20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

124. mál, alþýðutryggingar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er efalaust rétt, sem þeir hv. ræðumenn, sem hafa talað á undan mér, hafa sagt, að búið sé að ákveða, hvort frv. þetta skuli ná fram að ganga og að brtt. skuli ekki ná fram að ganga. Ég mun því ekki geta breytt sannfæringu hv. andstæðinga, og a. m. k. ekki ráðið um það, að breytingar verði á frv.

En það er einn kafli í þessum l., sem ég hefi borið fyrir brjósti og barizt fyrir að breytt verði frá því, sem hann var upphaflega, og það er kaflinn um ellitryggingar. Það er sagt, að svo séu lög, sem hafa tog, og það er víst, að svo hefir reynzt með þessi l. Mér finnst kaflinn um ellilaun vera mjög óskýrt orðaður um það, hvernig koma eigi við ellilaunagreiðslum á næstunni. Ég hefi jafnan haldið því fram, að ellistyrktarsjóðirnir væru í raun og veru eign bæjar- og hreppsfélaga og ættu að vera undir þeirra umsjá, og því væri í raun og veru rangt að taka þá undir lífeyrissjóðinn. Það er fyrst þegar þeirra hlutverki er lokið, að lífeyrissjóðurinn ætti að taka þá undir sína umsjá. Eins og stendur ætti það eingöngu að vera hreppanna sjálfra að sjá um þá og gefa reikninga yfir þá. En það er nú orðið auðséð, að meiningin er að draga þá undir þessa stofnun (lífeyrissjóð) og svipta hreppana alveg umráðaréttinum yfir þeim. Ég er líka sannfærður um, að vextir ellistyrktarsjóðanna eru tvímælalaust eign sveitar- og bæjarfélaga, og að þeir séu í raun og veru ekki annað en tillag frá hreppunum sjálfum og það ætti að leggja á móti þeim úr lifeyrissjóði eins og öðru tillagi hreppanna. Það er einmitt sagt, að ellistyrktarsjóðirnir eigi að vera til þess að hjálpa þeim, sem ekki vilja þiggja sveitarstyrk, sérstaklega handa þeim, sem vegna vanheilsu eða ómegðar eru að lenda á hreppnum eða eru ófærir til vinnu sökum elli. Gamlir menn eru búnir að greiða mikið í þessa sjóði og eiga því heimtingu á að fá hluta af þeim.

Ég verð að segja, að þegar svo skammur tími er setlaður til að athuga jafnflókin lög og þessi, þá er ekki þægilegt að bera fram brtt. við þau, og ég tel langheppilegast, að svo verði gert sem stungið hefir verið upp á að þessu máli verði frestað til næsta þings. Ég sé ekki, að neitt tapist við það.

Fyrir ellitryggingarnar sé ég ekki, að það hafi nokkra þýðingu að hraða frv. svo mjög, en það mundi verða miklu heppilegra, að hvor hv. d. hefði tíma til að athuga þetta vandlega. Eins og ná standa sakir kemur málið sjálfsagt til 3. umr. og til afgreiðslu úr þinginu strax á morgun, og á þeim tíma er ekkert hægt að athuga það frekar; en venjan er, að við þm. biðum eftir áliti og röksemdum n. áður en við förum að gera okkar aths. um frv. Legg ég því til, að dagskráin, sem fram hefir komið, verði samþ.