21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

124. mál, alþýðutryggingar

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það er vitanlegt, að einkum tveir meginþættir sjúkrasamlagslaganna hafa orðið óvinsælir. Fyrst og fremst þetta, að tryggingarnar hafa ekki verið hreinar tryggingar, heldur líka skattur, sem lagður er á einstaklingana. Nú er aldrei lagður svo á nýr skattur, að hann verði ekki óvinsæll. Hitt atriðið, sem komið hefir samlögunum illa, er það, að ekki skyldu allir í upphafi vera skyldugir til að sýna læknisvottorð, er þeir gerðust meðlimir þeirra. Það hefir komið að því, sem hinn læknisfræðilegi ráðunautur samlagsins hefir alltaf haldið fram, að það væri ómögulegt fyrir samlögin að tryggja menn gegn sjúkdómum, sem þeir hafa gengið með áður en þeir gengu í samlögin. Mörg dæmi eru til þess, að menn, sem ganga með sjúkdóm, draga að láta gera við hann, þangað til þeir eru komnir í samlögin. Þetta sýnir sig m. a. í því, að útgjöld samlaganna urðu miklu meiri fyrsta mánuðinn, sem þau störfuðu, en síðar. Nú er svo ákveðið í frv. því, sem hér liggur fyrir, að til þess að gamalmenni, eldri en 67 ára, geti orðið tryggð, verði þau að hafa sýnt læknisvottorð um heilsu sína, — og menn, sem lengi hafa legið á sjúkrahúsum og haldnir eru langvarandi sjúkdómum, eiga ekki að geta fengið sig tryggða. Þetta eru sjálfsögð ákvæði, en þau hefði átt að setja þegar í upphafl. Nú verka þau þannig, að þau gera lögin enn óvinsælli. Ýmislegt í frv. þessu er til bóta, en ég hefði heldur séð, að það væri látið bíða næsta þings. Það skaðar ekki. Ef hæstv. ráðh. er hræddur um, að hann nái ekki samkomulagi við læknana vegna fjórðahlutans, sem þeir áður fengu greiddan af sjúklingunum, vil ég benda á, að hægt er að segja samningunum upp nú um áramótin, en það kemur ekki til greina fyrr en 1. júlí næstk., og gerir því ekkert til, þó að málið biði afgreiðslu til næsta þings hvað þetta áhrærir. Þá væri hægt að athuga málið betur, og sníða af frv. þá smiðagalla, sem fundizt hafa á því nú þegar.