20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

124. mál, alþýðutryggingar

*Árni Jónsson:

Það eru örfá orð. Þeir hafa leitt hér saman hesta sína fulltrúar verkalýðsins, sem svo kalla sig, og kemur illa saman um, hvernig undirbúningur málsins hafi verið. Hv. 3. landsk. heldur fram, að þetta mál hafi verið mjög vel undirbúið í verklýðsfélögunum, en hv. 1. landsk. þvert á móti. Hann heldur fram, að Alþfl. hafi alls ekki borið þetta mál nægilega undir verkalýðinn, og meira að segja ekki leitað þar samvinnu við sína eigin flokksmenn um það. En ég vil spyrja hv. 1. landsk., sem hefir mælt á móti dagskránni, hvort honum finnist ekki meira samræmi í því, þegar hann heldur fram, að málið sé illa undirbúið, að láta það fá almennilegan undirbúning með því að skipa n. til að undirbúa það fyrir næsta þing.

Ég vil ekki skera úr um það, hvernig málið hafi verið undirbúið, því að ég tel mig bresta til þess kunnugleika. En hinu vil ég halda fram, að hér á þingi hefir málið ekki fengið þann undirbúning, sem nauðsynlegur er og samboðinn löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Það er furðulegt, þegar hv. frsm. meiri hl. heldur því fram, að ekki sé nauðsynlegt að skipa mþn. í málið, af því að hún muni ekki hafa tíma til að undirbúa það fyrir næsta þing. Það er tilætlunin að n. sé skipuð samkv. tilnefningu þriggja stærstu þingflokkanna, og auðvitað yrðu valdir til þess þeir menn, sem mesta þekkingu hafa á þessum efnum. Mér er spurn: Ef þeir, sem eru hæfastir á þessu sviði, geta ekki fundið botn í málinu á 2 mánuðum, hvernig er þá hægt að ætlazt til, að hv. 3. landsk. eða ég, sem litla þekkingu höfum á þessu máli, getum fengið sæmilegan botn í því á einum 2 dögum. Nei, ég vil halda mig við það, elns og hv. 6. landsk. og hv. þm. Vestm. hafa líka tekið undir, að þetta mál hafi ekki fengið þá meðferð í þinginu, sem samboðin er. Þess vegna væri það eina rétta að fresta því til næsta þings og undirbúa það betur, eins og lagt er til í þeirri rökst. dagskrá, sem ég hefi lagt hér fram.

Ég hefi ekki enn heyrt neinar frambærilegar ástæður fyrir því, að málið geti ekki tafizt þennan stutta tíma, því að það er fjarri því, sem hv. 3. landsk. sagði, að ef mþn. er skipuð í málinu, þá sé því þar með slegið á frest í eitt ár, af því að það eru aðeins 2–3 mán. þangað til hægt er að afgr. það frá Alþingi, ekki eins og nú með lítilli eða engri meðferð þingsins og slæmum undirbúningi, heldur með fyllsta undirbúningi, sem hægt er að krefjast.

Hv. 1. þm. N.-M. þarf ég engu að svara. Hann kom að nauðsynjalausu inn í umr. og var tekinn svo til bænar af hv. þm. Vestm., að ég þarf þar engu við að bæta.