13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

124. mál, alþýðutryggingar

*Einar Olgeirsson:

Ég ber mikla virðingu fyrir rökvísi hv. frsm., þm. N.-Ísf., og mér þykir vænt um að heyra, að hann gerir það sömuleiðis sjálfur. En ég vildi óska, að hann vildi beita þessu betur en hann gerði, þegar hann var að tala um brtt., sem við kommúnistar berum fram hér við þetta frv. Viðvíkjandi dánarbótum til barna er það að segja, að samkv. l. á barn, sem er á framfæri eftirlifandi foreldris, rétt á að fá í dánarbætur 100 kr. fyrir hvert ár, sem það á eftir til að verða 16 ára. Í annan stað er það svo tekið fram, að barn, sem ekki sé þannig ástatt um, skuli fá 200 kr. Nú vildi hv. frsm. láta breyta þessu í þá átt, að til þess að öðlast þennan rétt þyrfti barn ekki aðeins að missa báða foreldra sína, heldur þarf það að hafa verið á framfæri hinna látnu eða annars þeirra. Hv. frsm. tók dæmi, að nú gæti svo verið og það væri oft svo, að barn væri tekið af fátækum foreldrum til ríkra fósturforeldra. Í þessu sambandi spurði hv. þm.: Er þetta barn, sem hefir verið tekið til ríkra fósturforeldra, rétthærra heldur en barn, sem er á framfæri fátækrar ekkju? Ég vil nú segja þessum hv. þm. það, að það er ekki síður algengt, að fátæka fólkið hjálpi hvort öðru heldur en þeir ríku. Það er ekki óalgengara, að fátæk verkamannahjón taki fósturbörn en rík hjón. Og það er þá ekki rétt, að barn, sem er á framfæi fátækra fósturforeldra, fái samt sem áður þessar 200 kr.? Það er eins og venjulega, að þegar þessir háu herrar eru að setja l., þá eru þau miðuð við þá ríku, en ekki þá fátæku.

Viðvíkjandi 9. gr. skal ég játa það, að ég hefi farið of sterkum orðum um breyt. n. á henni, þar sem ég sagði, að hún væri heldur til bóta. Eg sé það núna, að hún er alveg jafnslæm.

Þá talaði hv. frsm. mikið um aðalgr., sem rifizt er um, en það er 80. gr. Hann talaði mikið um það, hver ofraun það væri að fá okkur til að skilja. Ég verð að segja það, að það er undarlegur misskilningur hjá hv. þm. í sambandi við þessa gr. Það, sem ég sagði, var það, að það væri ómögulegt að skilja gr. öðruvísi en við skildum hana. Blað þessa hv. þm. hefir verið að halda fram allt öðrum skilningi á þessari gr. En ég verð nú að segja það, að mér finnst að hv. þm. N.-Ísf. farist ekki að tala með slíkum gorgeir um þessa gr., þar sem allt bendir til, að hann hafi alls ekki skilið hana sjálfur.

Þá kemur hv. þm. að því, sem var aðalatriðið, þar sem hann er að tala um, hvað það sé furðuleg aðferð, sem við kommúnistar viljum beita við þetta mál. Við viljum stíga eitt stórt spor til þess að gera tryggingarnar fullkomnar, um leið og við finnum að því, að fólkið hafi ekki verið nægilega undirbúið undir að taka á móti tryggingunum. En nú talar þessi hv. þm. um það eins og eitthvert glæfraspor, sem við viljum stíga í þessu máli. Ég verð að segja það, að ég vil bara reyna að hressa upp á kjarkinn hjá hv. þm., það dugir ekki að missa nú kjarkinn, þó að einhverjir erfiðleikar komi fram. Það eru engar líkur til, að fólkið sé verr undir það búið núna að stíga stór spor heldur en þegar l. voru sett. Það spor, sem knýjandi nauðsyn er á, að verði stigið viðvíkjandi 16. gr., er það, að hið. opinbera reki sjúkrahúsin, en að þau séu ekki í höndum einstaklinga. Þetta höfum við kommúnistar hvað eftir annað bent á. Það liggur í loftinu hjá öllum, sem vilja, að haldið sé áfram á þeirri braut, sem gengið var inn á með setningu l. um alþýðutryggingar, að þessi stóru spor séu stigin. Það eru engin glæfraspor. Ég hefi orðið var við það hjá þessum hv. þm., að hann hefir sterka tilhneigingu til að virða að vettugi samtök fólksins og fara sínar eigin götur. En fólkið vill, að haldið sé þarna áfram.

Hv. þm. talaði um, að við kommúnistar rugluðum saman alþýðutryggingum og framfærslu. Þess vegna segir hann, að okkar till. séu vitlausar og að till., sem fram koma til að tryggja framfærslu, eigi ekki heima í tryggingarlögunum, heldur framfærslulögunum. Flm. lítur skakkt á þetta mál. Þessar tryggingar, sem hér er um að raða, eru fyrir alþýðuna. Það eru ekki venjulegar vátryggingar. Og það er óhjákvæmilegt, að þær fari nærri löggjöf eins og t. d. framfærslulöggjöfinni. Ég veit ekki betur en við viljum stefna að því, að þessar tryggingar komi í staðinn fyrir framfærslulöggjöf. Við kommúnistar viljum, að það sé beitt stighækkandi gjöldum. Hv. frsm. álítur, að stighækkandi gjöld eigi ekki heima í tryggingarlöggjöf, heldur skattalöggjöf. En verkalýðurinn yfirleitt og Alþfl. raunar líka er með stighækkandi gjöldum. Skal því til sönnunar vitna í samþykktir, sem gerðar voru á fjölmennum fundi í fulltrúaráði verkalýðsfélaganna. Fulltrúaráðið samþ. ályktun þess efnis, að það vildi hafa mismunandi iðgjöld eftir efnahag manna. Viðvíkjandi því, sem flm. var að segja, að við blönduðum saman tryggingum og framfærslu, þá skal ég benda honum á það, að í sjálfum l. um elli- og örorkutryggingar er tekið fram, að ellilaunin skuli vera svo rífleg, að það nægi til árs framfærslu. Mér finnst yfirleitt, að það gæta nokkuð annars sjónarmiðs hjá hv. þm. N.-Ísf. en okkur kommúnistum og verkamönnum yfirleitt. Mér finnst, að hjá honum gæti mest sjónarmiðs þeirra, sem eiga fyrst og fremst að sjá um rekstur sjúkrasamlaganna, en að hann hugsi minna um hagsmuni alþýðunnar. Það er heldur enginn efi á því, að gallar þessara l., eins og þau voru upphaflega sett, stafa af þessu sama, að það hefir ekki verið tekið tillit til þeirra, sem við tryggingarnar eiga að búa. Þetta hefir m. a. valdið því, að einn aðalkafli l. er gagnslaus, en það er kaflinn um atvinnuleysistryggingarnar. Ég álít, að viðvíkjandi þeim kafla hefði Alþ. getað lært mikið á að taka tillit til þess, sem verkamenn hugsa og tala. Ég skal fúslega játa, að hv. flm. sé ákaflega gáfaður og skilningsgóður, en það er bara ekki nóg.

Að lokum vil ég segja nokkur orð viðvíkjandi 16. gr. Það koma fram í 16. gr. öryggisráðstafanir fyrir því, að sjúkrasamlögin verði ekki gjaldþrota. Þarna kemur aftur fram þetta sama, að það skiptir engu máli hjá hv. flm., þó að þeir tryggðu séu sviptir sínum réttindum, bara ef það er hægt að tryggja það, að sjúkrasamlögin sýna sinn rétta „ballans“. Sem sagt, flm. vilja fara þá leið, að ef réttindin eru það mikil, að sjúkrasamlögin bera þau ekki uppi, þá séu réttindin minnkuð. En við kommúnistar viljum fara hina leiðina, að ef réttindin eru of mikil til að sjúkrasamlögin geti borið sig, þá verði að auka tekjur samlaganna. En ég veit ósköp vel, hver meiningin er hjá hv. flm. Hún er sú, að reyna að lokka bæjarstj. til að greiða heldur ellilaun en framfærslustyrk. En þetta dugir bara ekki, í fyrsta lagi vegna þess, að það er takmarkað, sem lífeyrissjóður borgar, og í öðru lagi, að það er sterk tilhneiging hjá íhaldsmeirihl. í bæjarstj. Rvíkur til að halda áfram með framfærslustyrkinn, til þess þannig í gegnum hann að geta haft yfirráð yfir gamalmennunum. Það er þess vegna ekki hægt að tryggja það, að öllum gamalmennum verði borguð ellilaun, nema að setja það beinlínis í l.

Ég ætla svo ekki að hafa mál mitt lengra, enda er komið að því, að fundartími sé á enda.

[Fundarhlé.]