15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

124. mál, alþýðutryggingar

*Sigurður Kristjánsson:

Ræða hæstv. atvmrh. var fremur vesældarleg og vandræðaleg og ekki illa samboðin málstaðnum. Hann lézt ekkert skilja, hvað ég meinti með minni fyrirspurn. Hann velti yfir höfuð ákaflega vandræðalega vöngum yfir þessu öllu saman, þó að hann segðist fullyrða, að lífeyrissjóður embættismanna og barnakennara væri fullkomlega fær um að standa við skuldbindingar sinar og hefði alltaf verið. Nú er þetta dálítið einkennilegt, þegar þessir sjóðir voru af honum sjálfum ekki taldir færir um að standa við skuldbindingar sínar samkv. 1. um alþýðutryggingar, og það varð að afgreiða hér bráðabirgðal. til þess að losa sjóðina undan þeim skuldbindingum, sem þeim voru bundnar með 62. gr. alþýðutryggingarl. Það er þess vegna ekki einungis vandræðalegt. heldur einnig mjög skoplegt að heyra þessa vörn, ef vörn skyldi kalla, því að það er sjálfur þessi hv. ráðh., sem hefir fengið þingið til þess að losa sjóðina undan skuldbindingum þeirra, af því að þeir voru ekki taldir færir um að fullnægja þeim. Það er líka dálítið skoplegt að heyra þessar drýldnu fullyrðingar rétt eftir að hv. þm. Barð. hefir sagt, að afstaða hans til þessa atriðis skapaðist af því, eins og hann komst að orði, að sjóðirnir gætu ekki greitt þetta fé. Hann álítur, að þessir tryggingarsjóðir séu í framtíðinni ekki færir um að standa við skuldbindingar sínar, og verði því með lagabreyt. að losa þá frá þeim skuldbindingum, sem alþýðutryggingarl. sköpuðu þeim, en hitt vita allir, að sjóðirnir voru ekki taldir færir um það til þessa tíma. Ég hygg, að það sé alveg ljóst mál, að sjóðirnir geti verið færir um þetta, ef stj. þeirra vill, en að hér sé á ferðinni ofbeldisfull aðferð til þess að taka þann rétt af embættismönnum og barnakennurum, sem þeim var fenginn með alþýðutryggingarl. og öllum þótti þá vera sanngjarn, og vissulega er sanngjarn. Ég veit það persónulega, að ýmsir framsóknarmenn, og þar með hv. þm. Barð., álíta þetta vera hart að gengið og finnst það vera bæði rétt og skylt að láta þetta fólk njóta þessa réttar, sem því var áskilinn með 62. gr. alþýðutryggingarl. Og ég álit, að það sé bæði rétt og skylt að láta þetta fólk njóta þess réttar, sem því var áskilinn í 62. gr. l. þessara. En það er í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, að þm. Alþfl. ráða og hv. þm. Framsfl. gerast einskonar bandingjar hjá þeim og verða nauðugir viljugir að láta að vilja Alþfl.-þm.