21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

124. mál, alþýðutryggingar

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég vil segja örfá orð út af því, sem hv. 3. landsk. minntist á í sambandi við ummæli mín um, að það hefði gert þessi l. óvinsæl, að þau litu út eins og skattur fyrir suma menn. Ég ætla að gefa dálitla skýringu á því fyrst og fremst, að það voru ekki eingöngu þeir menn sjálfir, sem gátu ekki orðið aðnjótandi hlunninda sjúkrasamlaganna, sem voru óánægðir, heldur er mér kunnugt um, að það voru fjölmargir aðrir, sem gátu notið réttindanna; þeir fundu ranglætið í þessu engu síður en tekjumennirnir, og svo að ég víki að því, sem ég minntist á í sambandi við ellitryggingarl., — hvers vegna var þeirri breyt. komið inn í frv. í Nd., að bankamenn, sem hafa sína sjóði, séu undanþegnir greiðslu á ellistyrktargjaldi? Það var einmitt af því, að áður en þessi l. komu, var lagður á þessa menn skattur, og þeir áttu ekkert að bera úr býtum frá ellistyrktarsjóðnum, þegar þeir væru komnir á gamals aldur, vegna þess að þeir fengu svo mikið úr sínum eigin sjóði. Þess vegna koma þeir með þessa kröfu, að þeir þurfi ekki að borga nema í einn sjóð. Sama er að segja um hina, sem eiga meiri eignir heldur en þeir mega eftir þessum l., þegar þeir eru orðnir 67 ára gamlir. Það felst sama hugsunin í því. Þetta er bara skattur á þeim. Þetta er ranglæti í tryggingarlöggjöfinni, sem í sjálfu sér er góð og ég er sízt að hallmæla.

Svo vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði. Hann var að tala um ósvífni læknanna og fór yfirleitt hinum hrottalegustu orðum um læknastéttina í heild. Þetta er ekki ný bóla. Þó að hann geti talað sæmilega rólega um eitthvert mál, þá hleypur þessi ofsi í hann, ef minnzt er á læknastéttina, eins og. menn þekkja hér á þingi. Hv. þm. var að tala um þessar gríðarmiklu tekjur, sem læknarnir hefðu, og virtist mér hann halda því fram, að læknar hefðu yfirleitt um 30000 kr. tekjur og að þeir auðguðust af þessum samlögum. Hann sagði, að það væri ósvífni að láta hversdagslega, þýðingarlausa lækna hafa svo miklar tekjur. Nú er það vitanlegt, að þeir læknar, sem flest númer mega hafa í sjúkrasamlögunum, en það eru 1500 númer í Reykjavík, geta aldrei haft meira í fastatekjur heldur en 18000 kr., og það eru ekki nema örfáir menn, sem kynnu að hafa 12000 kr. aukatekjur í viðbót, og það er gefinn hlutur, sem hver heilbrigður maður hlýtur að skilja, að sá maður, sem hefir þetta háar tekjur í viðbót, er ekki hversdagslega þýðingarlaus læknir. Mér er nákvæmlega sama, hvað hv. þm. S.-Þ. segir um það. Það er einu sinni komið inn í hans merg og blóð að svívirða læknastéttina, eftir því sem hann getur, þó að hann sé guðs lifandi feginn, ef einhver læknir bætíst í hans pólitíska flokk, svo að ég tali nú ekki um, ef hann verður þm., því að þá er sá læknir auðvitað ágætur í alla staði, en samt sem áður er ekki hægt að komast hjá því, að um leið og hann svívirðir læknastéttina, þá verður þessi þingbróðir hans og flokksbróðir að taka við sínum bróðurparti af svívirðingunum. En svo að ég víki aftur að launum læknanna, þá er það vitanlegt, og það hlýtur hann að vita jafnt og aðrir, að það er fjöldi af sjúkrasamlagslæknum hér í Reykjavík, sem hafa mjög lágar tekjur, og meira að segja svo lágar, að þeir eru ekki yfir því lágmarki skattskyldra tekna, sem sjúkratryggingin setur þeim, sem njóta réttinda samlaganna. Það má segja um hvaða lækni sem er, að svo framarlega sem hann getur safnað að sér fjölda af sjúklingum, þá hljóti hann um leið að vera dugandi læknir í sinni stétt, og það hlýtur líka að vera keppikefli hverrar þjóðar að hafa sem flesta dugandi lækna innan sinna vébanda. Ef læknarnir væru hversdagslega þýðingarlausir menn, þá hlyti það þó að koma fram í því, að við værum verr búnir að ýmsu í heilbrigðismálum heldur en við erum nú, því að það er viðurkennt, að læknastéttin íslenzka stendur á háu stigi og hefir gert miklar kröfur einmitt til sjálfrar sín, og það er fjöldi lækna, sem hafa aukið hróður hennar bæði út á við og inn á við, þó að þessi hv. þm. segi, að þeir þekkist ekki fyrir utan landsteinana.

Ég skal ekki bera brigður á, að það sé í sjálfu sér óafsakanlegt, að ýmsir af andans mönnum okkar bera eins lítið úr býtum og þeir gera, eins og þessi maður, sem hv. þm. minntist á, en það er þá fátækt okkar að kenna. Mér þykir rétt að geta þess í þessu sambandi, að mér finnst það dálítið ósamræmi hjá hv. þm., sem hlýtur að hafa talsverð áhrif á núv. hæstv. stj., að vera að tala um þetta samtímis því, að tappatogarar í áfengisverzluninni, algerlega ómenntaðir menn, skuli hafa eins mikil laun og þessi andans maður, sem hv. þm. minntist á. Þetta vildi ég aðeins minna á og sýna fram á, að það er viðar ósamræmi í þessu efni en í því tilfelli, sem hv. þm. S.-Þ. drap á. Ef hv. þm. heldur, að hægt sé að kúga sjúklingana til þess að sækja ákveðinn lækni, sem þeir kæra sig ekki um að sækja, þá má hann vita, að þá fyrst verða sjúkrasamlögin að engu, því að engum dettur í hug að borga í samlögin, ef það á að neyða menn til að taka þá lækna, sem þessum hv. þm. líkar. Slíkan kúgunaranda álít ég ekki til frambúðar í þessu þjóðfélagi, a. m. k. ekki á meðan við lifum á þessari lýðræðisöld og meðan allir flokkar skreyta sig með lýðræðisnafni.