20.11.1937
Neðri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) :

Ég hefi ekki getað náð samkomulagi við meiri hl. n. um þær brtt., sem ég flutti við 2. umr. og prentaðar eru á þskj. 114. Ég gerði grein fyrir þeim till. þá og sé ekki ástæðu til að endurtaka þau rök, sem ég lagði til grundvallar flutningi þeirra, en vil aðeins til viðbótar því, sem ég þá sagði, láta falla nokkur orð til frekari skýringar þeirri till., sem ég lagði mesta áherzlu á, en það var brtt. 2.a við 2. gr. Ég gat um það við 2. umr., að ég væri andvígur þeirri tilfærslu valdsins yfir í hendur fjmrh., sem ætlazt er til, að gert verði með 2. gr. frv. Ég gat um það, að í því af nágrannalöndunum, sem valdið er mest í þessum efnum, þá væri það þar miklu minna en ætlazt er til að það verði samkv. þessu frv. Þetta var að einhverju leyti vefengt af hálfu frsm. meiri hl., þm. V.-Húnv. En ég hygg, að röksemdir hans, sérstaklega hvað snertir tilvitnun hans í danskt blað þessu viðvíkjandi, hafi verið á misskilningi byggt, og hefi ég bent á þetta í umr. um þetta mál í fjhn. Mér þykir rétt að upplýsa það, að einmitt nú um þessar mundir eru Danir að breyta sinni löggjöf um þetta í þá átt að minnka vald ráðh. um þessi efni. Mér þykir þess vegna skjóta skökku við, að þegar nágrannalönd okkar eru að slaka til í þessum efnum, þá skuli hér vera verið að herða á. Ég skal skýra frá því hér, af því að ég held, að það mundi fáum hv. þm. kunnugt, að í Danmörku hefir það verið svo, að vissar vörutegundir hafa þar verið á sérstökum lista, og um þær vörur hafa gilt þau ákvæði, að heimilt væri að flytja þær inn án þess að hafa til þess nokkurt leyfi eða um það að spyrja. Á þessum lista hefir verið vörumagn að andvirði um 80 millj. kr. á ári fram til þessa, en nú er verið að gera þær breyt. á, að í stað þessara 80 millj. kr., sem hafa staðið á þessum lista, eiga framvegis að standa á honum vörur fyrir a. m. k. 460 millj., en sennilega verður það vörumagn, sem nemur um 610 millj. kr. Það vörumagn, sem frjáls innflutningur er leyfður á í Danmörku, verður því, eftir að þessar breyt. hafa verið gerðar, framt að því sexfaldað, og sennilega þó áttfaldað. Þar við bætist svo, að á öðrum lista, þar sem eru vörur, sem er leyfður innflutningur á með mjög frjálsum takmörkunum, eru vörur fyrir 700 millj. kr., en vörur, sem verulegar takmarkanir hvíla á, eru að innflutningsandvirði ekki nema 300 millj. kr. Þannig eru nú gjaldeyrishömlurnar í því landi, sem hefir markað sér þrengstar skorður um frjálsræði til innflutnings. Með þessu móti hafa Danir treyst sér að fullnægja þrennskonar tilliti, sem þeir vilja hafa í þessum efnum. Í fyrsta lagi tillit til þess gjaldeyris, sem þeir hafa, í öðru lagi tillit til þess, af hvaða þjóðum þeir verða að kaupa sínar vörur, og í þriðja lagi til iðnaðar og annara atvinnuþega. Ég vildi aðeins bæta þessu við þau rök, sem ég bar fram við 2. umr., en skal að öðru leyti ekki þreyta menn með að endurtaka það, sem ég sagði, enda tel ég það óþarft.