04.12.1937
Efri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. við 1. gr. frv. Er hún shlj. brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. og gengur út á að fella niður síðustu málsgr. 1. gr. En áður en ég geri þessa till. að umtalsefni, vil ég lítillega minnast á brtt. hæstv. fjmrh. á þskj. 223. Við meðferð þessa máls í Nd. var tekin í frv. heimild fyrir útvegsmenn til að fá að nota sjálfir gjaldeyri sinn fyrir vörur handa útgerðinni. Þessu hefir áður verið hreyft á þingi og hefir haft allmikið fylgi, þó að ekki hafi það orðið að l. Nú er það komið inn í þetta frv., en hæstv. fjmrh. vill kippa því þaðan á burt. Að vísu er slík heimild til handa útgerðarmönnum ekki alveg vandkvæðalaus, en hinsvegar er þetta svo mikil sanngirniskrafa, að þótt nokkurt eftirlit þyrfti að hafa með því af hálfu hins opinbera, þá tel ég það engan veginn ókleift, og eiga útgerðarmenn það skilið, að ríkisvaldið leggi á sig þetta litla ómak til að gera þeim þessa réttarbót.

Annars er það einkennilegt, að till. um, að útgerðarmenn fái nokkru hægari aðstöðu um notkun gjaldeyris, skuli alltaf mæta andstöðu hæstv. ráðh. Þetta er því einkennilegra, sem vitað er að eitt stórt atvinnurekstrarfyrirtæki, S. Í. S., hefir óskoraðan umráðarétt yfir öllum þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir vörur þær, er það flytur út fyrir sína félagsmenn. Ég geri þó ráð fyrir, að S. Í. S. verði að sækja um innflutningsleyfi fyrir þær vörur, er það flytur inn. Hvort því gengur greiðara en öðrum að fá þessi leyfi, um það get ég ekki dæmt, en um þetta fer ýmsum sögum. En hér er stór aðili, sem ekki þarf að standa reikningsskil af gjaldeyri, er hann fær fyrir útfluttar vörur. Þegar á þetta er litið, verða mótbárur hæstv. ráðh. harla léttvægar. Hvað mætti ekki segja um það leyfi, sem S. Í. S. hefir fengið til að ráðstafa sínum gjaldeyri, að það bryti niður þessar gjaldeyrisráðstafanir hæstv. ráðh., ef þetta á að vera svo mikið niðurbrot í þessum efnum? Nei, hæstv. ráðh. sættir sig við þá tilhugsun og raunar berst fyrir. henni —, að hér sé gert upp á milli tveggja aðilja í landinu, að aðrir séu settir skör lægra, en hinir þrepi hærra. Og þetta álít ég stórum átöluvert, að hæstv. ráðh. vili stilla þannig til, að setja útvegsmenn svo miklu lægra, að þeir megi yfir engum sínum gjaldeyri ráða frjálst, en hinn aðiljinn, sem aðallega hefir landbúnaðarvörur til umráða, ráði algerlega yfir sínum gjaldeyri. Nú er það vitað, að það eru ekki einungis landbúnaðarafurðir, sem Sambandið flytur út, því það hefir sótzt eftir að ná í sjávarafurðir og flytja þær út jafnframt. Og þetta er skiljanlegt og eðlilegt og á engan máta átöluvert fyrir stofnunina, þegar sér í lagi þannig er ástatt, að sá gjaldeyrir, sem hún getur aflað, er henni algerlega frjáls til meðferðar.

Hv. 1. landsk. er hér með viðaukatill., þess efnis, að hann vill láta allan gjaldeyri útgerðarmannanna vera undir „kontrol“ bankanna, en gera þeim skylt að láta af hendi gjaldeyri til útgerðarmanna eftir þeirra þörfum. Ég álít, að það sé betra af illu tvennu, að láta frv. vera óbreytt í þeirri mynd, sem það er, heldur en taka þann kostinn að fylgja till. hv. 1. landsk., ef till. hæstv. ráðh. yrði samþ. En ég fæ ekki skilið, hvernig hæstv. ráðh. ætlar að halda áfram þessum hugsanagangi í gjaldeyrismálum, að traðka ávallt á útveginum. Ég get bent hæstv. ráðh. á það, þó að hann segi hér, sem ég efast ekki um að sé satt, að bankarnir telji sig leggja sig mjög í líma með að láta gjaldeyri til útgerðarmanna, þá er svo langt frá því, að þeir fái gjaldeyri fyrir sínum nauðþurftum. Það standa á útgerðarmönnum ýmsir víxlar, sem þeir eiga að greiða í erlendri valútu, en ómögulegt er að greiða, vegna þess að það vantar gjaldeyri.

Fyrir nokkru átti ég tal við mann, sem útvegar segldúka. Sagði hann, að það þýddi ekki fyrir mig að panta, því í seinni tíð hefði verzlunin, sem lagði til dúkana, tjáð sér, að hún afgreiddi þá ekki lengur upp á þetta. Í gær barst mér bréf frá skipasmiðastöð Vestmannaeyja, þar sem kvartað er yfir hinu sama. Skal ég aðeins láta hv. þdm. heyra, hvernig þetta lítur út með sjávarútveginn. Í bréfinu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástandið er í stuttu máli það, að ég á nú tvo víxla, samtals kr. 3356,86 danskar, báða innifrosna, þótt ég hafi gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir báðum. Þessir víxlar eru frá trjáviðarsambandi mínu í Kaupmannahöfn. Hefi ég pantað nokkuð af eikarefnivið, sérstaka tegund, sem mér er bráðnauðsynlegt að fá en verzlunarsamband mitt neitar algerlega að afgr. nokkra viðbótarpöntun fyrr en yfirfærð er sú upphæð, sem hér er minnzt á. Fáist þessu ekki kippt í lag tafarlaust, stöðvast viðgerð fleiri báta, en þeir eru enn margir, sem þurfa og verða að fá meiri og minni viðgerð fyrir komandi vertíð. Liggur í augum uppi, hvílík vandræði hljótast út af slíkri stöðvun.

Sama ástandið viðvíkjandi járnvörusambandi mínu í Noregi. Eru hér innifrosnar kr. 2300,00 norskar, fyrir vörur, sem ég hefi fengið frá því firma, þótt einnig sé fyrirliggjandi gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir þessari upphæð. Neitar einnig viðkomandi firma að afgreiða meira, fyrr en þessi upphæð er yfirfærð.

Ástandinu, eins og því er lýst hér að framan, er svona varið. Og verði þessum sökum ekki kippt í lag án frekari tafa, horfir hér til vandræða í þessum efnum“.

Ég gæti bent hv. þdm. og hæstv. ráðh. á mörg fleiri dæmi um það, að það er ekki að ófyrirsynju farið fram á, að útgerðarmenn fái að ráða yfir svo miklu af sínum gjaldeyri, að nægi fyrir hinum helztu nauðþurftum þeirra. Þessi dæmi eru langtum fleiri, en ég vil ekki þreyta hv. þdm. á því að vísa til þeirra. Það þarf ekki annað, að því er snertir þá menn, sem koma nálægt atvinnuvegunum núna, en þeir fari í sjálfs sín barm, því allir, sem fást við viðskipti, hafa sömu söguna að segja, allt er stopp með að afla efnis til þessarar framleiðslu. Við erum komnir í óálit og ónáð hjá þeim, sem hafa selt okkur vörur, fyrir það, að þeir víxlar, sem liggja í bönkunum og við eigum að greiða, fást ekki yfirfærðir, þótt við greiðum þá í íslenzkum peningum. Og í ofanálag er hægt að benda á dæmi til þess, að bankarnir hafi leyft sér að skrifa út, þegar yfirfærsluvandræði hafa verið fyrir höndum, að viðkomandi menn hafi ekki getað staðið við innlausn. Þannig er nú búið að þessum málum. Og útvegsmenn eru yfirleitt algerlega ráðþrota með afkomuna. Og hæstv. ráðh. mun hafa fengið síðustu dagana gögn í hendur, sem sýna og sanna út af fyrir sig, að útgerðin hefir unnið með stórtapi síðustu 6 árin, og er eiginlega ekki líf hugað með sama áframhaldi, m. a. vegna þess, að hæstv. ráðh., sem hefir tekið sér einræðisvald yfir gjaldeyrinum, lætur það viðgangast og lýsir blessun sinni yfir því, að gjaldeyririnn sé tekinn af útvegsmönnum fyrir lægra verð en rétt er og fenginn í hendur ýmsum öðrum þegnum þjóðfélagsins, sem hafa hæga aðstöðu til að græða — og í sumum tilfellum græða stórfé — á þessum sama gjaldeyri, sem tekinn hefir verið af fátækum útvegsmönnum.

Ég vil nú spyrja þennan hæstv. ráðh., sem setur fyrir sig þá fyrirhöfn, sem það yrði fyrir stjórnarvöldin að hafa eftirlit með því, að útvegsmenn notuðu ekki of mikið sinn gjaldeyri fyrir útgerðarvörur, hvort honum finnist ekki tími til kominn að gegna þeirri kröfu útgerðarmanna, að þeir hafi sinn gjaldeyri frjálsan. Það virðist ekki liggja annað nær hér í þessu landi fyrir útgerðarmenn, þegar í fyrsta lagi bankarnir reynast ekki megnugir þess að hjálpa með útlenda valútu, þó menn hafi leyfi, og í öðru lagi, að ráðh., sem fer með þessi mál, sýnir ekki meiri sanngirni en svo, að hann setur fyrir sig dálitla fyrirhöfn fyrir bankana við framkvæmdina á því, að útvegsmenn fengju að nota einhvern part af sínum gjaldeyri, en krefjast þess, að þeir hafi sinn gjaldeyri allan frjálsan. Og ekki síður er þessi krafa studd með aðgerðum hæstv. ráðh. sjálfs, þegar það er vitað, að hann leyfir einu stærsta útflutningsfyrirtæki í landinu að fara að miklu leyti frjálst með sinn gjaldeyri.

Það er enginn að halda því fram, að útvegsmenn þyrftu ekki eftir sem áður að fá innflutningsleyfi fyrir sinum vörum, þó að þeir hefðu frjálsan gjaldeyri til að borga þær með. Það yrði það sama uppi á teningnum og er hjá S. Í. S. Það þarf vitaskuld innflutningsleyfi fyrir vörum sínum, þó að það sé svo stórmiklu betur sett en aðrir, sem vörur flytja inn í landið, að hafa frjálsan gjaldeyri. Og allir vita, sem fengizt hafa við verzlun, — og ég geri ráð fyrir hinir líka —, að það er mikill munur á því að geta boðið þeim, sem maður kaupir af, frjálsan gjaldeyri í borgun þegar í stað, og eins og nú er, að eiga það undir ásjá komið, hvort yfir höfuð gjaldeyrir fæst fyrir vörurnar, eða þá að það dragist von úr viti, að hann sé greiddur, þannig að það komist langt fram yfir gjalddaga á þeim víxlum, sem varan er seld fyrir. Ef útvegurinn fengi að ráða yfir þeim gjaldeyri, sem hann þarf á að halda til sinna nauðþurfta, yrði aðstaðan stórum bætt frá því, sem nú er. En þetta vill hæstv. ráðh. hreint ekki gera. Hann vill horfa upp á það, í fyrsta lagi, að einn stærsti útflutningsaðilinn í landinu fari frjálst með sinn gjaldeyri, og hinsvegar, að allir útgerðarmenn séu ekki einungis skyldaðir til að láta allan sinn gjaldeyri af hendi við bankana, langt fyrir neðan sannvirði, heldur séu gerðir að vanskilamönnum og standi þannig höllum fæti og geti ekki fengið þær vörur, sem útgerðin þarf, heldur en ganga inn á, að þeir fái leyfi samkv. l., til að nota part af sínum gjaldeyri fyrir sínum eigin nauðþurftum. Það er heldur ömurleg mynd af réttlætiskennd hæstv. ráðh., sem sést í öllu þessu samandregnu.

Ég vil nú mælast til þess, að hæstv. ráðh. endurskoðaði aðstöðu sína til þessa máls. Og ég vona, að hv. dm., — og þá ekki síður þeir, sem njóta þeirra kjara, að mega fara frjálst með sinn gjaldeyri, — fallist á þessa sanngjörnu till., sem kom inn í frv. í Nd., og láti þessa heimild standa óbreytta. Það er sannarlega ekki of mikið gert fyrir sjávarútveginn, þó að þetta fái að lafa í frv.

Þá hefi ég flutt sjálfur till. um það, að fella niður síðustu málsgr. 1. gr. Þar er þessi heimild, sem talað var um hér á fundinum í gær, fyrir ríkisstj. til að ákveða með reglugerð, að allir, sem ferðast til útlanda, þurfi sérstakt skírteini frá gjaldeyrisnefnd og eigi að mæta fyrir lögreglustjóra o. s. frv.

Hv. 1. þm. Reykv. lýsti alveg skýrlega, hverskonar atferli gagnvart borgurum þjóðfélagsins hér væri á ferðinni. Ég held, að það sé gengið svo nálægt persónufrelsi manna og farfrelsi, að þess séu engin dæmi neinstaðar hjá nokkurri þjóð, að þannig séu lagðar hömlur á frjálsa menn, eins og hér er ætlazt til, að ríkisstj. hafi heimild til að gera. Við vitum, að í öllum löndum eru nægileg höft á farfrelsi manna, að þeir, sem hafa gert eitthvað fyrir sér, eru ekki frjálsir ferða sinna úr landi. Undir sérstökum kringumstæðum, t. d. í ófriði, getur það einnig komið fyrir, að mönnum sé bannað að fara úr landi. En þó er það sannast að segja, að á ófriðartímum er ferðast inn í löndin og út úr þeim því nær eins og á friðartímum. En það, sem hæstv. ráðh. er hér að mæla með, er þá þetta, að menn sem eiga að heita frjálsir ferða sinna, í þjóðfélagi, sem á að heita síðað, megi ekki selja manni farmiða, nema hann hafi uppáskrift fyrir því, að hann sé frjáls ferða sinna úr landi. Þetta eru þau einstökustu siðmenningarleysisákvæði gagnvart frjálsum borgurum, sem hægt er að láta sér detta í hug. Fyrir utan allan kjánaskapinn í þessu, þá verður þetta ekki til neins annars en þess, að verka á svipaðan hátt og sum ákvæði áfengislaganna gerðu á sinum tíma, koma af stað allskonar yfirhylmingum og undanskotum í þessu efni, sem öllum mönnum hlýtur að vera ógeðfellt að hafa um hönd; fyrir utan það, að þetta ákvæði gefur auðvitað þeim mönnum vopn í hönd, sem vilja hindra Pétur eða Pál í því að komast áfram á einn eða annan hátt.

Maður veit, að gjaldeyrisnefnd hefir oft verið borið það á brýn — og ég hygg nokkuð oft með réttu —, að hún gerði sér talsverðan mannamun við afgreiðslu innflutningsleyfa fyrir vörur. Ég held, að þetta gæti alveg orðið eins að því er snertir útflutningsleyfi á borgurum landsins. Það gæti orðið misfljót afgreiðslan á þeim beiðnum, sem sendar væru til gjaldeyrisnefndar, hjá þeim, sem annars þyrftu eða ætluðu að ferðast.

Þegar hæstv. ráðh. var að tala fyrir þessu, þá vitnaði hann í það, að bankaráð Landsbankans hefði beðið um, að þetta yrði gert, og mér skildist, að hann væri að flytja þess erindi. Mér er í sjálfu sér sama, hvort þessi hugsun er runnin undan rifjum bankaráðsins eða ráðh. sjálfs; hún er jafnógeðfelld fyrir því. Og þeir góðu herrar, stj. og bankaráðið, mega alls ekki ætla, að allir menn, sem þurfa eða vilja fara til útlanda, fari með ófrjálsan gjaldeyri, ef þeir fá ekki gjaldeyrisleyfi hjá n. Það eru svo ákaflega margir möguleikar á því, að menn geti lifað nokkrar vikur erlendis, án þess að þurfa endilega á íslenzkum gjaldeyri að halda. Og það er hin mesta vitleysa, að allir, sem ekki fá leyfi, þurfi endilega að smygla út íslenzkum seðlum eða gera eitthvað ólöglegt. (Fjmrh.: Því þá ekki að gera grein fyrir því?). Þeir munu sannarlega gera grein fyrir því, þegar þeir verða yfirheyrðir fyrir rétti, og eiga þeir það þá undir geðþótta yfirvaldanna komið, hvað þau taka mikið tillit til þeirrar greinargerðar. En mig uggir, að allþröngt muni verða fyrir dyrum hjá sumum mönnum, sem þurfa út að fara, ef þeir eru ekki í náðinni hjá gjaldeyrisnefnd og lögreglustjóra.

Hitt, að koma í veg fyrir, að menn fari með seðla úr landinu, ætti tollgæzlu landsins að vera auðvelt að framkvæma, enda er það gert annarsstaðar að sporna þannig við því, að menn flytji með sér fé úr landi. En í þeim sömu löndum, þar sem eftirlitið er strangast með þessu, þar dettur engum í hug að meina Pétri eða Páli að kaupa sér farseðil. Það hefir hvergi bólað á till. í þá átt, nema hér á Alþingi. Þessi till. kom fram, að því er mig minnir, á næstsíðasta þingi í Nd., og þá, að því er ég hygg, að undirlagi hæstv. fjmrh. Hún var felld. Þingið kunni ekki við að fara að stíga það spor aftur á bak, hvað snertir menningu, að leggja þessar hömlur á menn, sem þó eru frjálsir ferða sinna að öðru leyti. Ég álít, að svona ákvæði, verði þau lögfest, séu blettur, ekki einungis á löggjafarvaldinu, heldur á landinu. Það er settur skrælingjastimpill á þjóðina, þegar á að lögleiða það, að frjáls maður þurfi að fá sérstakt skírteini og mæti fyrir lögreglustjóra, áður en hann má kaupa farseðil út úr landinu. En það er þetta, sem hæstv. ráðh. er svo trúaður á, að muni bjarga gjaldeyrisástandi landsins.

Það er ekki furða, þótt talað sé um einræði og einræðisráðstafanir og þær fordæmdar í flokksblöðum þeirra manna, sem standa að slíkri till: og hér er um að ræða. Ég veit ekki, hvernig er hægt að ganga nær borgurunum á óviðkunnanlegan hátt heldur en gera þá þannig alveg ófrjálsa ferða sinna.

Annars veit ég, að það eru vissir þröngsýnir menn í þessu landi. Ég er þar ekki beinlínis að tala um hæstv. fjmrh., ég skal gefa honum „benefit of the doubt“, eins og Englendingar orða það. En það er viss þröngsýnisklíka hér á landi, sem er sí og æ að sýta yfir því, hvað margir sigli. Ég hefi heyrt þetta bæði í landi og líka á skipum, frá mönnum, sem einnig voru að sigla, en litu hornauga til sinna samferðamanna og töldu, að þeim væri engin þörf á þessu. Þessu er einkanlega beint til hinnar yngri kynslóðar. Það er talað um, að það sé óþarfi fyrir þessa stráka og þessar stelpur, eins og það er kallað, að vera að sigla til útlanda. Þó að það þurfi einhvern gjaldeyri handa þessu fólki, þá er engin vanþörf á því fyrir Íslendinga að víkka sinn sjóndeildarhring, því einangrunin er í alveg fullum mæli, þó ekki séu gerðar sérstakar lagaráðstafanir til þess að kyrrsetja þá menn hér heima, sem vilja leita út, og kæfa þannig útþrána hjá hinni uppvaxandi kynslóð, svo að ég tali um þá menn, sem sigla annaðhvort til þess að mennta sig eða kynna sér eitthvað, en ekki í beinum viðskipta- eða verzlunarerindum. Þessi þröngsýni hefir þó nokkuð gert vart við sig, þó ekki hafi verið skrifað mikið um hana í blöðin, en hennar hefir orðið vart á ýmsum sviðum, svo ég efast ekki um að fleiri en ég hafi heyrt þennan són. En mér er þetta persónulega andstætt. Ég álít, að við eigum ekki að draga úr því eða hefta það, að fólk kynni sér og sjái aðrar þjóðir, því einmitt kynni af öðrum þjóðum og það að sjá með eigin augum framfarir á ýmsum verklegum sviðum vekur hugsun hjá öllum þorra manna fyrir því að koma þessum framförum á í sínu eigin landi. Ég geri ráð fyrir, að það muni vera svo um flesta Íslendinga, sem ferðast um útlönd, að þegar þeir sjá eitthvað, sem þeim þykir sérstaklega merkilegt, þá verður það þeirra fyrsta kennd, að þeir óski þess, að það væri komið í þeirra heimkynni og föðurland. Það vaknar með öðrum orðum ástin til þeirra eigin lands, og hún verður þá jafnan sterkari en hún er hér heima. Þess vegna er það mjög misráðið, og það verður áreiðanlega ekki til þess að bjarga ættjörðinni, og ekki heldur gjaldeyrisvandræðunum, að leggja stein í götu þess fólks, sem þarf eða vill leita til útlanda. Það er stór hópur manna, sem af ýmsum ástæðum, heilbrigðislegum eða atvinnulegum, þarf nauðsynlega að fara í þessar ferðir. Þessa menn á nú að leiða fyrir dómarann og þeir eiga að setjast undir yfirheyrslu, hjá lögreglunni, áður en þeir fá að kaupa farseðil til útlanda.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta að sinni. Ég býst við, að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því, á hvern hátt hann ætlar að greiða úr fyrir sjávarútveginum, þar sem hann leggst á móti þessari litlu viðleitni til þess að hjálpa útvegsmönnum, sem er falin í því ákvæði frv., að útvegsmenn megi ráða sjálfir yfir nægum gjaldeyri til þess að kaupa til sjálfrar framleiðslunnar. Eg skora á hæstv. ráðh. að skýra frá því í heyranda hljóði, á hvern hátt hann getur réttlætt þá hlutdrægni, sem á sér stað að því er snertir meðferð á gjaldeyrinum, og hvernig hann hugsar sér, að útvegsmenn geti unað við þessa meðferð til lengdar.