18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Magnús Jónsson:

Ég bar hér áður fram brtt. um það, að felldur yrði niður 9. liður þessa frv., þar sem ákveðið er að fresta framkvæmd l. um læknishéraða- og prestakallasjóði, en sú till. var felld. Ég hafði þá hugsað mér að bera fram brtt. um að takmarka mjög þá fjárhæð, sem varið yrði í þessu skyni, en af því að ég bjóst ekki við, að menn mundu fyrir svo smávægilega breyt. vilji hrekja frv. aftur til hinnar d., þá hefir það farizt fyrir hjá mér. En þegar brtt. er hvort sem er komin fram við frv., þá sé ég ekki ástæðu til að liggja á minni brtt. og hefi því skrifað hana og mun biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni. Hún er mjög einföld og þarf því ekki mikillar athugunar við, er sem sé á þá leið, að 9. liður frv. orðist þannig: „Á árinu 1938 skal ekki greiða samkv. l. nr. 98 19. júní 1933, um læknishéraða- og prestakallasjóði, hærri fjárhæð en 3 þús. kr. til hvors. — M. ö. o., að loku er fyrir það skotið, að þessi lög geti haft kostnað í för með sér, er nokkru varði fyrir afkomu ríkisbúskaparins. Það má búast við því, að ef þessi takmörkun væri ekki sett, þá rynnu nú 12–13 þús. kr. til prestakallasjóðs, þar sem mörg embætti eru óveitt í svipinn, og það eru lítil takmörk fyrir því, hvað þessi upphæð getur orðið, ef mjög mörg embætti eru óveitt, en ef svona þröngt mark er sett, þá er ómögulegt að bera því við, að þetta varði nokkru fyrir hag ríkissjóðs.

Mér þykir vænt um að hæstv. fjmrh. er kominn inn, því hann styður væntanlega þessa sanngjörnu till. mína. — Þó að þarna sé ekki um nema 3 þús. kr. að ræða, þá er það samt nóg til þess, að kirkjuráðið geti haldið áfram þeirri starfsemi, sem það hefir tekið upp.

Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta till. með þeim tilmælum, að hann leiti afbrigða fyrir henni.