21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

124. mál, alþýðutryggingar

*Magnús Jónsson:

Af því að ég bar hér fram á öndverðu þingi frv. um breyt. á þessum l., sem gekk í svipaða átt og 1. brtt. á þskj. 457, vildi ég aðeins segja um þá brtt. örfá orð, þ.e. viðvíkjandi þeim, sem hafa yfir 4500 kr. skattskyldar tekjur. Ég bar fram frv. um það, að sjúkratryggingarnar skyldu ná jafnt til allra, allir skyldu eiga við sömu kjör að búa og njóta sömu réttinda. Rökstuddi ég þetta með því, að þetta er það eina eðlilega í málinu, og sömuleiðis með því, að það er ekkert sjúkrasamlag til á landinu, sem ekki mundi standast fullkomlega, þó að þetta ákvæði væri haft. Með því að undanþiggja þá, sem hafa yfir 4500 kr. tekjur, er hafður í frammi óþarfa fjárdráttur handa sjúkrasamlögunum. Eina sjúkrasamlagið, sem þetta mundi muna nokkru, er sjúkrasamlagið í Reykjavík, því það er eini staðurinn, þar sem þessir menn eru svo margir, að þetta geti munað nokkru sem heitir. Ég hefi spurzt fyrir um það hjá sjúkrasamlagsstj. hér, hvort þetta gæti orðið skaðlegt fyrir sjúkrasamlögin, og fengið það svar, að það væri alveg óhætt að taka þessa menn inn í tryggingarnar án aukagjalds. Þetta er það eina eðlilega og er í fullu samræmi við aðrar tryggingar, t. d. líftryggingar, þar sem ekkert er farið eftir efnahag manna, heldur þeirri áhættu, sem tryggingarnar hafa af því að tryggja viðkomandi mann. Enda má benda á, að mjög verulegur hluti kostnaðarins er gersamlega greiddur af opinberu fé. Og þar kemur fram mismunurinn milli efnaðra manna og efnalausra, í því, hve mikinn skert þeir leggja til þess hluta fjárins. En tryggingarnar sjálfar eiga að vera á hreinum tryggingargrundvelli. Ég skal ganga inn á það, að þeir, sem hafa yfir 4500 kr. í tekjur, greiði hærra gjald, ef á annað borð á að hafa tryggingarnar á stighækkandi skattagrundvelli. Hitt nær ekki nokkurri átt, að hafa þetta svo sem það nú er í frv. Hv. 11. landsk. hefir fært fyrir þessu skýr rök. Það getur komið fyrir, að af tveimur mönnum, sem ekki munar nema um 100 kr. á í tekjum, verði annar að greiða helmingi hærra gjald. Fjöldi manna úr hópi þeirra, er greiða ættu þetta háa gjald, mundi ekki sjá sér hag í því að vera tryggðir. Mestar líkur eru til þess, að einhleypir, hraustir menn, eða menn, sem ekki hafa stóra fjölskyldu, færu út í þá óheilbrigðu stefnu, að vera ótryggðir, og treysta á heppni sína og hamingju. Það eru helzt líkindi til þess, að menn með stórar fjölskyldur — menn, sem eiga fyrir mörgum börnum að sjá, mundu verða í tryggingunum. Þetta er blettur á lögunum; það á að stefna að því, að allir taki þátt í tryggingunum.

Ég sé ekki betur en að brtt. hæstv. atvmrh. sé óþörf. — Hæstv. ráðh. sagði, að einn þm. í hv. Nd. hefði vakið máls á þessu í Nd., en því hefði þá enginn gaumur verið gefinn. Ég skil ekki í því, að ákvæði frv. þurfi að rekast á samningana við læknana, né að læknarnir þurfi nokkurs í að missa. Hér gæti í hæsta lagi verið um það að ræða, að sjúkrasamlögin yrðu að greiða læknunum að fullu fram að þeim tíma, sem samningarnir renna út. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera á móti till., en þykir hún óþörf.