20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

124. mál, alþýðutryggingar

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Þetta er eitt af hinum mestu málum, sem legið hafa fyrir Alþingi að þessu sinni. Er stutt síðan það kom til þessarar hv. d. Allshn. hefir að vísu farið yfir frv. og borið það saman við l., eins og segir í nál. Skal ég gera grein fyrir því í stórum dráttum, hvaða breytingar á núgildandi l. frv. fer fram á. Þó vil ég geta þess áður, að minni hl. n., hv. 11. landsk., hefir ekki skilað nál., en mun gera grein fyrir sinni afstöðu hér. En hann mun ekki geta fylgt frv. án nokkurra breytinga. Hinsvegar er meiri hl. ljóst, að ef málið á að ná framgangi á þessu þingi, tjáir ekki að gera neinar breyt. á frv. En við teljum breyt. þær, sem frv. gerir á l., svo mikilvægar, að sjálfsagt sé að láta málið ná fram að ganga. Viljum við því hvetja menn til að brjóta odd af oflæti sinu og bera ekki fram brtt., svo að málið tefjist ekki.

Þá kem ég að helztu nýmælum, sem frv. flytur. Við 2. gr. hafa verið gerðar mestar breytingar. Að vísu er í 1. gr. gerð sú breyt., að tryggingaráð skuli tilnefnt af þrem stærstu þingflokkunum, en áður var það skipað af ráðh. Í b-lið sömu gr. eru svo skýrari ákvæði um starfssvið tryggingarráðs.

Með a-lið 2. gr. er bætt við nokkrum nýjum starfsflokkum. Ég skal játa, að það er alltaf varhugavert að gera slíkar upptalningar. Þær geta aldrei orðið tæmandi, og alltaf geta bætzt við nýir starfsflokkar, sem gera nauðsynlegar Breyt. síðar meir. B-liður þessarar gr. kveður á um tryggingarskyldu, þegar um ákvæðisvinnu er að ræða. Er að þessu mikil bót, því að áður hefir ríkt nokkur misskilningur um það, hvort ákvæðisvinna skyldi vera tryggingarskyld eða ekki. Nú er þessu slegið föstu. C-liður fjallar um heimild til að tryggja einstaka menn, svo sem þá, er ferðast í einkabifreiðum, sem bifreiðal. ná ekki yfir.

Þá er 3. gr. Þar er það nýmæli, að í b-lið er útgerðarmanni gert skylt að tryggja gegn aukaiðgjaldi áhættu þá vegna slysa, er bótaskyld eru samkvæmt l. Áður var heimild til þessa, en nú er það skylda. Auk þess er þarna tekið fram, að slysatryggingunni beri að greiða hinum slasaða, auk slysabóta, fullt kaup eða hlut í eina viku frá afskráningardegi. Tel ég þetta mikla bót fyrir fiskimenn, því að þeim hefir oft gengið illa að fá þessar bætur.

Þá er 4. gr., sem kveður á um bætur við fráfall venzlamanna, og er þar gerð nokkur breyting á l., sem ég tel til bóta.

5. gr. kveður skýrt á um það, að skipverjar teljist í þjónustu útgerðarmanns, þó að þeir fái hlut af afla, en ekki kaup, og teljast þeir þá líka í tryggingunum. — Næstu gr. eru svo ekki annað en afleiðing af þessu, sem komið er.

9. gr. er um aldurstakmark tryggingarskyldra. Samkv. gr. er þeim, sem eru yfir 67 ára að aldri, heimilt að láta tryggja sig, en ekki er það skylda. Hygg ég það heppilegt, að gamalmennum sé það í sjálfs vald sett, hvort þau greiða iðgjöld til trygginganna eða ekki.

Um 10. og 11. gr. þarf ég ekki að ræða. Þær skýra sig sjálfar.

Í 12. gr. eru nokkrar breyt. frá því, sem er í l., aðallega þó orðalagsbreytingar. Eru þar þó rýmri ákvæði um það, ef fólk í sveit óskar eftir að stofna sjúkrasamlag. Að vísu þarf eftir gr. meiri hl. atkv. hreppsbúa, eins og áður, til þess að sjúkrasamlag sé hægt að stofna, en ef ekki næst til meira en helmings atkvæðisbærra manna í hreppnum, skal fara fram ný atkvgr. innan 4 vikna, og ræður þá einfaldur meiri hl. greiddra atkv. úrslitum.

13. og 14. gr. skýra sig sjálfar.

Með 15. gr. er gerð allveruleg breyt. frá því, sem nú er. Þar er gert ráð fyrir, að niður falli gjald, er sjúkrasamlagsmeðiimi er skylt að greiða til lækna eða sjúkrahúsa, með þeim takmörkunum, er í gr. segir. Í þessari gr. eru auk þess fleiri réttarbætur.

16. gr. er að mestu afleiðing af því, sem áður er komið.

Í 17. gr. er skýrar en í l. kveðið á um iðgjaldagreiðslur unglinga á aldrinum 16–21 árs, er dvelja á heimilum efnalausra foreldra. Er heimilað að gefa eftir iðgjöld þessara unglinga, ef tekjur fjölskyldunnar eru undir vissu lágmarki, sem ákveðið skal í samþykktum sjúkrasamlaganna. Reynslan hefir sýnt, að það hefir oft verið óbærileg byrði fyrir barnmörg heimili að greiða þessi iðgjöld.

19. gr. kveður á um að hámark þess framlags, sem bæir og ríki greiða nú og má nema ¼ af gjöldum samlaganna, sé hækkað úr 9 kr. upp í 10 kr.

21. gr. er að efni eins og 37. gr. l., að öðru en því, að hér er skýrar að orði kveðið um það, hvernig fari um menn, sem vegna fátæktar geta ekki greitt iðgjöld sín. Er gert ráð fyrir, að bæjar- og sveitarstjórnir setji reglur um þetta, er samþ. séu af ráðh. Er þetta nauðsynleg lagfæring, því að oft hefir verið gengið nokkuð hart eftir iðgjöldum hjá fátæklingum. Er vonandi, að þetta skapi nokkru meira réttlæti en ærið hefir.

Ég hleyp hér yfir nokkrar gr., sem eru aðallega orðabreytingar, og kem að 27. gr. Hún er breyt. á 49. gr. l. Hún er um ívilnanir, sem lífeyrissjóður Íslands getur veitt eftirlaunasjóðum, er einstakar stofnanir eða fyrirtæki kunna að stofna fyrir starfsfólk sitt eða meðlimi.

28. gr. bætir því við 50. gr. l., að bæjar- og sveitarsjóðir skuli greiða iðgjöld fyrir gamalmenni á aldrinum 60–70 ára, sem geta það ekki sjálf fyrir fátæktar sakir. Skulu slíkar greiðslur fara eftir reglugerð, sem bæjar- eða sveitarstjórnir setja, en ráðh. staðfestir.

Svo hleyp ég yfir þrjár gr., aftur að 32. gr. Hún er gerð að umtalsefni í nál. meiri hl. Í Nd. var því bætt inn í frv., að sjóðfélagar í eftirlaunasjóðum Landsbankans og Útvegsbankans skuli undanþegnir iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs Íslands. Við lítum svo á, að ef hnigið verður að þessu ráði, muni margir eftirlaunasjóðir einstakra félaga og stofnana koma á eftir og æskja hins sama til handa sér. Ég hefi sérstaklega í huga þrjá allfjölmenna sjóði, er hér myndu koma til greina; sjóði starfsmanna Reykjavíkurbæjar og Eimskipafélagsins og svo ellilaunasjóð prentara. Kunna að vera til fleiri slíkir eftirlaunasjóðir, sem krefjast myndu þessara réttinda. Það hefði þau áhrif, að líkur væru til, að lífeyrissjóður Íslands geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, ef þessir sjóðir eru undanþegnir greiðslum til lífeyrissjóðs. Það eru yfirleitt fastlaunaðir menn, sem greiða í þessa sjóði, og eftir því, sem fleiri þeirra fá undanþágu, er meiri hætta á vanhöldum á greiðslum til lífeyrissjóðs Íslands, þar sem það verður þá aðallega efnaminna fólkið, sem greiðir til hans. Þótt ég sé óánægður með, að þetta sé komið inn í frv., þá bendir það til, að reynslan hafi leitt í ljós, að ákvæði 27. gr. séu nauðsynleg, og sé ég mér því ekki fært að leggja til, að þetta sé numið burt úr frv. Það er vafasamt, hvernig atkv. mundu falla um það hér í hv. d., og í Nd. mundi sennilega engin leiðrétting fást, enda enginn tími orðinn til að málið hrekist á milli deilda, þar sem þetta virðist vera mikið deilumál.

Skal ég minnast á 35. gr., sem er hvað veigamest og er um það, að ríkissjóði verði lögð sú skylda á herðar, að í stað 150 þús. kr. árlegrar greiðslu til lífeyrissjóðs Íslands verði hér eftir greiddar 200 þús. kr.

Svo er það 37. gr. Hún skapar skýrari og tvímælalaust öruggari reglur um, hvernig beri að úthluta úr lífeyrissjóði. Hefir það komið fram við reynsluna, að ekki þótti tryggt að láta l. standa óbreytt í þessu efni, þar sem það hefir sérstaklega orðið að ásteytingarsteini, að ýms bæjarfélög hafa notað þá upphæð, sem þau hafa fengið frá lífeyrissjóði, til ellilauna handa þeim, sem áður hafa verið á fátækraframfæri, og þeir, sem ekki nutu fátækrastyrks, fengu svo lítil ellilaun, að þeir urðu fyrir stórum vonbrigðum í þessu efni. Hefir það orðið til þess, að gamalmenni, sem eru að hasla við að fara ekki á sveitina, fá mjög lítinn styrk, en það var tilgangurinn, að einmitt þau gamalmenni fengju hærri styrk en áður. En í stórum bæjarfélögum er ekki hægt að draga völdin úr höndum bæjarstjórnanna. Það er að lagfæringu á þessu, sem gr. miðar.

38. og 39. gr. miða að því sama, sem ég nú hefi gert að umtalsefni, og er sjálfsögð afleiðing af fyrri breyt.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra frekar þessar breyt. á alþýðutryggingarlögunum; þær miða efalaust allar að því að gera l. réttlátari. Eins og löggjöfin var, áleit almenningur, að henni væri mjög ábótavant, og það var líka mér og öðrum ljóst, þegar l. voru samþ., en þá stóð eins á nú, að hvorki var tími eða tækifæri til nauðsynlegra breyt., ef l. áttu að ganga fram, enda hefir reynslan sýnt, hvaða breyt. þurfti helzt.

Má vera, að fleira eigi eftir að koma í ljós, svo að menn finni ástæðu til á næsta þingi að gera frekari breyt., en ég hika ekki við að fullyrða, að svo miklar réttarbætur fyrir almenning felast í þeim breyt., sem nú hafa verið gerðar með þessu frv., að vafalaust beri að samþ. þær nú og að ekkert það eigi að gera, sem geti orsakað, að málið stöðvist á þessu þingi.