15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

124. mál, alþýðutryggingar

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það er furðulegt, hve sú trú er sterk hjá hv. þm. N.-Ísf. og mönnum, sem nálægt honum standa í hans flokki. að hvernig svo sem staðreyndirnar séu í þann og þann svipinn, þá geti gorgeirinn alltaf borgið þeim. Ég er alveg hissa, að eins gáfaður og sjálfstætt hugsandi maður og þessi hv. þm. er skuli ekki leita meir að staðreyndum og halda sífellt áfram í sama tóninum, hvenær sem maður reynir að sýna honum og hans flokki undanlátssemi í einhverju deilumáli. Ég vil vona, að það fari nú ekki að verða langt þangað til þessi hv. þm. hættir að beita þeim aðferðum, að líta svo á sem ekkert sé til utan þess, sem hann sjálfur túlkar eða vill vera láta; að það sé nóg að segja að þetta sé svona og svona, og þá sé það þannig. Þessi stefna, þessi trú á hrokann er á allan hátt hættuleg fyrir Alþfl., og ég hélt, að hann hefði rekið sig á það, að það er ekki heppilegt að halda þeim upptekna bætti áfram.

Hv. þm. gerði tilraun til þess að snúa út úr till. okkar kommúnista og um leið að setja sig á háan hest, eins og honum finnst fara sér svo vel, og þykir honum hann vera mikill sigurvegari í okkar deilum.

Ég ætla nú, í eins stuttu máli og hægt er, að sýna hv. þm. fram á, hvernig við hugsum okkur að afmá með þessum till. verstu agnúana 1 þessu frv.

Það er þá í fyrsta lagi viðvíkjandi varanlegum sjúkdómum. Í þeirri gr., sem þar er um að ræða, vakir sérstaklega fyrir okkur að tryggja rétt gamalmennanna gagnvart sjúkrasamlögunum. Er reynt að sjá til þess, að þau séu tryggingarhæf, en að svo miklu leyti, sem þau eru það ekki, að koma þeim undir l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla.

Ég ræddi um það við 2. umr. þessa máls, hvað gert yrði, ef þetta frv. næði fram að ganga. Gamalmennunum yrði skipt í þrennt, þau, sem fengju að vera í sjúkrasamlögunum, sem fengju ríkisstyrk sjúkra manna og örkumla, og loks þau, sem beinlínis yrðu að fara á sveitina. Og hv. þm. hefir ekkert haft við þá skiptingu að athuga. Það, sem í okkar till. er verið að gera, er að tryggja það, að þau gamalmenni, sem ekki kæmust með þessu móti undir sjúkrasamlögin, kæmust undir ríkisstyrk sjúkra manna og örkumla, og yrðu þannig ekki nema þessir tveir flokkar. Þetta hélt ég, að myndi vera nokkuð skýrt eftir orðalaginu á okkar till.

Í öðru lagi er það viðvíkjandi 18. gr. — Mér er fullkunnugt um ákvæði 30. gr. um það, að sjúkrasamlög séu ekki skuldbundin til þess að greiða öðrum læknum eða sjúkrahúsum fyrir sjúklinga en þeim, sem samningar ná til. Og mér er líka kunnugt um það, hvernig sjúkrasamlag Reykjavíkur hefir reynt að koma sér undan skyldum sínum við þá tryggðu með skírskotun til þessa. En hinir tryggðu eiga að geta komizt að á sjúkrahúsi, og þær ákvarðanir, sem hindra slíkt, eru skerðing á rétti þeirra. Og það, sem ég vildi fyrirbyggja með brtt., er það, að þessi réttarskerðing verði svo að segja lögfest, því það er meiningin með 16. gr. eins og hún er orðuð.

Hv. þm. N.-Ísf. var að reyna að láta líta svo út sem við hefðum breytt um skoðun á 37. gr. Það er eins og hann sé búinn að gleyma því, sem um er deilt. við höfum haldið því fram, að með 2. tölul. 37. gr. sé verið að undanþiggja þau gamalmenni og setja þau í sérstakan hóp, sem þegið hafa sveitarstyrk árið áður, og bæjarstjórnunum er ekki úthlutað ellilaunum út á þessi gamalmenni. Og þar með er gamalmennunum skipt í þrennt. Og það er þessi skipting. sem við erum að berjast á móti.

Hv. þm. fór allt í einu að tala um upphæð ellilaunanna í sambandi við okkar brtt. og sagði, að ég hefði talað um 200–300 kr. Það hefir aldrei verið minnzt á þetta hér. Það, sem um er að ræða í þessari gr., er ekki upphæðin, heldur rétturinn. Brtt. okkar fer fram á að veita öllum gamalmennum ellilaun, svo að ekkert þeirra þurfi sveitarstyrk. Með þessu móti er gamalmennunum ekki skipt í neina flokka, eins og gert er samkv. frv. Og þetta tók ég skýrt og greinilega fram.

Hinsvegar ætla ég mér ekki þá dul að sannfæra þennan hv. þm. Það er mér vafalaust ofvaxið. Og mér þætti vænt um, ef hann vildi halda sínum skilningi og standa við það, sem hann hefir sagt, sem sé að þessar brtt. okkar séu einskis virði og að það gerði hvorki til eða frá, þótt þær yrðu samþ. Ég vil skora á hann, svo framarlega sem hann heldur þessum skilningi, að samþ. brtt. Ef hv. þm. hefir það álit, sem hann sagði áðan, held ég, að hann ætti að fylgja þeirri skoðun, ekki sízt vegna þess, að þá mundi hann um leið vera í samræmi við vilja síns eigin flokks, og því hefir hvað eftir annað verið lýst yfir, hvernig sá vilji væri.

Ég vil mega vænta þess, að hv. þm., þrátt fyrir — hrokann í ræðu sinni áðan, fari að venja sig af því að tala með þessari takmarkalausu fyrirlitningu, — ekki á kommúnistum, en hans eigin flokki. Hv. þm. vill koma hér fram sem lærifaðir og setur upp spekingssvip í hvert skipti, sem hann talar til okkar kommúnista. Ég held, að hann ætti einu sinni að gerast lærisveinn, — ekki minn, en fólksins, sem hefir treyst honum og hans flokki. Og ég held, að hann ætti fyrst og fremst að temja sér þetta við þær umr., sem hér fara fram. Ég held, að það geri ekkert til, þó að þessi hv. þm. lagaði sig öðruhverju eftir því, sem fólkið í hans flokki hugsar. Það er svo, að við erum kosnir á þetta þing, — ekki til að framkvæma okkar vilja, heldur þess fólks, sem við erum umboðsmenn fyrir. Og þegar kosningar fara fram, reynist það ekki heppilegt að hirða ekkert um þann vilja.