13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Það er þýðingarlítið að ræða þetta mál nákvæmlega, þar sem svo fáir hv. þm. eru viðstaddir í d.

Ég mun ekki fara sérstaklega út í ræðu hv. 5. þm. Reykv. Hv. frsm. meiri hl. hefir svarað honum fyrir hönd n., og get ég verið honum hv. 3. þm. Reykv. skuli vera andvígur óskum okkar um, að bæjarstjórnir fái að ráða meiri hl. stjórna sjúkrasamlaga út frá þeirri röksemd hans, að eðlilegt væri, að tryggingarstofnunin hefði eftirlit með sjúkrasamlögunum. Hv. þm. synir hér, að hann hefir ekki kynnt sér málið nógsamlega, því að í 14. gr. stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„b. Á eftir 2. málsgr. sömu gr., sem verður 1. málsgr., komi: sem hefir eftirlit með því, að sparnaðar sé gætt í rekstri þeirra, og er heimilt að setja reglur þar að lútandi, þar á meðal um starfsmannahald og launagreiðslur þeirra, að fengnum tillögum hvers samlags“.

Hér er tryggingarstofnuninni fengið fullt eftirlit með sjúkrasamlögum, og því er óþarfi að hafa ákvæðið um, að tryggingarstofnunin skipi einnig formenn sjúkrasamlaganna.

Hv. þm. Barð. virðist hafa fyrzt út af ummælum mínum, er ég sagði frá því, að við sjálfstæðismenn hefðum æskt þess, að tryggingarráðið yrði skipað af þingflokkunum. Ég hafði séð það í blaði flokks hans, að tryggingarráð skyldi skipað þannig, en ég hafði enga tryggingu fyrir því, að framsóknarmenn myndu standa við þetta. Það var ekki óhugsandi, að þetta færi eins og hjá hv. 1. þm. Rang., sem flutti hér um daginn frv., er hann sagði vera flutt fyrir hönd Framsfl. Og hvað er orðið um það frv.? Hví skyldi ég hafa tekið hitt loforðið alvarlegar en ástæða var til að taka þetta? Hv. þm. Barð. velt, að við sjálfstæðismenn í n. rákum sérstaklega hart eftir því, að þingflokkarnir réðu í tryggingarráðinu. Á síðasta fundi í allshn. gat ég þess, að það væri aðalskilyrði okkar, að þetta yrði svo.

Þá vildi hv. þm. gera lítið úr þeirri breyt., sem hér væri gerð á atvinnuleysistryggingunum. Við sjálfstæðismenn látum okkur þær till. litlu skipta. En framsóknarmenn höfðu um þetta atriði sterk ummæli á þingi 1935; og ég hefi gert það að gamni mínu að fletta upp í þingtíðindunum ýmsum ummælum hv. þm. Barð. um það atriði, er hér liggur fyrir. Ég hafði verið að egna hann í umr. með því, hve lítið hefði kveðið að framsóknarmönnum í þessu máli. Þá spratt hann upp og talaði um það, hve mikil áhrif framsóknarmenn hefðu á þessi mál. Þeir höfðu flutt þá brtt., að maður skyldi leita fyrir sér um atvinnu í sveit, áður en hann fengi atvinnuleysisstyrk. Í þingtíðindum, B-deild 1935, bls. 1555, standa þessi ummæli hv. þm.:

„Þá er önnur brtt. við sömu gr., að þeir, sem hafa fyrir öðrum að sjá, en býðst vinna í sveit gegn greiðslu, er nægir þeim til fulls lífsframfæris, skuli ekki hafa rétt til atvinnuleysisstyrkja“. Og svo segir hann: „Ég vil taka það fram, af því ég er eini framsóknarmaðurinn í allshn., að við göngum að þessu frv. eingöngu með því skilyrði, að fallizt verði á þessar brtt.“.

Þá var þetta atriði svo mikilsvert fyrir Framsfl., að það var skilyrði fyrir fylgi hans við málið í heild sinni.

Í þingtíðindum (B-deild 1935, bls. 1598) standa ennfremur þessi ummæli hv. þm.:

„Þá er það ekki rétt hjá hv. þm., að till. þær til breytinga á frv., sem við framsóknarmenn höfum gert að skilyrði fyrir fylgi okkar við alþýðutryggingarnar, séu þýðingarlausar“. Og síðan: „Það er ekki heldur lítið atriði, sem bætt verður inn í frv., að hver sá einhleypingur, sem býðst vinna í sveit eða annarsstaðar, gegn greiðslu, er nægi þeim til fulls lífsframfæris þann tíma eða hluta af þeim tíma, er gera má ráð fyrir, að hann verði atvinnulaus, skuli ekki heldur fá atvinnuleysisstyrk“.

Þessar tilvitnanir sýna, hve mikla áherzlu Framsókn lagði á þetta atriði 1935, er frv. var afgr. á þingi. En nú lætur hv. þm. sem þetta sé lítið atriði og finnst hégómlegt af okkur sjálfstæðismönnum að vera að hreyfa andmælum gegn brtt. Það sýnir, eins og margt annað, hvernig sósíalistar, þrátt fyrir litinn styrk á þingi, geta teymt þennan flokk eftir geðþótta sínum.

Hv. frsm. meiri hl. lét hér af mikilli vizku og mannviti ljós sitt skina yfir þessa hv. d. Við óbreyttir þm. megum vera þakklátir fyrir fræðslu hans, sem við munum kunna að meta næstum því eins vel og hann sjálfur. Hann taldi mig hafa sagt, að ekki væri ástæða til að breyta l. um alþýðutryggingar, af því að þau hefðu verið svo illa undirbúin í upphafi. Ég tók það hinsvegar fram, að af því að l. hefðu verið illa undirbúin, væri nauðsyn á alhliða rannsókn og undirbúningi, og á því byggist okkar rökst. dagskrá. Við viljum ekki láta söguna endurtaka sig um flaustrið í þessu máli. Það er ljóst, að ef frv. á fram að ganga nú, kemur það svo seint til Ed., að útilokað er, að hún geti gert verulegar breyt. á því. Þannig var líka, þegar frv. kom þangað fyrst. En það er meðferð, sem ekki hæfir svo miklu og vandasömu máli.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ekki væri ástæða til að hafa sjálfstæðismenn með í ráðum um setningu þessarar löggjafar, því að þeir hefðu frá upphafi verið fjandmenn málsins. En hv. þm. veit þó, að í blöðum flokksins og á fundum hans hefir oft verið talað um nauðsyn trygginganna. 1934 fluttum við nokkrir sjálfstæðismenn í 1d. þáltill. um skipun milliþn. til að rannsaka löggjöfina um fátækramál og tryggingar. Ég var þá frsm. og tók það fram, að þál. bæri að skoða sem tilboð sjálfstæðismanna um samvinnu í þeim málum. Af því að þessi hv. þm. er svo ókunnugur þessu máli, þá vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur ummæli, sem ég hafði um þetta mál. Þar kemur einmitt greinilega fram, að víð vorum fúsir til samvinnu um afgreiðslu þessa máls og undirbúning. Þar segir svo.:

„Mér er það ljóst, að núverandi stjfl. ætla sér að endurhæfa þessa löggjöf. Þessi till., sem við sjálfstæðismenn berum hér fram, má því skoðast sem tilboð frá okkar hendi til þess að leggja drög að þeirri löggjöf, ef það gæti orðið til þess að flýta fyrir þessu máli síðar á þingi og fleyta því framhjá þeim öldugangi flokkastreitunnar, sem svo mjög ber á í hverju máli nú á þingi og oftsinnis áður“.

Hér réttum við fram höndina til að leysa þetta mál. Stj.flokkarnir sáu ekki ástæðu til að taka í þá útréttu hönd, og þess vegna hefir afgreiðslu málsins verið eins ábótavant og raun hefir á orðið. Þess vegna hefir þessi löggjöf verið eins óvinsæl og raun hefir á orðið. Fyrir harðfylgi stj.flokkanna, og þá sérstaklega sósíalista, var þetta mál komið fram. Það vakti þegar tortryggni, og það hefir vissulega orðið til þess að skapa því óverðskuldaðar óvinsældir. Það er vissulega algerlega óréttmætt, eins og þessi framkoma sjálfstæðismanna greinilega sýnir, að tala um okkur eins og einhverja fjandmenn tryggingarmálanna.

Þá vildi hv. þm. draga úr þeim ummælum mínum, að ég hefði sagt, að aðeins einn flokkur hefði haft framkvæmd alþýðutryggingarl. Hann hefir þó vitanlega viðurkennt, að allir 3 mennirnir í tryggingarráðinu, sem flokksbróðir hans, hæstv. atvmrh., skipaði, voru sósíalistar. En hann bendir á það, að framkvæmdastjóri trygginganna sé ekki sósialisti. Það er alveg rétt, en framkvæmdarstjóri trygginganna er fyrst og fremst ópólitískur maður, og hann er tekinn inn í þetta mál vegna þess, að hann er, að ég hygg, eini sérfróði maðurinn hér á landi um þessi mál, og sósíalistar voru það skynibornir, að þeir vissu, að þeim var þörf á nokkurri fræðslu og reynslu í þessum málum, áður en þeir tækju þau endanlega í sínar hendur. En þessi maður, tryggingarstjórinn, sem ég geri ráð fyrir, að sé sjálfstæðismaður, er vitanlega ekki þangað kominn sem neinn umboðsmaður fyrir Sjálfstfl., og Sjálfstfl. hefir engan aðgang að honum sem slíkum, svo hann getur ekki heitið neinn trúnaðarmaður þess flokks.

Þá taldi hv. frsm. meiri hl., að við gerðum háar kröfur um réttindi hátekjumanna hjá þessari stofnun. En svo þegar hann greip til þess að svara hv. 5. þm. Reykv., átaldi hann mjög þann grautarlega hugsunarhátt, sem kæmi fram hjá honum, þar sem hann blandaði saman skattafrv., framfærslulöggjöf og tryggingarfrv. Það er einmitt það, sem ég er að gagnrýna í þessu máli, að þetta er ekki tryggingarfrv., því það er að því, er snertir þessa ákveðnu menn, hreint skattafrv., og ég er hv. þm. algerlega sammála um það, að ekki sé rétt að blanda þessum málum saman. Þetta málefni á að vera tryggingarmál, en það á ekkert að eiga skylt við skattalöggjöf. Þetta er atriði, sem við getum tekið til umr. við önnur tækifæri, en það á bókstaflega ekki heima í 1., sem heita l. um alþýðutryggingar. Hvað kemur það þessari löggjöf við, að leggja talsvert háan skatt á marga menn, sem engra hlunninda njóta samkv. löggjöfinni? Ég vil undirstrika þau réttmætu ummæli hv. þm., að það eigi ekki að blanda saman skattal. og tryggingarfrv.

Þá var hv. þm. af tiltölulega veikum mætti að reyna að verja það lýðræðisbrot, sem verið er að fremja með því að taka stjórn sjúkrasamlaganna frá bæjar- og sveitarstjórnum. Ég veit, að hv. þm. gerir þetta að nokkru leyti gegn betri vitund. Hv. þm. átti sinn hlut í því, að svo var skipað í öndverðu, að meiri hl. bæjarstjórna réð framkvæmd þessa máis, og hann var einmitt nægilega hygginn maður þá, þótt honum hafi nú farið aftur, til þess að sjá, hversu mjög það miðaði að því að tryggja vinsældir þessa máls, að meiri hl. bæjarstjórna yrði að nokkru leyti ábyrgur um framkvæmd sjúkratrygginganna. Nú vill hv. þm. mótmæla því, að þetta sé lýðræðisbrot, af því að hér leggi ríkið fram nokkurn styrk. Hann veit þó, að þetta málefni byggist fyrst og fremst á framlögum bæjarmanna, og þetta er ennfremur málefni, sem er mjög nátengt öðrum framkvæmdum bæjarfélaganna. Og sérstaklega á þetta mjög skylt við fátækraframfærslu í bæjunum. Þetta er fyrst og fremst bæjarmálefni, og þess vegna er ekkert réttmætara og eðlilegra heldur en að bæjarstjórnir, eða bæði meiri hl. og minni hl. í bæjarstjórnum fái með hlutfallskosningu að ráða, hverjir hafi þessar framkvæmdir með höndum. Það er ekki hægt að finna neina frambærilega ástæðu til þess að breyta þessu ákvæði, nema þá einu, sem er flokkspólitík. Hv. þm. veit það alveg eins vel og ég, þegar hann stendur hér og ver þetta mál, að hann er að verja flokkspólitískt mál. Hann veit, að það, sem liggur til grundvallar, er það, að sósíalista langar til þess að ná meiri hl. yfir framkvæmd þessa máls hér í Reykjavík. Það er eina ástæðan, og hún er óréttmæt og fátækleg og á engan rétt á sér, nema of ríka pólitíska hneigð hjá sósíalistum. Það liggur líka í hlutarins eðli, að það er það eina réttmæta, að bæjarstjórnir fari með þessi málefni. Þær eru háðar gagnrýni borgaranna í bæjum, og þeir eiga beinan aðgang að bæjarstjórnunum um það, hvernig tekst með framkvæmd þessa máls. Þeir geta á hverjum tíma, sem þeim er gefinn réttur til að kjósa í bæjarstjórnir, gert þetta mál upp við þær. Borgararnir hafa hinsvegar engan aðgang að einhverjum embættismönnum, sem tryggingarstofnunin skipar til þess að ráða þessu máli.

Hv. þm. vildi færa þetta til jafns við það, þegar við höfðum við setningu kosningal. ákveðið, að hreppsstjórar og sýslumenn væru sjálfkjörnir formenn í viðeigandi kjörstjórnum. Hv. þm. þarf ekki að saka mig einan um þetta. Að vísu stóð ég með því, en hann getur líka ásakað framsóknarmennina, sem voru okkur samhuga um þetta mál. Við töldum það til hagræðis fyrir kjósendur að geta alltaf vitað, hver kjörstjórnin væri og til hvers ætti að snúa sér. Ef hv. þm. álítur þetta svo hróplegt ranglæti, sem virðist vera, hvers vegna vill hann þá endurtaka það? Hvers vegna vill hann þá lögfesta samskonar ranglæti? Hverskonar réttlætispostuli er þetta, má ég spyrja? Vill hann nú réttlæta eitt ranglætissporið með því, að annað samskonar spor hafi verið stigið? því vill hann ekki láta lýðræðið í landinu haldast í þessari löggjöf, og koma þá heldur með brtt. við kosningal. til þess að afturkalla það ranglæti, sem þar er að hans hyggju?

Þá talaði hv. þm. mjög mikið um frv., sem er víst geymt í vasa hans og ég hefi ekki fengið að sjá í nokkra daga um breyt. á byggingarnefndinni hér í Reykjavík. Hann hefir frv., sem ég bað hann um, ásamt öðrum nm. í allshn., að flytja með mér, sem er þess efnis, að binda hendur bæjarstj. í Reykjavík nokkuð um skipun byggingarnefndar. Þetta ákvæði um byggingarnefnd byggist á reglugerð frá 1872, svo hún er orðin nokkuð gömul. Það ákvæði byggist eins og þetta frv. á því, að tryggð sé sérþekking í þessari nefnd. En sú sérþekking, sem reglugerðin frá 1872 heimtar í þessa nefnd, er sú sérþekking, sem þá var helzt til hér á landi. Nú veit hv. þm. vel, hversu mikil breyting hefir orðið á þessu sviði eins og öðrum í okkar þjóðfélagi á þessum langa tíma, og það frv., sem ég ætla að flytja um þetta mál, er ekki neitt annað en að breyta sérfræðslunni yfir í það tímamót, sem við nú lifum á. Þeir helztu sérfræðingar, sem þá voru til í byggingarmálum, voru trésmiðir og aðrir iðnaðarmenn. Nú höfum við á því tímabili, sem liðið er síðan, eignazt fjölmenna stétt verkfræðinga og húsameistara, og það frv., sem hv. þm. var að tala um, miðar einmitt að því að nota þessa nýju sérfræðinga í þessum málum, alveg eins og þeir, sem réðu reglugerðinni frá 1872, vildu nota þá sérfræði, sem þá var helzt til.

Það er misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur, að þetta sé eitthvert vantraust á bæjarstj. Reykjavíkur. Bæjarstj. í Rvík á að ákveða, hvaða starfssvið þessi nefnd hefir. Hún á að setja henni starfsreglur, og hún ræður í einu og öllu, hversu víðtækt starfssvið þessarar byggingarnefndar er. En það þarf engan að undra, og allra sízt þennan hv. þm., sem hefir beinlínis látið í ljós fylgi sitt við þá hugmynd, sem felst í frv., að þessir nýju menn, nútímamennirnir, séu fengnir til þess að fjalla um og taka ákvarðanir í þessum málum.

Þá vildi hv. þm. hæðast að þeim ummælum mínum og taldi það einkennilega lögspeki, að framkvæmd þessa máls mætti að einhverju leyti haga eftir því, sem vilji löggjafans hefði sýnt sig nú á þessu þingi. Okkar þáltill. miðar að því að fresta ákvörðun um þetta fram til næsta þings, en ég verð að telja, að það sé alveg opin leið fyrir stjórn tryggingarstofnunarinnar að haga að einhverju leyti framkvæmd málsins fram til næsta þings eftir því, sem löggjafinn hefir sýnt sig að vilja ákveða á næsta þingi. Það er vitanlegt, að mörg ákvæði í löggjöfinni eru þannig, að þau eru háð lögskýringu um það, hversu hún verði framkvæmd, og ein leið getur verið eins opin og önnur í því máli. Þess vegna held ég, að sá vilji, sem fram hefir komið á Alþ. í einstökum atriðum þessa máls, geti mjög orðið til leiðbeiningar og eftirbreytni fyrir stjórn trygginganna. Hv. þm. þarf ekki að gera sér neinn leik að því að snúa út úr þessu og spyrja, hvort óskir á þingi og einstök frv. eigi að vera framkvæmd og vera löggjafaratriði í landinu. Slíkt eru ummæli, sem illa hæfa honum og eiga ekki við. En þar sem um framkvæmd máls er að ræða, sem mjög byggist á vilja löggjafans, þá hljóta alltaf að vera veruleg skýringaratriði um framkvæmd málsins, og það var það, sem ég hélt fram.

Ég held, að það séu ekki fleiri atriði, sem ég þarf að taka fram út af ræðu hv. frsm. meiri hl. Fari svo, að okkar rökst. dagskrá nái ekki samþykki við þessa umr., þá geri ég ráð fyrir, að við fáum tækifæri til þess að tala frekar saman um málið áður en það kemur fyrir 3. umr.