21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

124. mál, alþýðutryggingar

*Jónas Jónsson:

Ég var að vísu að hugsa um að geyma mér til næstu umr. — eftir eitt ár eða svo — að tala um tryggingarnar, en mér finnst þó rétt, af því að tíminn, sem d. hefir haft til þess að athuga þetta mál, er í stytzta lagi, að taka það fram, að sumir þeirra, sem greitt hafa atkv. með því, og þar á meðal ég, eru engan veginn ánægðir með framkvæmd þessara laga og álítum, að heppilegra hefði verið að láta tryggingarnar vaxa hægar og með meiri undirbúningi og skilningi þess fólks, sem átti að gera gott og þegar hefir verið gert gott með þessum lögum. — Það má segja, að sú blessun, sem tryggingarnar veita, hafi komið mjög svipað eins og siðabótin. Við, sem nú lifum, álítum, að það hafi verið til bóta, er Kristján konungur III. neyddi menn til að kasta kaþólskri trú og taka þá trú, sem þeir ekki skildu, að væri betri heldur en sú gamla, heldur þvert á móti. Nokkuð svipað hefir farið með tryggingarnar, að allmiklum hluta af því fólki, sem tryggt er, finnst það verða miklu meira vart við óþægindin heldur en gagnið af tryggingunum.

Þetta vildi ég taka fram, ekki af því, að ég sjái eftir því, að þetta spor var stigið, heldur sem sönnun þess, að við, sem greiddum atkv. með frv. óbreyttu, erum undir það búnir, að lagfæra þurfi þetta frv. á hverju einasta ári í mörg ár. Það hefði kannske alltaf þurft með svona lög, en þess verður ennþá meiri þörf vegna þess, hvernig í pottinn er búið.

Ég ætla að segja hér eitt lítið dæmi, sem sýnir, hversu erfitt er að ná því fulla réttlæti, sem ætlazt er til, með tryggingunum. Hér í bænum er fátækur maður, sem er í þjónustu ríkisins. Hann er giftur heilsulítilli konu, sem oftast þarf að vera á spítala, og á eitthvað af börnum. Nú hitti hann mig, þegar verið var að ganga frá fjárl., og spurði, hvort ekki væri hugsanlegt, að hann gæti fengið einhverja bót á sínum launum, því að nú væri hann þannig settur, að konan ætti að fara á spítala upp á langa veru þar, en laun hans og aukatekjur væru nákvæmlega þannig, að hann tilheyrði ríku mönnunum, þ. e. a. s. þeim, sem hefðu of há laun til þess að fá tryggingu, en þyrftu samt sem áður að greiða til hennar skatt. Í stuttu máli, á þennan mann komu tryggingarnar, eins og þær voru, eins og stórkostlegt ólán. Það er að vísu leitazt við að bæta úr þessu, en það er engan veginn ennþá gert á þann rétta og eðlilega hátt. Þar er mikið eftir óunnið.

Annað atriði, sem menn finna ákaflega tilfinnanlega til hér í bænum, er hin óhæfilega borgun, sem læknastéttin tekur í sambandi við þessar tryggingar. — Það er nú vitað, að t. d. sá maður, sem mestum ljóma varpar á hinn íslenzka háskóla, að öðrum ólöstuðum, Sigurður Nordal, hefir í laun rétt um það, að hann sé ekki tryggingarskyldur, og það er engin leið til annars en að svona maður, þó að hann sé frægur málfræðingur, sagnfræðingur og andans maður, sé alltaf peningalaus. En í skjóli við tryggingarnar getur meðallæknir, sem svo að segja ekki er þekktur utan við sína götu og enga þýðingu nokkurn sinni hefir fyrir sitt land fram yfir heiðarlegan eyrarvinnumann og smábónda uppi til dala, komizt upp í 30 þús. kr. tekjur. Þetta fyrirkomulag er óhafandi í okkar þjóðskipulagi. Og hugsum til þess, að landið borgar óþekktum, hversdagslegum, þýðingarlausum þegn 30 þús. kr., en mundi búa þannig að Jónasi Hallgrímssyni, ef hann væri kominn aftur til okkar og hefði tekið við málinu eins og færeysku og gert það að því, sem það er nú, að hann mundi deyja úr hungri, því að slíkir menn eru ekki álitnir þurfa peninga með. –Og þó að ég greiði atkv. með frv., þá er það ekki af því, að e ekki álíti, að þetta þurfi lagfæringar með. Ég álít að tryggingarnar séu ekki sómasamlegar fyrr en komið er nokkurt hóf á það, hvernig læknum landsins er borgað. Það er ekkert, sem mælir með því, að þessir menn, sem hafa fengið ókeypis skólagöngu í menntaskólanum, fengið styrk í okkar fátæka háskóla og hjálp til þess að læra utanlands, geti mokað saman peningum í skjóli við þessi snöggsoðnu lög.

Ég álít rétt að fletta ofan af þessu, þó að það hafi engin áhrif á meðferð málsins, vegna þess að ekki er verið að hugsa um þessa hliðina á því, og það er ekki nema rétt, að þjóðin viti það, og það komi fram á Alþ., að það ranglæti og þau vansmíði, sem eru á framkvæmd laganna að þessu leyti, eru óhafandi og óþolandi og verða að standa til bóta.