04.12.1937
Efri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. á þskj. 253, og ég hefi heyrt, að hv. þdm. eru forvitnir eftir að vita, hvað í henni felst, og kem ég nú að því. Það er vitnað í l. nr. 41 19. maí 1930, og 19. gr. þeirra l. Ég vil þá, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessa gr. Hún hljóðar svo:

„Greiðslu á kaupi getur skipverji einungis krafizt, þegar skipið er í höfn, og aðeins einu sinni á viku.

Kaupið greiðist í peningum, hafi skipverji ekki óskað að fá það greitt með ávísun á útgerðina. Greiðslu má krefjast í mynt þeirri, sem gjaldgeng er á greiðslustaðnum, með því gengi, sem bankar þar þá greiða fyrir mynt þá, sem kaupið er talið í í samningnum.

Ef íslenzkur skipverji, sem staddur er erlendis, óskar að senda kaup sitt heim til Íslands, eru íslenzkir ræðismenn skyldir að veita honum aðstoð til þess ókeypis. Ríkissjóður ábyrgist peningasendingar þessar. Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið setur nánari reglur um peningasendingar skipverja.“

En eins og nú er ástatt um okkar gjaldeyrismál, þá hefir viljað verða nokkur misbrestur á, að þessu ákvæði siglingalaganna væri fylgt. Ég skal játa, að í frv. eins og það liggur fyrir er ekki veruleg orðabreyt. í 2. gr. En andi frv. eins og það liggur fyrir er sá, að herða mjög á leyfum um gjaldeyri. Það má því búast við, að upphafin verði eidri ákvæði í sjómannal., ef frv. verður samþ. Þrátt fyrir þetta orðalag hefir fengizt nokkur gjaldeyrir, en mér er kunnugt um, að allmargir útgerðarmenn hafa borið fyrir sig sem vörn í því að láta þennan gjaldeyri af hendi, að gjaldeyrisn. þurfi að leyfa það, og það er ekki lengra síðan en í gær, að slíkt dæmi barst mér í hendur, að skipshöfn, sem var að fara til útlanda, hefði viljað fá meiri gjaldeyri en útgerðin hefði viljað heimila henni, og viðkomandi útgerðarmaður sagði, að gjaldeyrisn. mundi ekki leyfa meira. Ég vil því fá úr skorið, hvort upphefja eigi 19. gr. sjómannalaganna með þessum nýju gjaldeyrislögum.

Ég skal bæta því við, að að svo miklu leyti sem ég þekki til, — og ég hefi reynt að kynna mér l. og reglur, sem gilda um þetta í Evrópuríkjunum, og enda víðar —, þá veit ég engin dæmi hliðstæð þessu, að réttur sjómannanna sé að þessu leyti skertur, þó að hjá þessum þjóðum séu l. um gjaldeyrisverzlun. Þar er litið svo á, að farmaðurinn þurfi, þegar hann kemur í höfn erlendis, óumflýjanlega að halda á þeim gjaldeyri, sem þar gildir, til þess að kaupa brýnustu nauðsynjar.

Ég skal geta þess, að meðfram af því að nokkur tregða hefir verið um úthlutun gjaldeyris til farmanna, hefir það orðið að samkomulagi við þau útgerðarfélög, sem að staðaldri eiga skip á erlendum höfnum, að vissum hluta af kaupi hvers manns yrði úthlutað mánaðarlega, og hefir þetta samkomulag staðið um þriggja ára skeið, og yfirleitt eru menn ánægðir með þá ráðstöfun. En ég lít svo á, að stjórnarvöldin og þeir, sem ráða yfir gjaldeyrinum, geti fyllilega sett skorður við því með þessum nýju l., að þessi gjaldeyrir skuli einnig numinn burt eða takmarkaður svo mjög, að hann komi ekki að tilætluðum notum fyrir þá, sem sigla um höfin. Ég hygg, að með þeim reglum, sem hafa skapazt meðal íslenzkra farmanna um gjaldeyrisúthlutun, sé engin hætta á, að um misnotkun sé að ræða, svo lengi sem þeirri reglu er fylgt, að farmönnum sé heimilt að fá í erlendum gjaldeyri ¼ af mánaðartekjum sínum, og því sé óhætt að samþ. mína brtt. sem eina af undantekningarreglunum, sem ekki þurfi að sækja um til gjaldeyrisnefndar.

Þetta er meginefnið í minni brtt., og ég vænti sérstaklega að fá að heyra skýrt og ákveðið álit hæstv. fjmrh. á því, hvort ekki sé nauðsynlegt, að farmönnum sé tryggður þessi gjaldeyrir, sem þeir hafa fengið í velflestum tilfellum fram að þessu.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í umr. um aðrar till., en mun láta skoðun mína í ljós við atkvgr. á sínum tíma, en svo þegar málið kemur til 3. umr., þá er hugsanlegt, að ég láti skoðun mína í ljós um þau atriði, sem nú er svo mjög um deilt.