13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

124. mál, alþýðutryggingar

Jakob Möller:

Sumir menn eru svo gerðir, að þeir eru ákaflega útausandi á það, sem þeir eiga ekki til. Og mér skilst, að hv. frsm. meiri hl. n. sé einn af þeim mönnum, og vissi ég það raunar áður um þann flokk manna. Hv. þm. hélt nú víst, að það, sem hann var mest útausandi á í sinni ræðu nú, það ætti hann í ríkum mæli, en það er skilningur á því, sem hann fer með. En það brestur mjög á, að hann skilji og víti yfirleitt, hvað hann er að tala um. Hv. frsm. bauð hv. 5. þm. Reykv., að ef hann vildi koma til sín í einrúmi, þá myndi hann leiða hann í réttan skilning á öllum þessum hlutum, en mjög vantreysti ég honum í því efni. En það virðist bresta mjög á, að hann þekki þessi l. og þetta frv., og er það hastarlegt um mann, sem ekki aðeins er flm. að frv., heldur hefir líka haft það til meðferðar sem nefndarformaður og frsm., að verða uppvís að því að vita ekki, hvað er í frv., og túlka það á annan veg en efni standa til. En það er ekki aðeins á þessu frv. og l., sem hv. þm. brestur allan skilning, heldur líka á hinu, hvað tryggingar eru og þeirra ætlunarverk. Svo setur hann sig á háan hest og þykist fara að kenna hv. 5. þm. Reykv. til dæmis; og mér vildi hann gera upp skoðun og tilgang, sem ég ekki á neinn hátt kannast við. Hann sagði, að mín rök væru mjög í aðra átt en niðurstaðan hefði verið, sem sé, að ég hefði leitt rök að því, að bráð nauðsyn bæri til að breyta l., og tók sérstaklega til ákvæðin að því er snertir framkvæmd sjúkratrygginga gagnvart langvarandi sjúkdómum. Hann bar það fyrir sig, að fjmrh. mundi ekki sætta sig við framvegis, að lögin yrðu framkvæmd eins og gert hefir verið. Nú veit ég, að framkvæmd á sjúkratryggingum hefir að þessu leyti verið framkvæmd í fullu samræmi við tryggingarstofnunina og ráðh. Ég skal ekki fullyrða, að það hafi verið í samráði við fjmrh., en ég veit, að það var í fullu samráði við ráðh., sem tryggingarmálunum stjórnar. Og þá þykir mér furðulegt, ef ríkisstj. hefir breytt um afstöðu nú, að því er snertir ríkisframfærslu þeirra sjúklinga, sem hér eiga hlut að máli, sem eru aðallega berklasjúklingar og geðveikissjúklingar, þannig að ef þeir yrðu ekki verndaðir með lagasetningu, mætti óttast, að breytt yrði frá því, sem verið hefir. Ég mótmæli því, að nokkur hætta sé á slíkum hringlandaskap.

Fljótfærni og flumbruskapur hv. frsm. kemur átakanlega fram í ummælum hans yfirleitt um breyt. á þessari lagasetningu, sem hann telur mikinn létti að, án þess að hann líti á það, hvernig framkvæmdin hefir verið hingað til. Hann kvað mikinn létti að því, að framvegis yrði enginn tekinn í sjúkratryggingu nema fyrir lægi læknisvottorð, og svo að ég lesi ofurlítið í málið fyrir honum, hefir hann meint, að enginn yrði tekinn í samlagið, sem haldinn er af langvarandi sjúkdómi, skv. 9. gr. frv. En gallinn á þessu er bara sá, að hann hefir ekki lesið 9. gr. til enda, þó að hann sé flm. og hafi haft málið til meðferðar og sé formaður og frsm. málsins frá n. hér í deildinni. því að það fer svo fjarri, að þeir séu ekki tryggingarskyldir og hafi ekki rétt. Það eru aðeins langvarandi sjúkdómar, sem um er að ræða, að þeir geti ekki tryggt sig gegn. En það er ekki heldur eins og nú er. Og þá verður léttirinn enginn, samkv. því, sem lögin eru nú framkvæmd. Get ég þar um vísað til grg., sem ég veit, að á að vera lagasetning, eða svo ætlast þeir til. Þar er þetta skýrt nánar og tekið fram, að þetta gildi alveg sérstaklega um þá sjúkdóma, sem ríkið eigi að standa straum af kostnaði við, að sjúklingar séu ekki tryggðir gagnvart þeim, en öllum öðrum. M. ö. o., þetta er óbreytt í framkvæmdinni frá því, sem verið hefir, þó að þessi lög verði sett.

Hv. þm. kann að hafa lesið frv., en hann hefir farið á hundavaði yfir lögin, því að hann sagði, að samningar sjúkrasamlagsins við læknana og sjúkrahúsin þyrftu ekkert að koma tryggingarstofnuninni við; það væri fyrst nú í þessu frv., sem liggur fyrir, sem ráðstafanir væru gerðar til þess, að tryggingarstofnanir hefðu nokkur afskipti af slíkum samningum, nema aðeins væri heimilað í lögum, að tryggingarstofnanir semdu fyrir sjúkrasamlög. Ég skal lesa upp 29. gr. tryggingarl. fyrir hv. þm. 2. málsgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Sjúkrasamlögin lúta öll yfirstjórn tryggingarstofnunar ríkisins“. Hvað er sú yfirstjórn? Hvað heldur þm., að hún hafi að þýða, ef ekki það, að tryggingarstofnunin getur tekið fram fyrir hendurnar á sjúkrasamlögunum, ef tilefni er vegna samninga þeirra við lækna og sjúkrahús, og skorizt í leikinn og ónýtt slíka samninga? Það er beinlinis lagt fyrir hér í Reykjavík a. m. k. að senda þá samninga til tryggingarstofnunarinnar til að fá staðfestingu á þeim. Þetta er líka alveg sjálfsögð afleiðing af því ákvæði, að tryggingarstofnunin hefir yfirstjórn samlaganna.

Hv. þm. lá nokkuð mikið á að koma því inn hjá mönnum, að stj. sjúkrasamlags Reykjavikur væri óholl tryggingunum og bæri einhverja aðara hagsmuni fyrir brjósti en hagsmuni trygginganna. Þetta á náttúrlega að vera til að réttlæta það, að honum og hans flokki er svo mikið áhugamál að ná yfirráðum yfir sjúkrasamlagi Reykjavíkur úr höndum þess meiri hl., sem hún er í nú, — meiri hl., sem ég skal taka fram, að hefir unnið í fullkominni samvinnu við minni hl., af því að sá minni hl., sem er í stjórn sjúkrasamlagsins, lítur nákvæmlega sömu augum á, hvernig beri að framkvæma lögin eins og meiri hl. gerir. Þar greinir ekkert á. Fyrir þeim vakir hvorutveggja, að meðlimir geti haft trygginganna sem mest not og að rekstur trygginganna sé fullkomlega tryggur. Og þetta samstarf hefir leitt til þess, að sjúkrasamlag Reykjavíkur er eina samlagið á landinu, sem stendur virkilega tryggum fótum. Ég veit ekki, hvort það er þetta, sem hv. frsm. og flokksmenn hans sjá ofsjónum yfir og vilja ekki láta standa til frambúðar. En ég er viss um það, að ef litið er á þessa breyt. eins og hv. frsm. gerir, að hennar vegna megi lækka iðgjöldin stórkostlega, þá verður sjúkrasamlagið komið á hausinn innan skamms tíma, — og kynni það að vera höfuðtilgangurinn. Því að hann og hans flokksmenn hafa verið með alþýðutryggingarmálunum í því skyni að slá flokki sínum upp og uppskera pólitískan hagnað, en minna hugsað um hitt, hvað er framkvæmanlegt. Þess vegna var líka mjög mikil andstaða gegn því, að iðgjöld væru sett eins há í sjúkrasamlagi Reykjavíkur eins og gert var. En samlagið naut þess m. a., að flokksmenn þessa hv. þm., sem sæti áttu í stj. sjúkrasamlagsins, voru alveg sammála öðrum meðlimum stj. um það, hvað gera yrði til þess að tryggja afkomuna.

Það, að ég vakti athygli á þeim vandkvæðum, sem ég tel á því að létta alveg greiðslum af sjúklingum til lækna, var nú kærkomið tilefni fyrir hv. frsm. til að reyna að sannfæra menn um, hvað óhollur ég væri tryggingunum og þeirra tilgangi. En þetta sýnir eitt m. a., hversu óskiljanlega skammsýnn og þröngsýnn þessi hv. þm. er í þessu máli. Hann ætti að vita það, að svið trygginganna er ekki svo vítt, að það vantar stórkostlega mikið á, að þær geti tekið á sig alla þá hjálp, sem æskilegt væri. En það er hægt að bæta þetta nokkuð upp með því að veita þeim víðtækari tryggingar en verið hefir. Það eru vissir sjúkdómar, sem meðlimum er engin hjálp veitt til að standast kostnað af, og njóta þeir sjúklingar sama sem einskis góðs af tryggingunum. Væri ekki sanngjarnara að gera þeim mönnum, sem njóta almennt hjálpar, að greiða eitthvað af þeirri hjálp, til þess að ennþá fleiri geti notið einhverrar fjárhagslegrar hjálpar við því, sem þá þjakar? Á það ekki að vera tilgangurinn að færa tryggingarnar inn á sem viðast svið, til þess að sem allra flestir geti orðið aðnjótandi þeirra hlunninda, sem sjúkrasamlag getur veitt?

Þessi hv. þm. er nú í óþægilegri mótsögn við sjálfan sig í þessu sambandi. Hann hefir borið fram frv. um ríkisframfærslu sjúkra og örkumla, þar sem — þó undarlegt sé — sjúklingum er gert að greiða nokkurn hluta framfærslukostnaðar. Þar er aðeins undanskilinn viss fjöldi, sem á að fara eftir mati, þeir, sem talið er að geti staðið straum af sínum sjúkdómum sjálfir. (VJ: Hver bar það fram?). Alþfl. bar það fram; þessi hv. þm. átti víst ekki sæti á þingi þá. En ég geri þó ráð fyrir, að hann hafi ekki lítið verið við riðinn samningu frv., og sennilega grg. líka. Í þeim tryggingum skulu allir, þó að þeir eigi ekki neitt, greiða einn fimmta kostnaðar. Og hvers vegna? Jú það er sagt í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Þetta verður nokkur trygging gegn misnotkun“. Og ef þarf nú að tryggja gegn misnotkun í þessu sambandi, að sjúklingar leggist í opinber sjúkrahús undir læknishendi, við hverju má þá búast um misnotkun í sambandi við ánauð á læknum í almennum sjúkratryggingum? En það er einmitt þessi misnotkun, sem hætt er við, m. a. vegna þess, hve tryggingarnar er nýjar hér. Hv. þm. lagði mikla áherzlu á, að t. d. á Norðurlöndum væri ekkert fjórðapartsgjald til lækna. En þess er bara að gæta, að þar er tryggingarkerfið orðið tuga ára gamalt og fólk vant tryggingum og vant því að nota þær hóflega. Og það er ekki af því, að ég dragi taum læknanna, heldur af því, að ég óttast, að tryggingunum verði íþyngt með því að létta gjaldinu af, með því að þá náist verri samningar við lækna. Þetta geri ég mér ljóst, þó að þessi hv. þm. loki augunum fyrir því. Hann segist óhræddur vilja standa í samningum við læknana. Mér er kunnugt, að honum er ekkert á móti skapi að standa nokkuð fjandsamlega gagnvart þessum „kollegum“ sínum, og hefir hann sýnt það fyrr. En það skiptir engu í þessu sambandi, hvað getur verið honum til skemmtunar eða ekki. Það, sem skiptir máli, er, hvernig þetta kemur við tryggingarnar. Og ég hefi leitt rök að því, að eðlilegt er, að þetta verði til þess, að krafa lækna komi fram um það, að gjald af hálfu sjúkrasamlagsins verði fært upp, og þannig verði samlögunum íþyngt. Að vísu njóta þeir tryggðu þessa, en á kostnað þeirra, sem ættu að fá tryggingu, en ekki er hægt nú, vegna þess að ástæður ekki leyfa. Ég held fram, að það væri miklu nær að færa út verksviðið og veita heldur sjúklingum í fleiri tilfellum aðstöðu til að fá nokkurn hluta greiddan af sínum sjúkrakostnaði.

Hvers vegna er það, að samlögum er gert að greiða aðeins hluta af læknislyfjum? Er það ekki að sjálfsögðu til að vera hemill á óþarfa eyðslu? Eg held, að hv. frsm. hafi viðurkennt það berum orðum. Hver er þá munurinn á þessu tvennu? Munurinn er sá einn, að sá sjúklingur, sem kemur með meðalaávísun frá lækni, hefir nokkurt sönnunargagn fyrir því, að hann hafi þurft á lækni að halda og aðstoð sjúkrasamlags. En sjúklingar sem fara til læknis og kvabba án þess að læknir sjái nokkra ástæðu til að gera neitt, sýna engin skilríki fyrir því, að þeir hafi til læknis að fara. En er hægt að gera ráð fyrir, að læknar sætti sig við slíka misnotkun, sem gengur eingöngu út yfir þá? Hv. frsm. hefir svarað því með ákvæðum 16. gr. um það, að ef ekki náist samningar, þá skuli setja reglur um, að greiða verði aðeins nokkurn hluta læknishjálparinnar. M. ö. o., hann kemur tryggingunum alveg út á kviksyndi, þannig að maður getur ekkert vitað, hvernig þær koma til með að standa. Ég held fram, að það væri að leita fyrst samninga, áður en lagt er út í þessa hættu, sérstaklega vegna þess, að það sem vantar á, að sjúklingar fái sjúkrahjálp, er hægt að bæta þeim upp á öðrum sviðum, með því að veita þeim frekari og víðtækari hlunnindi gagnvart sjúkdómum, sem nú er sjúkrasamlaginu ekki fært fjárhagslega.

Hv. þm. sagði, að mjög væri áberandi, að stjórn sjúkrasamlagsins hefði dregið taum læknanna í samningum við læknafélagið. Ég lýsi þetta alveg tilhæfulausan uppspuna, sem hv. getur ekki heldur fært nokkur rök fyrir. Ég vildi út af þessu öllu saman spyrja hv. frsm. að því — af því að mér heyrðist hann vera svo fús að miðla mönnum af sinni ríku skilningsgáfu —, á hverju það byggist, sem ákveðið er í 9. gr., þar sem sett eru ákveðin skilyrði fyrir því, að menn geti verið tryggingarhæfir. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þar, sem sjúkrasamlög eru stofnuð, hefir sérhver maður, karl eða kona, eidri en 16 ára og yngri en 67 ára og búsettur á samlagssvæðinu eða stundar þar atvinnu lengur en 6 mánuði, rétt og skyldu til að tryggja sig í samlaginu, enda sé hann ekki haldinn af alvarlegum, langvinnum, virkum sjúkdómi, og fer um þetta eftir nánari ákvæðum í reglugerð“. Mér nægir að spyrja hv. frsm. að því, hvort sama nái yfir í báðum tilfellum. (VJ: Já). Mér er það ekki ljóst, hvers vegna þessi munur var gerður á upphaflega. Annars sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í einstök atriði frv. Það er að vísu einnig atriði í þessari sömu gr. um það, að tryggingarskyldan er þar færð yfir á ekki aðeins þá, sem búsettir eru á tryggingarsvæðinu, heldur líka þá, sem stunda þar atvinnu a. m. k. 6 mánuði. Ég sé ekki, að þetta sé til bóta, og mætti þarna láta nægja að hafa rétt til tryggingar þessum mönnum. Það er vitanlega ómögulegt að framkvæma þetta. Svo er það annað, sem ber að athuga í þessu sambandi, og það er, að ef til vill er sjúkratryggingunum með þessu stefnt í hættu vegna þess að fólk, sem veit sig haldið af einhverjum sjúkdómi, getur þá auðveldlega safnað sér upp biðtíma annarsstaðar en það á heima, og svo ef eitthvað bjátar á, þá getur það komið og heimtað sjúkrastyrk. Þetta er ekki alveg út í bláinn sagt, því að þess eru dæmi, að einstaklingar hafa reynt að koma sér í hlunnindi hjá sjúkrasamlögunum, og þarna er heldur greitt fyrir þeim möguleika. — Ég verð svo að láta þetta nægja að þessu sinni.