18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég ætla að leyfa mér að bera fram enn eina brtt. við þetta frv., og hún hljóðar á þá leið, að 3. tölul. þess falli niður. Þar er um að ræða að fresta því ákvæði í lögunum um einkasölu á tóbaki, að tekjur einkasölunnar skuli renna til byggingar- og landnámssjóðs og til verkamannabústaða. Hér er því um afarmikið hagsmunamál að ræða, stórkostlegt atvinnuspursmál og þýðingarmikið að því er snertir híbýlakost bæði bænda og verkamanna. Þessi till. var flutt af flokksbróður mínum í Nd., og var þá þannig tekið undir þetta mál, að hv. 3. þm. Reykv. lýsti því yfir, að því er okkur skildist f. h. Alþfl., að þetta mál skyldi tekið til nánari athugunar og til nánari meðferðar í Ed. Ég hefi því verið að bíða eftir því að heyra eitthvað frá alþýðuflokksmönnum um þetta efni, og hefir nú hv. 9. landsk., form. flokksins, loksins látið uppi þá ósk, að þessi liður falli burt. — Ég sé því ekki ástæðu til annars en að taka nú aftur upp þessa till. og mun afhenda hana hæstv. forseta.