18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1938

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég verð að segja, að ég fór nú fyrst að kannast við hv. þm. Dal., þegar hann fór að tala um smjörið og ostana. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði við fyrrihluta þessara umr. um þetta atriði, enda er það nú orðið landslýð ljóst, og hv. þm. Dal. líka, að allt þetta ostatal hafi átt mestan þátt í þeim banabita, sem Bændafl. varð að kingja í kosningunum síðustu. Það er vitanlegt, að víða þurrkaðist Bændafl. út við þessar kosningar, svo sem í Strandasýslu, og raunar í öllum kjördæmum. Þau fáu atkvæði, sem töldust Bændafl., voru íhaldsatkvæði.

Hv. 4. landsk. var að karpa um það, hver ætti upptökin að skipulagi afurðasölunnar. Það, sem hann ber þar fram, hefir svo oft verið hrakið, að ég hirði ekki um að fara út í það hér.

Við hv. þm. G.- K. þarf ég ekki að ræða. Það er öllum þeim ljóst, er hlustað hafa á viðskipti hans við hæstv. fjmrh., að hv. þm. G.-K. stendur þar uppi ráðþrota. Hann hefir ekki getað bent á neitt, sem réttlæti þann tvöfalda málflutning, sem Sjálfstfl. hefir við haft, og líkist mjög aðferðum kommúnista. Kommúnistarnir deila á stjórnina fyrir að ganga ekki að hinum ríku. Þó hefir það verið upplýst, að beinir skattar eru hér mun hærri en í nágrannalöndunum. Hv. þm. G.-R. reyndi að telja útvegsmönnum trú um, að hægt væri að létta milljónum af útvegnum og veita honum síaukinn styrk, án þess að tekjur og skattar væru hækkaðir það minnsta, eins og þessi auknu útgjöld þurfi hvergi að koma niður. Þetta er ekki hægt að kalla annað en skrum.

Það er eftirtektarvert, að allir þeir flokkar, sem hér hafa ráðizt á Framsfl., hafa reynt að telja hlustendum trú um, að flokkurinn væri að svíkja stefnu sína. Kommúnistar og jafnaðarmenn hafa reynt að telja fólki trú um, að nokkur hluti Framsfl. væri að hneigjast í íhaldsátt, en Sjálfstfl. og Bændafl. hafa hins vegar haldið því fram, að flokkurinn, eða hluti hans, sé að komast á vald sósíalista. Þetta er gert í ákveðnum tilgangi, þeim tilgangi, að skaða Framsfl. En ég verð að hryggja þessa flokka alla með því að lýsa því yfir, að þetta á sér enga stoð í veruleikanum. Framsfl. mun hér eftir sem hingað til taka ákvarðanir sínar sem einn maður. Með þessum orðum vil ég kveðja ykkur, tilheyrendur góðir, og óska ykkur gleðilegra jóla. Góða nótt.