16.12.1937
Efri deild: 51. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mig langaði bara til þess að fá frá hæstv. fjmrh. frekari útskýringar en komu fram í hans grg. á b. lið í 3. brtt. á þskj. 371 Þar er svo fyrir mælt, að falla skuli niður sú heimild, sem nú er í l. til að greiða vaxtastyrk af fasteignaveðslánum bænda, stofnlánum til frystihúsa o. s. frv., og skuli hún úr gildi felld fyrir árið 1938.

Nú er framkvæmdin á þessu sú, að menn, sem þessa dagana eru að borga vexti af fasteignaveðslánum sínum, t. d. í bankaútibúunum á Eskifirði, Seyðisfirði og Ísafirði, senda ekki þær bankakvittanir, sem þeir hafa fengið, hingað til Reykjavíkur fyrr en á árinu 1938, svo að úr ríkissjóði greiðist ekki styrkurinn fyrr en árið 1938, og það getur meira að segja verið trassað að senda þessar kvittanir fyrr en komið er langt fram á sumar 1938. Ég býst við, að hæstv. fjmrh. meini ekki, að þessi vaxtagreiðsla falli niður, þar sem hún átti að fara fram á árinu 1937, heldur þykist ég vita, að hann eigi við, að það falli niður vaxtatillagið af því, sem mönnum ber að greiða 1938. Mér finnst þetta varla nægilega ljóst í till., og ég býst við því, að ef ekkert kæmi fram í umr. um þetta, þá mundi það ekki æfinlega ganga umtölulaust að fá endurgreidda vexti, sem ætti að greiða 1937, og vildi ég nú biðja hæstv. ráðh. að skýra hv. þdm. frá því, hvort skilningur minn á þessu atriði er ekki réttur.