21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

124. mál, alþýðutryggingar

*Jónas Jónsson:

Hv. þm. Hafnf. hefir játað það, sem um var deilt. Hann hefir játað, hvílíkar feikna tekjur sumir læknar hafi upp úr alþýðutryggingunum, — upp úr þessu fátæka fólki, sem verður að hera uppi tryggingarnar með iðgjöldum sínum. Hann gat ekki neitað því að þetta væri bæði ranglátt og óskynsamlegt fyrir þjóðfélagið. Hann gat engu neitað af því, sem ég dró fram til að sýna vansmíðin á alþýðutryggingarlögunum. Og honum dettur náttúrlega ekki í hug með sjálfum sér, að hann muni nokkurn tíma verða annað en handverksmaður. Honum dettur ekki í hug, að hann sé skapaður til að verða nein hærri týpa eða fulltrúi fyrir menningu lands sína, — veit, að hann er þar fyrir neðan allan samanburð við mann eins og Sigurð Nordal. Hann er lægri týpa, og þó að launin verði hærri, lyftist hann ekkert.

Það má heyra, að skattaframtal hv. þm. hefir farið í taugarnar á honum. Ég minntist ekkert á skattskýrslurnar hjá þeim góða manni, heldur það, hvað hann hefði í tekjur, — a. m. k. ein 30 þús. Ég hefi alls ekki haldið því fram, að hann hafi dregið undan skattframtali vísvitandi. Ég heyri að hann trúir því sjálfur, að hann hafi talið hvern eyri fram. En maður verður að hugsa sér um svo fjölsóttan lækni, að það sé ekki alltaf næði til að hlaupa í bækurnar og skrifa hverja borgun, og enginn bókhaldari við þegar gömlu konurnar koma með aurana sína. Hv. þm. getur verið nokkuð lengi að afsanna, að hann hafi þessi 30 þús. Meira en þetta hefi ég aldrei sagt um tekjur þessa háttv. heiðursmanns.

Einmitt af því, að hann er svo mikill meðaltýpa, er gott að mæla gildi alþýðutrygginganna út frá honum. Sumt, sem hann sagði, sýndi líka, á hvaða skilningsstigi hann stendur í almennum málum. Það stafar líklega af tómri vanþekking, þegar hann talar t. d. um það, að læknar hafi gert eitthvað fyrir landsspítalann. Það var skylda þeirra að gera það. En einmitt maðurinn, sem hv. þm. nefndi, Guðmundur Hannesson, gerði meira til að hindra heppilega lausn málsins en að vinna að því í einingu við þá, sem hrundu því fram. Þegar það var lagt fyrir Alþingi 1923, tók íhaldsfl. því á sinn venjulega hátt og hafði alveg lagt það til hliðar, þegar við framsóknarmenn tókum að okkur að fylgja því fram til sigurs. Kannske hv. þm. gæti sagt, hvað „praktiserandi“ læknar í Reykjavík gerðu til að greiða fyrir landsspítalanum? Hvar eru gjafirnar frá læknunum, Hvar eru dagsverkin, sem þeir lögðu fram? Hvar er hægt að benda á nokkurn skapaðan hlut, sem þeir eiga sómann af í landspítalanum, — allt frá því, að plan Guðmundar Hannessonar frá 1923 var strandað? Það er ekki til neins fyrir þennan hv. þm, að komast á raupsaldurinn, hann hefir ekki af neinu að gorta. Ég skal vísa honum á þingtíðindin 1929–31 til að vita, hvað hann sér um háskólamálið þar. Hvað var það mikið, sem hann og hans líkar voru búnir að undirbúa það mál? Hvað höfðu þeir gert til þess, að háskólinn þyrfti ekki að búa líkast betlara í húsi annarar stofnunar? — Og þegar loks var búið að koma lögunum um háskólabygging gegnum þingið, þar sem Framsfl. hafði ráðin, þá kom það fyrir, að einn af þessum ágætu læknum, Niels Dungal, varð alveg veikur, þegar hann sá hina glæsilegu teikningu, hún samrýmdist ekki smæð hans, og hann gerði það heljarátak, sem hann gat, til að fá háskólann minnkaðan um helming og byggja hann annarsstaðar í bænum, þar sem litið bæri 4. Aðrir menn urðu til þess að bjarga málinu frá honum. Það voru aðrir, sem réðu, hver teiknaði húsið, og ráða því, að það verði þannig byggt, að sómi sé að.

Ég ætla bara að minna hv. þm. á, að þetta er nokkuð, sem hann skilur ekki og mun aldrei skilja. Það er utan við hans heim. Hans heimur er svið handverksmannsins, þar sem hann drottnar yfir meðulum og plástrum og nokkrum kringlóttum. Það er allt annað en heimur hinna stóru viðburða. Það er ekki til neins fyrir hann að koma nærri þeim, — hann hefir aldrei og mun aldrei koma nærri þeim. Hann hlýtur alltaf að standa við hliðina á þessum rólegu handverksmönnum, sem skynja ekkert af hinni miklu framtíð, — ekkert nema von um að nurla saman skildingum og heiðarlegu áliti til jarðarfararinnar og að í fylgd með þeim að gröfinni verði — kannske — fáeinir pípuhattar.