18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1938

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 5. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, las upp prýðilegan ræðukafla eftir mig frá þinginu 1931 — og það var nú bezti hlutinn í ræðu hans. — Ég vildi mega minna hann á það, að síðan 1931 hafa miklar breytingar orðið. Ég vildi minna á tekju- og eignarskatt, sem var hækkaður á hærri tekjum aðallega, auk þess sem barnafrádráttur var hækkaður. Með útsvarinu eru þessir beinu skattar orðnir svo háir, að sjálfir kommúnistar hafa ekki treyst sér til að bera fram frv. um hækkun þeirra á þessu þingi. Síðan 1931 hefir verið afnumið útflutningsgjald af síld og saltfiski, og tollum af kolum og salti verður væntanlega aflétt á þessu þingi. Enn fremur hefir verið afnuminn tollur af nær öllum efnivörum til iðnaðar. Kaffi- og sykurtollur hefir verið lækkaður. Þetta hefir breytzt síðan 1931. — Annað hefir líka breytzt. Vegna minnkandi innflutnings og hafta, sem sérstaklega hindra innflutning hinna tollhærri vörutegunda, hafa vörutollur og verðtollur hrapað niður síðan 1931. Vörutollurinn var þá á 3. millj. króna einn saman. En árið 1936 urðu samanlagðir vörutollar og verðtollar ekki nema rúmlega 2 millj. eða minna en vörutollurinn einn áður.

Hv. þm. veit, að nú er ekki nema um tvennt að ræða, að taka féð þar, sem það fæst, eða taka það ekki og leggja ekkert til þeirra mála, sem samkomulag er um meðal vinstri flokkanna, að séu nauðsynleg. Annaðhvort er að láta hvorttveggja ógert, nýja fjáröflun og framkvæmdir, eða velja þá leið, sem stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að fara. Ég játa, að sú leið er að ýmsu leyti neyðarúrræði: En var hitt betra, að gera ekki neitt?

Ég verð að segja það, að enda þótt kommúnistar standi sig vel í yfirboðum, þá skáka sjálfstæðismenn þeim þar, og þó sérstaklega hv. þm. G.-K., Ólafur Thors. Það er kostulegt að heyra, þegar hann hneykslast á tollum og bölsótast í nafni flokks síns yfir tollaálögum á neyzluvörur fólksins, hverja skóbót, matarbita og sopa, — í nafni borgaraflokksins, íhaldsflokksins, Sjálfstfl. eða hvað sem hann hefir kallað sig. Því að hverjir hafa alltaf barizt fyrir óbeinu sköttunum, tollunum? Hverjir hafa alltaf barizt gegn lækkun þeirra? Hverjir andmæltu lækkun síldartollsins? — Það voru þeir sjálfstæðimenn. — Hverjir stóðu móti lækkun kaffi- og sykurtollsins? - Sjálfstæðismenn. — Hverjir vilja lækka tekju- og eignarskatt efnamanna og velta þeim álögum yfir í tolla á nauðsynjum almennings? Það og einmitt það vilja sjálfstæðismenn og hv. fulltrúi þeirra, þm. G.-K., Ólafur Thors.

Og þeir heimta töluvert fleira. Þeir heimta, að kaupgetan sé skorin niður, svo að alþýða spari sér erlendar vörur. Þeir hafa barizt móti því að leggja fé í verkamannabústaði í Reykjavík. Þeir þykjast vorkenna Reykvíkingum fyrir dýrtíð, samtímis því .sem þeir heimta gengisbrask til þess að geta aukið dýrtíðina til gróða fyrir stétt sína.

Hv. þm. sagði, að menn yrðu að stilla kröfum í hóf. Hverjir eru það einkum, sem hann vili láta stilla kröfum í hóf? Eru það verkamenn og sjómenn? Ætli það séu þeir, sem hafa verið kröfuharðastir um lífsgæðin? — Ætli það séu ekki heldur menn sem standa hv. þm. og Sjálfstfl. nær, sem hafa verið kröfuharðastir, hvort sem framleiðslan hefir borið sig eða ekki? — Maður líttu þér nær!