13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

124. mál, alþýðutryggingar

*Einar Olgeirsson:

Það er rétt hjá hv. þm. N.-Ísf., að 7900 kr. eru ekki meðaltalslaun hjá tryggingarstofnun ríkisins; ég ætlaði að leiðrétta þessa missögn mína sjálfur, en ég glæptist á að trúa form. fjvn. um þetta.

Þá eru það tryggingarlögin og framfærslulögin, sem ég vildi minnast á. Hvorutveggja þessi lög eru náskyld, þeim er báðum ætlað að ráða bót á hinu sama böli, fátæktinni, og eru sett vegna þess, að fólkið hefir ekki næga peninga til að sjá sér farborða hvað sem í skerst.

Hv. þm. N.-Ísf. var að tala um það, að ég færi eftir flokkssamþykktum kommúnista, en sér væri alveg sama um flokkssamþykktir, eins þó þær væru frá hans eigin flokki. Þetta sýnir bara, hvernig hann lítur á sig hér á Alþingi. Hann skoðar sig sem herra þjóðarinnar, sem herra kjósendanna, en ekki þjón þeirra. Ef allir hv. þm. hugsuðu svo, þá sé ég ekki, hvað þingræði og almennur kosningarréttur hefir að þýða, ef þingmenn láta sér alveg á sama standa um vilja kjósendanna.

Hv. þm. sagði, að við mundum báðir vera sammála um það, að alþýðutryggingarnar ættu að vera vinsælar. Ég vil í því sambandi leyfa mér að upplýsa hann um það, hver aðstaða fólksins er gagnvart álögum hins opinbera: Fólkið er sérstaklega mjög mikið á móti einum ákveðnum skatti, og það er nefskattur. Ég verð að biðja afsökunar fólksins vegna, að það skuli vera svona lágt hugsandi, samanborið við hv. þm. N.- Ísf. En þetta er staðreynd, að fólkið telur nefskattinn ranglátan, og þess vegna er hann óvinsæll, en stighækkandi skatta telur það réttláta og er fúst til að greiða þá. Það er ekkert annað en þvaður, að alþýðutryggingarnar séu ekki skattamál alveg eins og framfærslan, að þetta sé eitthvað alveg óskylt því. Í eðli sínu er þetta nákvæmlega hið sama.

Þá var hv. þm. að segja, að það færi dálaglega, ef kaupfélögin færu að haga sér eins og sjúkrasamlögin. Ef þau tækju borgun af hinum efnaðri án þess að þeir fengju nokkuð í staðinn. Fólk hefir nú einu sinni leyft sér að líta á alþýðutryggingarnar sem raunabætur, en ekki sem verzlun. Það er allt annað „princip“, sem liggur þar til grundvallar, og hv. þm. hefir einmitt sjálfur viðurkennt eða gengið inn á það, að ef sjúkrasamlag bæri sig ekki, þá yrði hið opinbera, sveitarfélagið, framfærslan, að taka hallann. — Við viljum, kommúnistar, að sjúkrasamlögin sjálf eigi og reki sjúkrahúsin og að gjöldin fyrir sjúklingana verði höfð sem lægst, jafnvel þó það kosti taprekstur, því okkar princip er ekki verzlunarprincip.

Viðvíkjandi 16. gr. frv. vil ég segja það, að við teljum þá afgreiðslu óviðunandi fyrir sjúklingana, sem geta komið til með að þurfa að greiða einhvern óákveðinn hluta af læknishjálp eða sjúkrahúsvist, ef samningar hafa ekki tekizt við þessa aðilja.