18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, fjárlög 1938

*Þorsteinn Briem:

Hæstv. atvmrh. taldi, að Bændaflokkurinn mætti ekki tala um útvegsmál og lífsbjörg fólksins við sjávarsíðuna. Er það ekki skylda okkar að líta þangað, sem náungans veggur er að brenna, því að við vitum, að þegar hann brennur, þá er vorum eigin hætt.

Kjörorð Bændafl. hefir frá upphafi verið viðreisn framleiðslunnar til sveita og við sjó, og að atvinnuvegirnir verði að geta borið sig. Og Bændafl. hefir haldið sér svo fast við það efni, að hann hefir ekki gleymt þessu fyrsta og stóra stefnumáli sínu, eins og Alþfl. hefir gleymt sinni stefnuskrá, bæði um tolla og annað, enda eru þeir nú að ræða það sín á milli, foringjar hans, hvort þeir eigi ekki að leggja niður flokk sinn og mynda nýjan flokk með Kommfl.

Á 13. þingi Alþfl., árið 1936, þóttist flokkurinn afneita kommúnistum í eitt skipti fyrir öll, þótt hann tæki upp stefnuskrá kommúnista. En á 14.þingi flokksins, nú í haust, var ekki um annað rætt en uppköst að hjúskaparsáttmálanum við kommúnista. Það skal vel vanda, sem lengi á að standa, má segja um þann kaupmála, því að enn eru flokkarnir að athuga á honum orðalagið, og annað en orðalag er það ekki, sem á milli ber.

Hæstv. ráðh. taldi orð mín í gærkvöldi sýna, að ég fylgdi stefnu Sjálfstæðisfl. Er það þá stefna Sjálfstfl. eins að vilja ekki hækka verðtollana? Var ekki hæstv. ráðh. sjálfur ekki aðeins á móti hækkun á verðtolli áður fyrr? Man hann ekki, hversu hranalega hann barðist sjálfur á móti öllum verðtolli 1931?

Eitt stærsta atriðið, sem ég deildi á Alþfl. fyrir, var framkoma Alþýðusambandsins gagnvart S. Í. S. Ég varði S. Í. S. fyrir árásum hinna kommúnistísku vina ráðh. í gærkvöldi. Varði það svo, að þeir hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. bættu þar engu við, sem ég hafði ekki tekið rækilega fram áður. Mitt svar var fullt svar við árásum kommúnistanna; þó að ég sparaði mér að veitast persónulega að árásarmanninum, voru rök mín ekki ósterkari fyrir það. Köpuryrði þess kommúnista eru ómæt reiðiorð yfir þeirri sterku vörn, sem við Bændaflokksmenn höfum haldið uppi fyrir Sambandið og störf þess. En eru það sérstök stefnumál Sjálfstfl. að halda uppi vörn fyrir kaupfélögin og Sambandið? Var hæstv. fjmrh. að sanna það í gærkvöldi og nú aftur í kvöld?

Nei, hæstv. atvmrh. þarf alltaf að eiga einhverja grammófónsplötu til að spila á. Nú getur hann ekki lengur spilað gömlu plötuna um verðtollinn, því að hann þarf nú að spila allt annað lag en hann spilaði svo vel og snjallt 1931. Nú veit hann, að hans aðalplata sem ráðh. er orðin gersamlega útspiluð, — það er grammifónsplatan um fiskimálanefnd. Hann á erfitt með að spila lengur lagið um Póllandsfiskinn, sem seldist ekki fyrir flutningnum í höndum fiskimálanefndar. Eða um Ameríkufiskinn, sem fiskimálanefnd sendi tóbakssalann til að selja, en tókst báglega. En þegar allar hans plötur eru útslitnar. þá fær hann þessa gömlu, útslitnu plötu að láni, um Bændafl. En ekki mun honum endast þessi útslitna lánsplata betur en hans eigin. En það sýnir rakafátækt hæstv. atvmrh., að hann hefir nú ekkert fram að bera á móti Bændafl. annað en löngu útspilaða lánsplötu.

Hæstv. forsrh. boðaði í gærkvöldi þá ræðu, sem hann hefir nú flutt hér í kvöld um stjórnmálaviðhorfið eins og það liggur fyrir að áliti hans. Þessa ræðu hefir hann nú flutt hér í kvöld. Af henni er sýnt, hvernig hann tekur hóflegum orðum Bændaflokksmanna um að finna leiðir út úr ógöngunum. Þeim hófsamlegu ummælum svarar hæstv. ráðh. nú með brigzlum og órökstuddum stóryrðum. Bændafl. mun ekki verða uppnæmur fyrir orðum einum. Hann þuldi upp gömlu þuluna um afrek sín og flokks síns. Hann eignaði sér kjötlögin, sem Bændafl. átti frumkvæðið að á þingi og lét undirbúa. Hann gortaði ekki í kvöld af 17. greininni, og er það gott, ef hann sæi að sér í því efni.

En ég saknaði einkum eins í ræðu hans um viðhorfið. Ég saknaði þess, að hann gæfi yfirlit yfir viðhorfið innbyrðis í hans eigin flokki. Hvort þar eru allir jafnráðþægir við sósíalista og einhuga í þjónustunni við þá og var áður. Ég heyrði, að hæstv. fjmrh. sagði í gærkvöldi: „við vinstri flokkarnir“, og taldi þar með Framsfl. vinstri flokk. Eru ekki til neinir ráðamenn innan Framsfl. á þingi og utan þings, sem líta svo á, að Framsfl. eigi að vera milliflokkur? Ekki vinstri flokkur og ekki hægri flokkur, heldur milliflokkur. Var hæstv. fjmrh. í orðum sínum að gera þá menn ómerka, sem halda því fram, að Framsfl. eigi að vera millíflokkur eins og hann var á sinum glæsilegustu árum? Eða talaði hæstv. fjmrh. ekki af hálfu alls flokksins í gærkvöldi? Þetta atriði, um heildarviðhorf Framsfl., er svo mikið umtalaður hlutur í sambandi við stjórnmálahorfur augnabliksins, og margur kjósandi hefir sjálfsagt óskað að fá meiri upplýsingar í þessu efni frá hæstv. forsrh. sjálfum.

Það var aðeins eitt atriði í fyrri ræðu minni, sem hæstv. forsrh. vildi leiðrétta. Það var um smjörskortinn og ostana. En þó fór svar hans utan hjá efninu. Hann svaraði því, að smjörið heyrði ekki undir skipulagið. En það skiptir engu, þar sem ostarnir heyra undir það, og það er ostagerðin, sem veldur því, að smjör vantar. Hann svaraði: Það hafa engir ostar verið gerðir síðan í haust. Það er laukrétt, því að síðan hefir mjólkin verið seld. En það skiptir ekki máli, því að enginn býst við smjöri, úr því að mjólk er ekki til. Það, sem máli skiptir, er það, að gerðir voru ostar, en lítið smjör, úr mjólkinni á meðan hún var til. Og mjólkin var mikil í vor og sumar. Hver bóndi sá það af sprettunni í vor, að verða mundi lítið töðuár, og því minni mjólk í vetur. Hver bóndi sá þetta enn skýrar á túnaslættinum, þegar nýtingin varð svo hörmuleg. En það, sem hver maður sá, átti stjórn skipulagningarinnar líka að sjá. Og hún hefði a. m. k. séð það, ef bændurnir sjálfir hefðu haft þar ráðin, eins og Bændafl. vildi frá upphafi. Þegar fyrirsjáanlegt var, strax í vor og sumar, mjólkurleysi með vetrinum, hefðu bændurnir látið fara að gera smjör, en ekki nýmjólkurosta, því að það hefir ekki verið óþekktur hlutur meðal bændanna, að geyma smjör frá sumri til vetrar. Og mjólkurbúunum er það auðvelt. Ég orðaði það ekki, að haldið hefði verið áfram að búa til osta í mjólkurleysinu í september, október og nóvember, heldur hitt, að ekki hefði verið tekið tillit til þessa fyrirsjáanlega mjólkurleysis strax og séð varð spretta, í júlí og ágúst. En í þeim mánuðum var svo mikil mjólk, að mátt hefði fá smjör til jóla að minnsta kosti. Þessi leiðrétting hæstv. ráðh. um litla ostagerð í haust er því alveg utan við efnið, þó að hæstv. ráðh. hafi ef til vill ekki verið það ljóst. En þetta smáræði sýnir, hve mikilsvert er, að bændurnir sjálfir fái umráð afurðasölunnar, eins og Bændafl. vildi frá upphafi.

Hæstv. fjmrh. gerði skop að brauðtollinum. En þegar tollar eru settir á allt, sem heimilin þurfa að nota, jafnvel brauðið, er sá útgjaldaauki, sem nemur 40–150 kr. á sveitaheimili og 70–200 kr. á kaupstaðaheimili, ekki eintómt spaug fyrir þau heimili, sem minnst hafa, þó að það sé ekki tilfinnanlegt hjá hálaunamönnum eins og hæstv. ráðh.

Hæstv. fjmrh. gerði sig að svo einfaldri dúfu, að hann skildi ekki, hvað ég kallaði yfirbyggingu, og spurði, hvort það væri fjárpestarstyrkurinn. Fyrst hæstv. fjmrh. gerir sig sjálfan að barni, þá verð ég að tala við hann eins og barn. Og börn skilja bezt, ef þeim er kennt í dæmum. Ég skal því nefna honum nokkur smádæmi og sýna honum nokkrar smáflísar úr þeirri yfirbyggingu, sem ég átti við m. a.

Hann þekkir mann í sinum flokki, sem er ráðinn í þýðingarmikið starf hjá opinberri stofnun, sem krefst allra hans starfskrafta, enda hefir hann fyrir það góð embættislaun, 5000 kr. Svo er hann í nefnd, og hefir fyrir það 2000 kr. Svo er hann í annari nefnd, og hefir fyrir það ca. 1200 kr. Svo er hann í þriðju nefndinni, og er þar formaður, og hefir fyrir það 4800 kr. Svo er hann einskonar ráðunautur ríkisstj. í ýmsu og ýmsu, og fær fyrir það smáslatta. Og svo er hann þingmaður. Og þó að hann hafi öllum þessum störfum að gegna, sem hann tekur fyrir a. m. k. 10000 kr., fyrir utan sínar 5000 kr. fyrir aðalstarfið, þá launar hann ekki einu sinni manninum, sem verður bæði um þingtímann og oft endranær að gegna fyrir hann aðalstörfunum. Það er ekki nóg með það, að hann fái þarna þreföld prófessorslaun, heldur er stofnuninni gert að borga manninum, sem vinnur fyrir hann störfin, sem hann er ráðinn til og á að gegna. Finnst ekki hæstv. fjmrh. sjálfum sem það þurfi einhvern grunn undir yfirbyggingu með mörgum svona kvistum? Fleiri slíka kvisti mætti telja, sem þeir kannast við, hæstv. ráðh. Framsfl., en til að gera ekki upp á milli, vil ég spyrja hæstv. atvmrh., hvort hann kannist ekki við ungan mann, lítt reyndan, sem hann kom að merkri stofnun fyrir sjómannastéttina, — stofnun, sem vinnur aðeins tvo mánuði ársins. Hafði hann síðastl. sumar aðeins 12000 kr. og 4000 kr. uppbót, ásamt 100 kr. á dag, ef hann fer í ferð eða hreyfir sig. Það svarar a. m. k. 64000 kr., ef hann hefði starfað allt árið. Og þó að þetta sé ekki stærsti strompurinn á yfirbyggingunni, þá vil ég samt spyrja: Þarf ekki sterkan grunn undir yfirbygging með mörgum svona strompum? Einnig nú á þessu þingi hyllir í frv. stj. undir nýjar kvistbyggingar á þessa yfirbyggingu, þar sem á að stofna nýjar stöður og embætti. Þá hefir og sá háttur verið á hafður, þegar komið hefir verið í lög, að sérþekkingu þyrfti til starfs, að nema þau ákvæði burt, svo að unnt yrði án yfirmats að setja þá menn í yfirstöðurnar, sem ekki hefðu þekkingu til að bera, þó að því fylgi vitanlega það, að bæta verður við sérfróðum manni til að vinna verkin. Með þessu eykst starfsmannahaldið, yfirbyggingin, stöðugt, og kostnaðurinn við rekstur ríkisins. En atvinnuvegirnir og launafólkið, sem af þeim lifir, má nú sizt við nýjum kostnaði af þeirri yfirbyggingu. Það er alltaf auðveldara að fjölga starfsmönnunum en draga úr slíkum kostnaði aftur. En þó er margt nú á fjárlögum, sem er minni nauðsyn á en mörgu af því, sem nú er lækkað stórlega með sérstöku frv. um bráðabirgðafrestun nokkurra laga, svo sem styrk til áburðarkaupa, framlög til sýsluvegasjóða, búfjárræktar og ræktunarsjóðs. Ef fylgt væri slíkri sparnaðarstefnu um aðra síður nauðsynlega útgjaldaliði ríkisins, þá yrðu fjárlögin áreiðanlega annaðhvort lægri en þau eru nú, eða það væri hægt að verja meira fé atvinnuvegunum til styrktar. Framleiðslan þolir ekki meiri álögur; því verður að draga úr öðrum útgjöldum, til þess að hægt sé að styrkja hana meir.

Þessum umræðum er nú að verða lokið. Ég lýk máli mínu með þeirri ósk, að þjóðin fái bjargað atvinnuvegunum og komizt fram úr erfiðleikunum. Óska ég svo öllum hlustendum gleðilegrar hátíðar og allra heilla. Góða nótt.