15.10.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

Röð landskjörinna þingmanna

forseti (JBald) :

Gerðabók þingsetningarfundar hefir enn ekki verið samþ., og ástæðan til þess, að hún hefir ekki verið borin upp, er sú, að nokkur óvissa var á um röð landskjörinna alþm. Á hinum prentaða atkvæðalista, sem notaður var á þingsetningarfundi, var Eiríki Einarssyni raðað í sæti 5. landsk., en önnur venja hefir verið um þetta áður. Meðan konungkjörnir þm. voru, var það regla, að ef einn þeirra féll frá, þá var nefndur þm. í hans stað, sem varð þá síðastur í röðinni af þeim konungkjörnu þm. Þegar landskjörið hófst eftir 1916, þá var sama regla látin gilda, að varamaður tók jafnan sæti síðastur í röð landskjörinna þm. Hinsvegar má færa það . sem rök fyrir því, að varamaður verði þar í röð, sem aðalmaður var, að það valdi minni ruglingi á atkvæðalista og á þingfundi. Nú þarf úr þessu að skera. Þetta skiptir ekki miklu máli fyrir þm., en ég hefi ekki viljað fella úrskurð um þetta, vegna þess að ég er aftar í röðinni en 5. landsk., og svo er einnig ástatt um 1. varaforseta Sþ., en hinsvegar sé ég, að 2. varaforseti er ekki viðstaddur. Ég mun því bera það undir Alþingi, hvor reglan eigi að gilda. Ég lít svo á, að um þetta þurfi eigi umr., nema menn vilji ræða þingsköp í þessu sambandi. Ég ber það þá undir atkv., hvort varamaður skuli talinn síðastur eins og áður hefir verið.