtur því svo að fara fyrstu árin, að breyta verður þessari löggjöf aftur og aftur, eftir því sem reynsla sýnir, að þörf krefur. Má búast við því, að fyrstu árin verði jafnvel á hverju þingi að lagfæra l. á einn eða annan hátt. Það er því ekki enn kominn sá tími, að heildarendurskoðun geti farið fram á þessari löggjöf, sem ætla megi, að síðan geti staðið óbreytt um langan aldur. Þessar breyt., sem hér er farið fram á, eru í raun og veru ekki mjög miklar, og þær eru sæmilega undirbúnar. Málið lá fyrir síðasta Alþingi. Það hefir verið athugað vel af tryggingarstofnuninni, og einnig hefir um öll hin þýðingarmestu atriði mjög verið stuðzt við till., sem fram komu frá fulltrúafundi allra sjúkrasamlaga á landinu, er haldinn var á Akureyri á síðastl. sumri. Ég ætla því, að þessar breyt. séu mjög sæmilega undirbúnar, eftir því sem gerist um slíkar lagabreyt.

Önnur ástæða, sem minni hl. ber fram fyrir hinni rökst. dagskrá, virðist vera sú, að honum þykir frv. stefna að því að taka stj. sjúkrasamlaganna af bæjar- og sveitarfélögunum, en það sé lýðræðisbrot gegn þeim. Ég vil nú raunar, að bæjar- og sveitarfélögin séu sem allra sjálfstæðust gagnvart ríkinu, og víst hefði ég kosið, að þau hefðu sýnt sig þess trausts makleg, sem til þeirra var borið, er þeim var falin sjálfstj. yfir sjúkrasamlögunum. En stj. þeirra og ráðsmennska að þessu leyti hefir því miður sætt rökstuddri gagnrýni. Það hefir farið svo, að þegar stj. sjúkrasamlaganna hafa verið skipaðar, hefir pólitísk afstaða flokkanna innan bæjarstj. yfirleitt ráðið ein öllu. Og áhuginn á því að gera samlögin fjárhagslega trygg hefir ekki verið nægilegur. Sum samlögin hafa kastað öllum áhyggjum sínum á Tryggingarstofnun ríkisins, en þeim, sem reynt hafa að leysa þessi mál sjálf, hefir flestum tekizt fremur illa.

Fulltrúafundur sá, sem haldinn var á Akureyri, og ég nefndi, sá þetta og krafðist þess, að Tryggingarstofnun ríkisins væru fengin meiri yfirráð yfir samlögunum með því að hún væri látin hafa hlutdeild í stj. þeirra. Hér er nú farið fram á, að tryggingarstofnanin hafi miklu meira eftirlit en áður var með rekstri samlaganna. En þá er líka eðlilegt, að hún hafi meira samband við stj. samlaganna, sem bezt verður með því, að hún ráði formönnum þeirra, hvers um sig, og eigi þannig þeirra trúnað.

Þó að hér skorti nokkuð á fullan umráðarétt bæjar- og sveitarfélaga, er það engan veginn lýðræðisbrot gagnvart þeim, því að samlögin eru sjálfstaðar fjárhagslegar stofnanir, og bæjarfélögin leggja ekki meira fram til þeirra en ríkið. Verður því ekki talið ósanngjarnt, að bæjar- og sveitarfélögin hafi ekki aðeins jafna hlutdeild á við ríkið um stj. þeirra, heldur miklu meira. Og ef menn óttast pólitík með þeirri tilhögun, sem gert er ráð fyrir í frv., má benda á, að reynslan hefir sýnt, að ef bæjar- og sveitarfélögin eiga ein að ráða stj. samlaganna, þá er fyrst og fremst ef ekki eingöngu farið eftir pólitískum viðhorfum. Ég vona, að hlutdeild sú, sem tryggingarstofnuninni yrði á þennan hátt fengin í stj. samlaganna verði einmitt ekki eins einhliða pólitísk, meðal annars fyrir það, að í stj. hennar er gert ráð fyrir 3 mönnum, skipuðum af 3 stærstu þingflokkunum. — Þegar ég tala um, að bæjar- og sveitarfélögum hafi yfirsézt um skipun samlagsstjórnanna, þá er ég ekki að ásaka neinn flokk sérstaklega. Ég geri ráð fyrir, að allir flokkar hafi syndgað þar nokkurn veginn jafnt.

Þessi tilhögun á stj. slíkra fyrirtækja sem samlögin eru ekkert einsdæmi. Það má kalla reglu, að í fyrirtækjum, þar sem ríki annarsvegar, en bæjar- og sveitarfélög hinsvegar eiga hlut að máli, sé stj. skipuð af báðum þessum aðiljum. Svo er t. d. í skólanefndum, þar sem bæjar- eða sveitarfélögin kjósa alla, nema formanninn, sem fræðslumálastj. skipar. Meðan byggingarsjóðir verkamanna voru í umsjá bæjarfélaganna, voru tveir stjórnarmeðlimir skipaðir af bæjarstj., en formaður af atvinnumálaráðuneytinu.

Ég skal geta þess, að þótt minni hl. n. hafi skilað sérstöku nál. og leggi til, að málinu verði frestað og það afgr. með rökst. dagskrá, þá er það ekki svo að skilja, að ágreiningur hafi orðið í n. um brtt., svo langt sem þær ná.

Út af brtt. á þskj. 248 vil ég beina þeirri spurningu til hv. flm., hvort þeir hafi athugað málið nógu vandlega. Mér virðist, sem till. séu fluttar af nokkrum misskilningi á frv. Þegar menn búa sig undir að flytja slíkar brtt., ættu þeir að gera sér að reglu að ræða um þær við n., sem getur orðið til þess, að þeir losni við að gera sig bera að e. t. v. veigamiklum misskilningi. Vera má þó, að misskilningur hv. flm. sé ekki alveg eins mikill og mér sýnist, og bið ég eftir því að heyra þá tala fyrir þessum till. sínum.

N. hefir ekki tekið afstöðu til brtt. á þskj. 320, þar sem farið er fram á, að meistarar greiði iðgjöld fyrir iðnnema, og hafa nm. óbundnar hendur um hana. En ég er hræddur um, að ef þetta ákvæði er sett í l., verði að breyta l. g öðrum stað jafnframt, þar sem tekið er fram, að meistarar eigi endurkröfurétt á þeim iðgjöldum, er þeir hafi lagt fram fyrir iðnnema.