13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

124. mál, alþýðutryggingar

*Bergur Jónsson:

Eins og áður í þessu máli er það hv. þm. Snæf., sem gefur mér tilefnið til að grípa í strenginn. Hann talaði um það með miklum gorgeir í fyrri ræðu sinni, að við framsóknarmenn hefðum gert brtt. okkar vegna einhverrar pressu frá meðnm. úr Sjálfstfl. Ég gæti kannske skilið, að hann langaði til að eigna sér og sínum eitthvað af tillögunum. En hann virðist aftur fallinn frá þessu. Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm. Snæf., hvort honum dettur það í hug, að hv. þm. N.-Ísf., sem er alþýðuflokksmaður, sæki eftir fylgi úr öðrum flokkum til þess að koma fram þeirri breyt. á tryggingarráðinu, að í það verði valinn sinn maðurinn fyrir hvern af þremur stærstu þingflokkunum, þegar svo er háttað, að tryggingarráðið er skipað eingöngu mönnum úr hans flokki. Þetta sannar, að það er algerlega rangt hjá hv. þm. Snæf., að við höfum fyrir þrýsting frá sjálfstæðismönnum í allshn. orðið sammála um þessa breytingu. Annars sé ég ekki ástæðu til að karpa meira um þetta við hv. þm., þó ég skilji ekki, af hvaða ástæðu hann er með þennan síendurtekna meting um það, hverjir hafi átt upptök að þessari sjálfsögðu breytingu. Í fyrri ræðum mínum hefi ég lýst þeim tilfellum, þar sem menn geta ekki fengið atvinnuleysisstyrk, þótt þeir hafi skilyrði til þess eftir 1. og atvinnuleysissjóðir hafi verið stofnaðir. Hv. þm. Snæf. sagði um þetta atriði frv., að þar kæmi fram gamli undirlægjuhátturinn hjá Framsfl. við Alþfl. Nú vill svo vel til, að þegar breytingin var rædd í allshn., mótmæltu báðir fulltrúar Framsfl. í n. henni, sérstaklega hv. þm. N.- Þ., en það gerðu aftur á móti ekki hv. þm. Snæf. og samflokksmaður hans. Það má vera, að þessi hv. þm. hafi verið breyt. andstæðir, en þeir létu það ekki í ljós eins og fulltrúar Framsfl. Hitt er annað mál, að það er ekki ástæða fyrir þá hv. nm., sem ekki gerðu aths. við þennan lið, að ásaka þá, sem aths. gerðu, fyrir að hafa ekki verið á móti þessum lið. Ég vil benda hv. þm. á, eins og ég gerði í fyrri ræðu minni, að nefndarmenn meiri hl. áskilja sér rétt til þess að koma fram með brtt. við 3. umr., og ég býst við, að við tökum þá til athugunar, hvort orðalagsbreyting þurfi að gera á 32. gr. og 6. lið 72. gr.

Meiri hl. allshn. vill svara aths. hv. þm. Snæf. og samflokksmanns hans við frv., þar sem þeir fullyrða, að tryggingarlöggjöfin sé svo illa úr garði gerð, af því hún hafi verið svo illa undirbúin, að þess vegna sé sjálfsagt að skipa mþn. til að endurskoða löggjöfina. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að tryggingarlöggjöfin var undirbúin af 5 manna mþn., eins og hv. þm. N.-Ísf. benti á, og sú n. vann með aðstoð þess eina tryggingarfræðings, sem til er í landinu. Auk þess var frv. mikið athugað í báðum allshn. þingsins, svo það er rangt, að tryggingarlöggjöfin hafi ekki verið undirbúin eins vel og önnur mál, og betur. Þess vegna sé ég enga ástæðu til að bíða eftir mþn. með þær breyt., sem hér er farið fram á.

Að því er snertir ræðu hv. 5. þm. Reykv., þá er það aðalkjarni skoðana hans, að tryggingarnar eigi viðskiptalega að borga sig fyrir hvern einstakling. Hann lítur þannig á tryggingarnar frá alveg sérstökum sjónarhól, án .þess að hugsa nokkuð um það, á hvern hátt fé fáist til trygginganna. Þannig hugsar bann aðeins um aðra hlið trygginganna, hvaða fríðindi þær eigi að veita hinum tryggðu. Aftur og aftur hamrar hann á þessu, án þess að virðast athuga nokkuð, hvernig þær kröfur, er hann gerir, verði bornar uppi. Auðvitað er tryggingarlöggjöfin sett til að bæta úr fjölda þeirra erfiðleika, sem hún er gerð fyrir, sjúkdómum, slysum, elli og atvinnuleysi. En fyrsta skilyrðið til þess að löggjöfin komi að gagni, er auðvitað það, að samræmi sé milli þess, sem tryggingin þarf að greiða, og þess, sem hún fær greitt. Því hvaðan á sjúkrahjálpin að koma ef sjúkrasamlag fer á höfuðið, og hvernig á lífeyrissjóður að geta annazt sín lagalegu útgjöld, ef á að ausa úr honum til gamalmenna, sem eiga alls ekki að fá greiðslu úr þeim sjóði, í staðinn fyrir að nota sjóðinn til þess, sem hann er ætlaður? Annars er ástæðulaust að eiga orðastað við þennan hv. þm. fyrr en hann reynir að sýna fram á það, að eitthvert vit sé í því, sem hann þykist sjá af þessum sjónarhól, sem hann er á. Ég skal aðeins benda honum á út af 1. brtt. þeirra kommúnista á þskj. 248, um að fella niður a-lið 4. gr., að það er sýnilegt, að þeir hafa ekki tekið eftir því, að fósturforeldrar og fósturbörn geta verið sama og foreldrar og börn í þessu tilfelli. Ef hv. þm. les gr. til enda, sér hann, að mótmælin í brtt. hans hafa ekki við rök að styðjast.

Það hefir verið á það minnzt, hvort rétt væri að hafa tryggingarlöggjöfina að einhverju leyti skattalöggjöf. Það er auðvitað sjálfsagt að fara svo langt eftir tryggingarreglunni, sem hægt er, en til þess að fá nóg fé verður líka að fara inn á skattagrundvöll, eins og sjúkrasamlögin gera, bæði með því að láta hina tekjuhæstu aðeins borga, en ekki njóta hlunnindanna af sjúkratryggingunum og í öðru lagi þar sem sjúkrasamlag Reykjavíkur leggur 1% á skattskyldar tekjur manna. Það er ekki stighækkandi skattur, eins og einn hv. þm. hélt fram, ekki 1% af fyrsta þúsundi, 2% af öðru o. s. frv., heldur aðeins 1% af öllum skattskyldum tekjum.

Ég læt svo hér staðar numið og eftirlæt frsm. það, sem eftir er að tala um.