20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

124. mál, alþýðutryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Hv. 3. landsk. var að tala um óvinsamlega gagnrýni, sem hefði komið fram hjá mér gagnvart alþýðutryggingunum. Ég veit ekki, hver hún er, og þætti vænt um, ef hann vildi benda á, í hverju hún liggur. Ennfremur sagði þessi hv. þm., að bæjarfélögin geti tryggt þau gamalmenni, sem þeim sýnist, vegna þess að þau geti komið inn í tryggingarnar. Það er nú svo. Bæjarfélögin geta það ekki, nema gamalmennin reynist tryggingarhæf, — og hvaða gamalmenni reynast tryggingarhæf? Ég hygg, að þau, sem helzt þurfa tryggingar með, reynist það ekki. Svo er ég ekki heldur viss um, að þótt maður haldi sér við þau gamalmenni, sem tryggingarhæf eru, að bæjarfélögin mundu halda þeim í tryggingu. A. m. k. bendir reynslan ekki í þá átt.

Þá sagði hv. þm., að iðgjaldagreiðslur hefðu verið þungur baggi fyrir gamalmennin, en honum væri hér með létt af. Það fer að verða skrítið, ef það eru hlunnindi að vera ekki í sjúkrasamlagi, og sérstaklega er það undarlegt, þegar um er að ræða gamalmenni, sem manna mest hafa hagsmuni af að vera tryggð í sjúkrasamlögum. Hversu vel gamalmennin hafa ráð á að vera tryggð, fer eftir því, hvað há ellilaunin eru, og við leggjum til, og samtök Alþfl. líka, að ellilaunin séu svo há, að sómasamlegt sé fyrir öll gamalmenni. Þá vill hv. þm. halda því fram, að með þessum l. sé engu breytt að því er snertir skyldur sjúkrasamlaga um greiðslur fyrir sjúkrahúsvist. Það, sem gert er, er þá það, að lögfesta þann skilning á l., að ef ekki næst samningur við sjúkrahús, þá beri sjúklingi að greiða mismuninn, í stað þess að fara þá leið, sem ég tel sjálfsagða, að öllum sjúklingum sé tryggð ókeypis sjúkrahúsvist. Hér er því áreiðanlega stigið spor aftur á bak.

Þá sagði hv. þm. um dagpeningagreiðslurnar, að samkv. frv. skyldi biðtíminn ekki vera lengri en ein vika, eins og fulltrúaráðið hefði samþ. að skyldi verða. Þetta er ekki rétt. Ákvæði frv. eru þau sömu og í núgildandi l., og þar stendur, að biðtíminn megi ekki vera skemmri en ein vika, og er því ekki um neina breyt. að ræða. Hér er algerlega farið öfugt að við það, sem fulltrúaráð verklýðsfélaganna ætlaðist til með sínum samþykktum. Ég sé því ekki annað en að þessi aths., sem hv. 3. landsk. gerði við mína ræðu, falli um sjálfa sig.

Þá spurði hv. 11. landsk., hvort það væri ekki meira í samræmi við okkar vilja að samþ. hina rökst. dagskrá. Ég þarf þar ekki annað en að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég tel, að þótt þessi n. væri skipuð einum manni úr þremur stærstu þingflokkunum til þess að undirbúa þetta mál undir næsta þing, þá mundi við það engin breyt. fást til bóta á l., nema jafnvel siður sé, þannig að ég sé enga ástæðu til að greiða atkv. með þeirri till.