15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

124. mál, alþýðutryggingar

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það hefir farið svo með þeim flausturslega undirbúningi, sem þetta mál hefir fengið, að ekki hefir orðið tími til að reyna að koma sér niður á samkomulag um þetta mál. Það hefði verið ástæða til, að n. hefði verið fáanleg til að fella eitthvað burt af þeim ákvæðum, sem miður fara í frv., og bæta þá öðrum inn í, þar á meðal ýmsum breyt., sem ráðgert var, að gæti komizt hér inn með frv., sem ég o. fl. bárum fram á öndverðu þingi. Það er mikið mein, að þetta mál hefir sætt þeirri meðferð í þinginu, að það hefir ekki gefizt ráðrúm til þess að flokkarnir gætu gert nokkurt samkomulag um þetta mál, sem mætti telja varanlegt. Hv. frsm. sagði, að Sjálfstfl. hefði alla tíð og alstaðar verið á móti öllum tryggingum. Ég býst við, að hv. þm. gangi illa að sanna þessi orð sín. En hitt er sannleikur, að sjálfstæðismenn hafa viljað fara þá leið að undirbúa þetta mál betur í samræmi við vilja fólksins, sem við tryggingarnar eiga að búa, en það vildu flokksmenn hv. þm. ekki. Þessi hv. þm. var að vísu ekki þá á þingi, en það hefir komið fram hjá honum nú, að hann vildi þá, að málinu yrði flaustrað gegnum þingið án þess að aðiljar úti um land fengju að segja sitt álit á því. Hv. þm. sagði, að málið hefði verið undirbúið í n. Það er rétt, en sú n. var þannig skipuð, að það var ekki óeðlilegt, að sá flokkur hér á þingi, sem hafði meiri hl. þjóðarinnar að baki sér, vildi fá að segja sitt orð um málið, en það fékkst nú ekki. Nú er um það verið að ræða að breyta þessum l., og það er sannast að segja, að það virðist ekki eiga að breyta til um afgreiðslu málsins. Það virðist eiga að hafa sömu aðferðina og þegar l. voru sett, að flaustra því af athugunarlaust.

Sumar breyt. eru lítilsverðar, en aðrar eru þó þannig, að þær eru mjög meinlegar, einmitt að sumu leyti fyrir almenning, og að öðru leyti fyrir þá stofnun, sem verður að ráða miklu um framkvæmdirnar. Nú býst ég við, að þetta verði samt sem áður samþ. í höfuðatriðum, sem meiri hl. hefir komið sér saman um, og við það verður ekki ráðið. En það verður ekki til ánægju og ekki til frambúðar. Það sannast, að þegar á næsta þingi verður að gera frekari gangskör í þessu máli, og þá mun koma betur í ljós, að það ríkir ekki heldur ánægja með þær breytingar, sem eru í þessu frv. og eiga að verða að lögum.

Ég vil gera aths. við nokkur atriði, þó ég hafi ekki komið fram með brtt., samhljóða því, sem er að finna í frv., sem sjálfstæðismenn hafa borið fram áður, með því að þær myndu verða felldar, án þess að gengið væri inn á samkomulag um þær. Ég vil meina það, að t. d. þær 2 brtt., sem að nokkru leyti er að finna í frv. mínu og fleiri og teknar eru upp í þetta frv., séu til bóta. Í fyrsta lagi er það, sem snertir ellistyrktarsjóðina eða vextina af ellistyrktarsjóðunum, en eins og kunnugt er, þá var það ekki aðeins að margra dómi ólöglegt að taka umráðin af héruðunum, heldur var það líka svo óvinsælt, að allir menn, þm. úr hvaða flokki sem var, urðu að játa, að það var gálaust verk að fara þessa leið. Það var gálaus leið að ráðast í þetta ofan á allt annað, sem tekið var af þeim og fært inn undir þennan sjóð, að taka líka vextina af ellistyrktarsjóðum sveitanna, sem þeir sjálfir höfðu stofnað, og telja þá með í þeim tillögum, sem sjálfur lífeyrissjóður Íslands átti að leggja fram. Nú er verið að ráða nokkra bót á því, þó ekki eins gagngert að orðalagi eins og í frv. því, sem ég minntist á. Ég vil leggja þann skilning í þetta yfirleitt, og slá því föstu fyrir mitt leyti, þangað til því verður mótmælt af meiri hl. n. og hv. flm., að með þessu sé tilgangurinn sá, að leggja meðferð vaxta ellistyrktarsjóðanna aftur í hendur sveitanna og sveitastjórnanna að fullu og öllu, svo að þetta verði framkvæmt þannig, að sveitirnar geti lagt vextina til sem hluta af sínum framlögum, og þannig beri að skilja þessi ákvæði, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, inniheldur.

Í öðru lagi er þarna að finna nokkra endurbót í samræmi við það, sem áður hefir komið fram frá mér og öðrum á ákvæðum slysatryggingarl. Það er þó ekki full réttarbót frá því, sem áður var. Þetta er í því atriði, að foreldrar, sem missa afkomendur sína af slysum, eiga að fá frekari bætur og meir í áttina til þess, sem áður var, heldur en l. gera ráð fyrir. Það er bót að þessu, og það er enginn vafi á því, að þetta ákvæði er tekið upp í l. vegna hinnar almennu óánægju og þeirrar almennu réttlætiskröfu, sem fram hefir komið um þetta frá fólkinu sjálfu.

Þessu vil ég slá föstu, en um leið og það er gert og þess vænzt, að það verði framkvæmt í samræmi við þetta, þá er ekki hægt að leyna því, að það þarf miklu fleira til þess að þessi löggjöf verði sanngjörn fyrir sjálfan almenning, og mun næsta þing sanna það og hv. þm. þá, að það verður að gera frekari gangskör í þessu máli, og tel ég ekki þörf á að tína upp þau atriði, sem till. eru um breyt. á og sýna þetta.

En ég vil aðeins geta þess viðvíkjandi þeim till., sem hér hafa komið fram sem brtt., og að sumu leyti viðvíkjandi því, sem samþ. hefir verið við 2. umr. málsins, að með 62. gr., sem eins og kunnugt er hefir nokkuð verið deilt um, sem ekki er að undra, er mynduð að fjármagni til önnur höfuðstoð þess sjóðs, sem kallaður er lífeyrissjóður Íslands. Þar er tekinn hinn stærsti sjóður, sem til var, sem verður brátt 2 millj. kr., sem embættismenn landsins eiga og hafa lagt allt til, nema það, sem I. hafa skyldað hið opinbera til að leggja á móti, og færður inn á þetta svið. Stétt sú, sem stóð að þessum sjóði var mjög óánægð með þetta, og því bárum við fram till. til bóta á þessu frá því, sem er í frv., um það, að þessi gr. yrði felld úr l., svo þessi sjóður, sem búið er að koma upp með of miklum gjöldum, sem þessi stétt hefir mátt bera í öll þessi ár, fái að halda sér.

Þetta er aðalbreyt., sem ekki er tekin til greina af þeim, sem mynda meiri hl. um þetta mál. En það er ekki nóg með það, heldur var farið fram á og samþ. við 2. umr. að gera þessa miklu breyt., sem gerð var með 62. gr., enn verri en hún var í l., eða m. ö. o. að loka öllum sundum fyrir þessari stétt um það, að fá nokkra aðhlynningu um leið og fé hennar væri rænt.

Eins og kunnugt er, þá segir 1. málsgr. 62. gr. fyrir um það, að lífeyrissjóðir embættismanna og barnakennara skuli lagðir undir stjórn tryggingarstofnunar ríkisins, þó með þeirri undantekningu, að þeir embættismenn og barnakennarar, sem enn greiða iðgjöld í sjóði þessa, skuli gera það framvegis eftir sömu reglum og áður, og eru þeir þá ekki tryggingarskyldir annarsstaðar. En 2. og 3. málsgr. gera frekari heimildir og undantekningar, sem sannarlega ekki veitti af.

Það hefir nú komið fram, að ýmsar stéttir hafa viljað nota þessar heimildir, og það er vafalaust, að fleiri munu á eftir fara, þó aðalkröfurnar séu frá þessum stéttum, sem eiga þessa miklu sjóði, um að fá að halda þeim. Þó mun svo fara, þegar þar að kemur, að þetta er allt komið undir einn hatt, að stéttirnar vilji nota þessar heimildir, sem málsgr. veita, en nú stendur til að afnema með frv., ef þær eru þeim gefnar í hendur.

Nú liggur fyrir brtt. frá minni hl. allshn. um það, að þessi gr. frv., sem í er ákvæði um burtfellingu þessarar málsgr. í 62. gr., falli niður, eða m. ö. o., að málsgr. fái að halda sér eins og þær eru í l., og það má ekki minna vera en að það verði látið eftir.

Nú kemur hér ýmislegt fram, eins og kunnugt er. Það er ekki aðelns þannig, að á ókomnum tímum verði það svo, að ýmsir óski eftir að nota þessar heimildir, heldur liggja fyrir ákveðnar kröfur og hafa legið fyrir undanförnum þingum um það, að mega strax fá þessa heimild, frá starfsfólki landssimans. En eins og kunnugt er, þá hefir þessari heimild verið frestað nú þessi árin, og það kemur af því, sem hv. þm. Barð. gat um, og það sýnir eitt með öðru, hversu óðagotslega hefir verið að málinu gengið og hversu lítið það hefir verið hugsað, þar sem sjálf stofnunin getur ekki staðið við þær skuldbindingar, sem hún með laga setningu hefir tekið að sér. Fyrir því hefir þessari heimild verið frestað. Starfsmenn landsímans óska að fara þegar inn í lífeyrissjóð Íslands, ekki vegna þess, að þeir vilji í sjálfu sér sleppa sínum sjóði, heldur af því, að þeir sleppa betur með sín gjöld, og í annan stað og sér í lagi af því, að þeir geta fengið sitt fé aftur úr sínum eigin sjóði. En ef þessar heimildir eru burtu teknar, þá eru þeir algerlega á klakann settir, þar sem þeir eru skyldir til hins, en fá enga heimild til að bjarga neinu af sínu. Í þessu er engin mótsögn, því þegar lagasetningin er komin, þá verða menn að lifa undir henni á þann hæfilegasta hátt, sem hún gefur í hendur. En það er ósvinna í löggjöf að ráðast inn á svið stofnana og einstaklinga og gefa í skyn og jafnvel lögselja um heimildir, svo menn geti bjargað sínu, ef svo á að taka það frá þeim á eftir.

Það hefir komið fram till., að því er virðist frá allri n., vegna starfsmanna Landsbanka Íslands. Það er síður en svo, að ég sé á móti þeirri till. Hún fer í þá átt að gefa þessu fólki nokkuð í aðra hönd, eða heimild til að ráða nokkru um sitt eigið fé eða sína eigin sjóði um leið og það verður að skilja við þá. En það getur vitanlega komið til greina, að fleiri geti fengið slíkan rétt. Það er sjálfsagt rétt hjá hv. þm. Barð., að þetta fólk við Landsbankann var skyldað til þess með l. að stofna sinn lífeyrissjóð, sem heitir eftirlaunasjóður. Þetta er gert í landsbankalögunum, að skylda þá til þess. En hvað segir hv. þm. þá um embættismenn og barnakennara og aðra, sem ekki eru skyldaðir til þess með einni lagagr., heldur með heilli löggjöf, að vera undir þetta skyldaðir og beygðir, sem í raun og veru á ekki að vera nein neyð, að stofna lífeyrissjóð, þó ég hafi það á vitundinni að það sé alltof mikill baggi á þessari stétt, með því iðgjaldi, sem mönnum er gert að greiða í þennan stóra lífeyrissjóð.

Þó að það sé ekki nema á þessu eina sviði, þá er það réttmætt, en fleiri ættu þá að geta komið til greina, því aðrar stéttir eru í sama plani, ef svo má segja. Ég mun fylgja þessari brtt., af því að hún er sanngjörn, eins og ég mun fylgja öllum brtt., sem koma inn á sama svið, og vilja létta undir með fólki að komast í gegnum það millirúm, sem orðið hefir í framkvæmdinni á milli þess nýja og hins eldra.

Ég tel ekki þörf á því að fjölyrða meira um þetta. Eins og ég gat um, þá verða engin tök á því á þessu þingi, þó vafalaust komi að því á næsta þingi, að gera frekari bragarbót á málinu.