15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Vilmundur Jónsson):

Ég tek fyrst nú til máls, þó að ég hafi framsögu fyrir meiri hl. n., og dró það svo til þess, að takast mætti að stytta þessar umr.

Auk brtt. á þskj. 379, sem allshn. flytur öll og fer í þá átt að heimila skipun þriggja varamanna í tryggingarráð flytur meiri hl. tvær litlar brtt. á þskj. 381. Þær eiga við 11. og 13. gr. frv. og fara báðar í þá átt að skýra nánar, hvernig formenn samlaganna skuli skipaðir. Eins og frv. er nú, er þar svo á kveðið, að tryggingarstofnun ríkisins skipi formennina. Það er nokkuð óglöggt orðalag, þegar til framkvæmda kemur, og þykir réttara að taka skýrt fram, að ráðherra skipi formenn eftir tillögum tryggingarráðs. Ráðið gerir fyrst till. sínar um, hvernig skipa skuli formann, en ráðherra framkvæmir skipunina. Meiri hl. n. mælir með þessum till., að þær nái samþykki, en hinsvegar, að aðrar framkomnar brtt. verði felldar. Einstakir nm. hafa þó óbundnar hendur um brtt. á þskj. 380, sem form. n. flytur með öðrum þm., um það, að sjóðfélagar í eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans skuli undanþegnir iðgjaldagreiðslu til lífeyrissjóðs Íslands, eins og hv. flm. hefir þegar lýst og talað fyrir. Sama gildir um skrifl. brtt. frá hv. þm. N.-Þ. um að gera samsvarandi undanþágu fyrir samsvarandi sjóð í Útvegsbankanum. Öllum öðrum brtt. er meiri hl. n. algerlega mótfallinn.

Ég verð að mótmæla hv. þm. Snæf., þegar hann segir um fyrirhugaða skipun á formönnum samlagsstjórnanna, að þar sé með frv. reynt að koma að óréttmætri pólitík. Þetta er röng getsök hjá hv. þm. Óréttmæti hennar má þegar sjá á því, að fyrsta krafan um þessa breyting kom frá sjúkrasamlögunum sjálfum. Á fundi á Akureyri í sumar, þar sem fulltrúar allra samlaga og af öllum stjórnmálaflokkum komu saman, þar á meðal margir samflokksmenn hv. þm., var einmitt samþ. þessi krafa með almennu fylgi fulltrúanna. Í öðru lagi er þetta nauðsynleg ráðstöfun til að tryggja, að í stjórn hvers samlags sé a. m. k. einn maður, sem vissa sé fyrir, að hafi þekkingu og áhuga á starfinu. Ég verð að lýsa yfir því, að ég teldi mjög illa farið, ef í framkvæmd þessa mannavals réðu pólitískar ástæður. Ég þykist mega fullyrða og treysti því, að það verði fyrst og fremst leitazt við að fá þá hæfustu menn, sem völ er á, og algerlega ástæðulaust að vantreysta hinu, að sjúkrasamlögum bæjar- og sveitarfélaga sé það alveg nóg, að hinir mennirnir, 2 eða 4, í stjórn þeirra verði valdir með tilliti til pólítíkur fyrst og fremst.

Um brtt. á þskj. 372, frá hv. 5. þm. Reykv., vil ég segja það: Þar sem því er lýst yfir í ræðu hans, þegar hann mælti fyrir þeim brtt., að með þeim mundu aðalagnúarnir á frv. falla burt, „séð frá okkar sjónarmiði“, eins og hann sagði um sig og hv. samflokksmann sinn hér í d. (ÍslH), þá er hreint ekki orðið mikið eftir af þeirri hatrömu gagnrýni, sem þessir hv. þm. hafa beint að frv. Því að þessar umbætur, sem þeir ætla nú að gera á frv., eru ákaflega lítils virði. Ég fæ ekki betur séð en að með því að flytja þær séu þeir að biðjast fyrirgefningar á öllu níði sínu um þetta frv.

Við 9. gr. á aðeins að bæta því, samkv. brtt. 372,1, að á eftir orðunum: „haldinn alvarlegum, langvinnum, virkum sjúkdómi“ í 1. málsl. gr. komi: „og eigi rétt til hlunninda samkv. l. nr. 78 23. júní 1936, um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla“.— En eftir sjálfum lögunum um þessa ríkisframfærslu eiga allir slíkir menn þann rétt. Það er jafnvel ekki tekið fram, að sjúkdómurinn þurfi að vera virkur. Að vísu eru þar skilyrði, t. d. um efnahag. En ég vil ekki gera ráð fyrir, að hv. 5. þm. Reykv. setji sig móti því að efnafólk greiði sjúkrakostnað sinn sjálft. Þessi brtt. bætir engu við það, sem áður er í lögum. Hún er þess vegna alveg óþörf.

Sama gildir um brtt. 372,2, við 16. gr. Ég þakka fyrir það, að hann hefir sansast á það. sem ég var að skýra fyrir honum, að það er ekki þýðingarlítið í samningum við læknana að hafa heimild 16. gr. frv. í bakhöndinni. Brtt. hv. þm. gengur aðeins í þá átt að fella burt heimildina til að greiða á þann takmarkaða hátt, er í gr. getur, lyf og sjúkrahúskostnað. Það, sem hv. þm. hyggst að ná með þessu, tekst ekki. Því að sjúkrasamlögin taka eftir sem áður ekki að sér að greiða sjúkrahúsum kostnað nema þeim, sem samið hefir verið við, eins og tekið er fram á öðrum stað í lögunum, í 30. gr. þeirra. Þá eru lyfsalarnir einir eftir, sem langminnsta, ef nokkra, þýðingu hafa í þessu sambandi, þar sem þeir eru bundnir af gjaldskrá, sem hið opinbera setur og ræður öllu um. Er lítil og engin ástæða til að gera ráð fyrir, að algerl. samningar náist ekki við þá. Þessi brtt. hv. 5. þm. Reykv. gerir því ekkert strik í þessa reikninga, ekki fremur en 1. brtt. hans, 3. brtt. er þó allra skemmtilegust fyrir það, að með henni játar hv. þm., að gagnrýni hans á þeirri gr., sem hann áður átaldi harðast, sé ekki á rökum byggð. Þessi gr., sem hann gagnrýndi svo ákaflega og fann allt til foráttu, inniheldur reglur um úthlutun úr lífeyrissjóði til gamalmenna og öryrkja. Taldi hann ákvæði þessarar gr. ofsókn á hendur öllum gamalmennum í landinu. Samkv. ákvæðum hennar væri ekki hægt að úthluta nema 200–300 kr. til hvers gamalmennis á ári. Nú vill hv. þm. samt ekki breyta þessari gr., heldur orðalagi á næstu g. á eftir og á þann hátt, að hver maður sér, hvernig hann nú skilur hina áður fordæmdu gr. og úthlutunarreglur hennar. Með brtt. sinni vill hann gera ákvæði 39. gr. frv. þannig, að ellilaun skuli ákveðin svo há með hliðsjón af framfærslukostnaði í byggðarlaginu, að þau séu nægilegur lífeyrir. En ef margumtalaðar reglur einnar gr. frv. útiloka það, að ellilaun geti nokkurntíma orðið nema 200–300 kr., þá væri ekkert vit í og algerlega tilgangslaust að setja slík ákvæði í frvgr. Með þessu er því játað af hv. 5. þm. Reykv., að honum hefir nú ekki einungis alveg réttilega skilizt merking þeirrar gr., sem hann átaldi áður harðlegast, heldur hefir hann fallizt á ákvæði hennar, og kemur því brtt. hans mér fyrir sjónir sem auðmjúk fyrirgefningarbeiðni á þeim ásökunum, sem hann bar fram á hendur mér, og þeim misskilningi á merkingu þessarar gr., sem lá þar á bak við. Og að sjálfsögðu fyrirgef ég honum af fúsu geði. Það er drengilegt af hv. þm. að kannast við þetta svo opinberlega.

Um aðrar brtt. skal ég ekki fara mörgum orðum. Vil þó geta þess um brtt. á þskj. 380, frá hv. þm., Barð., og hv. þm. Mýr., að ég álít ekki aðkallandi að samþ. þá brtt. Það er að vísu svo, að sjóðfélagar í eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans eru skyldaðir með l. til þess að tryggja sig þar. En með þeim ákvæðum, sem þegar eru fyrir í frv., ætla ég, að þessum mönnum sé sýnd full sanngirni. Og naumast mundi þessi breyt. verka öðruvísi en svo, að allir mest launuðu starfsmenn Landsbankans fengju að ástæðulausu verulega ívilnun á iðgjöldum sínum. Allir lægst launuðu starfsmennirnir fengju hinsvegar sín iðgjöld endurgreidd sér að skaðlausu. En svo sem það er að mínum dómi óþarft að samþ. þessa brtt., álít ég þó, að hin skrifl. brtt. frá hv. þm. N.-Þ. sé beinlínis hættuleg fyrir viðgang lífeyrissjóðs Íslands. Því að ef nokkursstaðar á að nema staðar með slíkar undanþágur fyrir sjóðfélaga lífeyrissjóða einstakra manna, þá get ég ekki séð, að finna megi neina markalinu, sem hægt sé að staðnæmast við, aðra en þá, að undanþágurnar veitist aðeins fyrir þá sjóði, sem stofnaðir eru með lögum og sem þó á sér stað um lífeyrissjóð Landsbankans, en hinsvegar ekki um lífeyrissjóð Útvegsbankans. Það er t. d. ekki sanngjarnt, eftir að slík undanþága hefir verið veitt til handa starfsmönnum Útvegsbankans, að neita um samskonar undanþágu til handa starfsfólki Eimskipafélags Íslands, sem líka á sér lífeyrissjóð. Það yrði því næsta hættulegt fjárhag lífeyrissjóðs að fara út á þá braut, sem hv. þm. N.-Þ. leggur til, og er ómögulegt að vita, hvar staðar ætti að nema. Þessa sjóði má stofna endalaust, og einkum freistandi fyrir hátekjufólk, sem lífe3rissjóður Íslands hefir tiltölul. mestar tekjur af.

Ég ætla, að ekki sé þörf á að svara hv. þm. V.-Sk. (GSv) né hv. 6. þm. Reykv. (SK), því að n. hefir með till. sínum tekið afstöðu til þess, sem þeir hv. þm. ræddu um. Ég vil þó aðeins mótmæla því, sem hv. þm. V: Sk. hélt fram, og vara hann við að halda slíkum kenningum að kjósendum sínum eystra, að ef honum sjálfum þóknist að halda fram skýringum á l., sem fara þvert ofan í bókstaf l., þá eigi að fara eftir hans skýringum. Ég hygg varlegra að fara eftir bókstaf t. En túlkun hv. þm. á því, með hvaða skilyrðum vextir ellistyrktarsjóðanna eru fengnir í hendur einstökum sveitarfélögum samkv. ákvæðum frv., var nákvæml. þvert ofan í skýran bókstaf frv.

Líkt vil ég segja um hinn sérstaka skilning hv. þm. N.-Þ. á því, hvernig rétt sé að reikna lífeyri í sveitum og þorpum, sem hafa yfir 300 íbúa. Sá skilningur stendur aðeins fyrir hans reikning.

Vonast ég til, að mér hafi tekizt að orða þessa ræðu mína svo áreitnislaust, að óþarfar deilur þurfi ekki að vekjast upp út af því, sem ég hefi nú sagt. Enda vildi ég mjög mælast til þess, að hraðað verði afgreiðslu þessa máls. Það er satt, að frv. er leiðinlega seint á ferð og því gefst leiðinlega stuttur tími til athugunar í hv. Ed. Má afgreiðsla þess því að sjálfsögðu ekki dragast neitt úr þessu hér í hv. deild.