20.11.1937
Neðri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Einar Olgeirsson:

Munurinn, sem mér virðist vera á þessum tveimur aðferðum, er sá, að ef útgerðarmenn fengju sjálfir yfirráð yfir gjaldeyrinum án þess að gjaldeyrisnefnd hefði þar neitt með að gera, þá er hættan á fjárflótta út úr landinu miklu meiri. En ef útgerðarmenn afhentu sinn gjaldeyri og fengju síðan sín gjaldeyrisleyfi til kaupa á útgerðarvörum, þá mundi þessi möguleiki vera útilokaður. Það er a þessum ástæðum, sem ég álít sjálfsagt, að síðari leiðin sé farin. Nú hafa 2 hv. samflokksmenn hv. þm. G.-K. lagt fram brtt. við þáltill., sem þeir bera sjálfir fram, og þar er tekið fram í 4. brtt., að framvegis verði engin leyfi veitt til einstaklinga, sem engan verzlunarrekstur hafa. Ef þetta ákvæði næði fram að ganga, þá mundi það náttúrlega tákna það, að smáútgerðarmennirnir mundu verða útilokaðir gersamlega frá því að geta notað sinn gjaldeyri því að þeir hafa engan verzlunarrekstur. Ég vildi taka þetta fram til þess að koma í veg fyrir misskilning. Mér finnst kenna mótsagnar í framkomu sjálfstæðismanna í þessu máli.