16.12.1937
Efri deild: 51. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Magnús Jónsson:

Ég á eina litla brtt. við þetta frv., ekki af því að það séu ekki fleiri af þessum föngum í þessu sameiginlega fangelsi, sem ég hefði viljað frelsa, ef það hefði verið hægt, heldur af því, að ég sé ekki, að það megi hagga við fleiri af þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru í þessu frv.

Þessi brtt. mín er um það, að 9. gr. frv. falli niður, en hún er um frestun á framkvæmd l. um læknishéraða- og prestakallasjóði. Þessir sjóðir voru stofnaðir með löggjöf hér á þingi árið 1933, og var það gert út frá þeirri forsendu, að þegar löggjafarvaldið hefir ákveðið, hvað það telji hæfilegt starfsmannahald fyrir ákveðna starfsgrein, og álítur, að rétt sé að verja til þess einhverri ákveðinni fjárhæð, þá er eðlilegt, að þeir menn, sem hafa áhuga á því, að þessi starfsgrein sé rækt sem bezt, vilji helzt sjá um, að sem fæst skörð séu í þetta starfsmannalið. En það er kunnugt, að það kemur alltaf fyrir, að eitthvað af embættum er óveitt af ýmsum ástæðum. Læknishéruðin eru oft óveitt í langan tíma, af því að það fæst enginn til að sækja um þau. Prestaköllin sömuleiðis. Og það hefir komið fyrir, að það hefir jafnvel ekki verið um svo marga menn að ræða eins og hefir þurft. En það er, eins og allir skilja, mjög mikill skaði fyrir þessar starfsgreinar að hafa ekki starfsmannaliðið fullskipað, og er ekki nema sjálfsagt, að löggjafarvaldið sjái til þess, að þetta skarð verði fyllt. Út af þessu hefir þessi löggjöf verið sett, og skal ég ekki fara neitt út í það, hvernig menn hugsa sér að bæta úr, ef einhverja starfsmenn vantar. En það er dálítið mismunandi með læknishéraðasjóði og prestakallasjóði. Kirkjuráði var ákveðinn ráðstöfunarréttur yfir því fé, sem rynni til prestakallasjóðs. Læknishéraðasjóður átti að renna til einstakra læknishéraða, til þess að gera þau tilgengilegri með því að byggja læknisbústaði, sjúkraskýli eða annað þess háttar. Sú ráðstöfun, sem gerð er með þessum l., getur því aðeins komið að gagni, að þetta fái að halda áfram. Þessu er eins varið og bókaútgáfu, sem kemur út í heftum, kannske í mörg ár, og vinnst bara fyrir það, að það er stöðugt áframhald.

Það hefir verið þarna um fjárhæð að ræða, sem ég hygg, að geti ekki varðað afkomu ríkissjóðs, þó ég skuli ekki gera lítið úr því, að margt smátt gerir eitt stórt. En það er ákaflega bagalegt fyrir þessar starfsgreinar, ef þetta tillag fellur niður um lengri tíma. Tökum t. d. prestakallasjóð. Það er í raun og veru vandræða ástand, að til ákveðins starfs sé fé veitt, sem svo allt í einu er kippt burt. Og kirkjuráðið hefir, síðan framkvæmd þessara l. var frestað, lent í fjárþröng með starfsemi sína, og að það hefir ekki orðið að hætta störfum, stafar af því, að fresturinn er ekki enn lengri en svo, að það hefir treint þessa aura, sem það hefir haft.

Ég vildi leggja til, að þessi l. yrðu leyst úr álögum aftur. Og það eru, eins og ég sagði áðan, fleiri liðir í þessu frv., sem ég og margir aðrir óskuðu eftir, að hægt væri að leysa úr þessari ánauð bandormsins, en ég hefi ekki viljað koma fram með till. um það, af því að ég viðurkenni fullkomlega þörf ríkissjóðs á því, ýmist að njóta tekna eða þurfa ekki að svara út fjárhæðum. En þetta mál er svo einfalt, að ég skal ekki tefja hv. þdm. með frekari ræðuhöldum.