04.12.1937
Efri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla fyrst að minnast á brtt., sem síðast var talað fyrir á þskj. 253.

Það er misskilningur hjá hv. flm., að þetta frv. breyti nokkuð ákvæðunum hvað þetta snertir frá gildandi l., því að þar er ákvæði um, að allur gjaldeyrir skuli renna til bankanna, eins og stendur í frv.

Það er ekki stórt atriði, þetta, hvort það skuli tekið fram í l. sjálfum, — ég hefi ekki áttað mig á, hvort ástæða er til þess, en þó kann ég yfirleitt illa við, að þm. fari að setja fleiri og fleiri greiðslur undir undantekningarákvæði l. Það er óeðlileg tortryggni að ætla þeim, sem fara með þessi l., að þeir veiti ekki gjaldeyrisleyfi til að inna af hendi óhjákvæmilegar greiðslur, enda hygg ég, að sjómenn hafi fengið ákveðinn hluta af kaupi sínu greiddan í erlendum gjaldeyri.

Gr., sem hv. þm. vísaði til í sjómannal., er um það, að greiðslu á kaupi geti skipverjar krafizt, þegar skip er í höfn, og aðeins einu sinni í viku. Ef aðeins væri um vikukaup að ræða á hverju skipi, mundi þetta sennilega ekki valda neinum árekstri, en þegar skip koma í höfn eftir að hafa verið lengi úti, svo að sjómenn ættu t. d. ógreitt mánaðarkaup, þá gæti það orðið óeðlilega mikið, sem greitt yrði í erlendum gjaldeyri.

Ég vil skjóta því til hv. flm., að hann taki aftur þessa till. til 3. umr., svo að n. geti tekið til athugunar í samráði við mig og hann, hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um þetta atriði, svo að ekki þyrfti undantekningu í 1. Annars býst ég ekki við, að þetta sé stórt atriði, en öll gjaldeyrismál eru vandasöm, og má því ekki flana að að bera till. undir atkv., heldur verðar að taka þær til athugunar af n. fyrst.

Hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Reykv. hafa talað hér um tvö atriði l., annarsvegar um það atsiði 1. gr., að menn þurfi að gefa um það skýrslu hjá lögreglustjóra, hvernig þeir hafa aflað sér gjaldeyris. Fóru þeir mörgum ófögrum orðum um; að þetta væri skráning á persónufrelsi manna og blettur á þjóðinni. Mér þykja þessar umr. broslegar, og ég verð að segja, að ég skil ekki þennan óstjórnlega ótta, sem grípur þessa hv. þm., aðeins út af því, að þeir skuli þurfa að mæta á lögreglustöðinni, áður en þeir fara af landi burt. Ég vil benda þeim á, að eins og nú er háttað, þurfa menn, áður en þeir fara til útlanda, að koma á lögreglustöðina til þess að fá sér vegabréf, svo að alt þetta tal um, að menn verði að mæta fyrir rétti, er át í bláinn. Menn verða að fara á lögreglustöðina til þess að fá sér vegabréf, og hér er aðeins farið fram á, að þeir um leið útfylli skýrslu um það, hvernig þeir hafi aflað sér erlends gjaldeyris, til þess að sjá um, að menn fari ekki til útlanda og greiði þar fyrir sig með ólöglegum gjaldeyri. Það má þá alveg eins segja, að óviðkunnanlegt sé, að menn skuli þurfa að mæta á lögreglustöðinni til þess að fá sér vegabréf. (JJós: Þetta er útúrsnúningur). Nei, það er ekki útúrsnúningur; það var aðalatriðið hjá þeim, að þeir þyrftu að mæta fyrir rétti, og þá má alveg eins segja, að menn verði að mæta fyrir rétti, þegar þeir fara á lögreglustöðina til þess að fá sér vegabréf.

Er það að mæta fyrir rétti, að útfylla skýrslu um gjaldeyri og hvernig hans hefir verið aflað og ef þeir hafa ekki aflað gjaldeyris, hjá hverjum þeir ætli að dvelja, svo að ekki verði kostnaður að? Þetta er aðeins nauðsynlegt „kontrol“ með gjaldeyrisverzluninni. Það er nú öll þjóðarsmánin.

Viðvíkjandi því, að hér sé verið að meina mönnum að fara til útlanda, þá er það að segja, að þó að einhverjir kunni að verða að setjast aftur vegna vöntunar á gjaldeyri, þá held ég, að þar sé enginn þjóðarskaði skeður um ýmsa, sem ekki hafa getað farið, og þeir, sem settir hafa verið aftur, það eru þeir, sem hafa viljað afla sér gjaldeyris á ólöglegan hátt, og það, sem vakir fyrir þessum hv. þm., er, að þeir, sem að undanförnu hafa getað farið utan með ólöglegum gjaldeyri, geti gert það áfram. Það virðist aðaláhugamálið, en hér er aðeins farið fram á, að gefnar séu skýrslur til þess að koma í veg fyrir ólöglega notkun gjaldeyris í sambandi við utanferðir. (JJós: Þó að hæstv. ráðh. sé kannske ekki þungur, þá er hann þó nógu þungur til að fljóta ekki á þessu hálmstrái). Ég skil ekki, hvað hv. þm. á við, hann er farinn að nota dulmál. (JJós: Ég á við þetta með vegabréfin).

Hv. 1. þm. Reykv. segist ekki kannast við, að samþ. hafi verið neitt í þessa átt í bankaráði Landsbankans. Ég tók fram, að ég hefði fengið tilmæli frá bankaráðinu um að flytja till. í þessa átt. Þar var ekki getið um, að neinn hefði verið fjarverandi eða á móti till., svo að ég leit svo á, að hún hefði haft einróma samþykki bankaráðsins; en það er ekki höfuðatriðið í þessu sambandi. Ég skil ekki þennan mikla mótþróa gegn þessu meinlausa ákvæði l. Ég sé ekki annað en að núv. ástand sé ákaflegu óviðkunnanlegt, þar sem menn geta farið og fara utan eftir að gjaldeyrisnefnd hefir neitað þeim um gjaldeyrisleyfi. Eins og nú standa sakir, er ekki hægt að rannsaka þetta, nema mennirnir séu kærðir fyrir meint brot á gjaldeyrislögunum, en þá er betra að láta menn gefa skýrsla, svo að ekki þurfi að fara nánar út í það, nema sérstakt tilefni gefist til, og við þetta vinnst þó alltaf það, að fullt yfirlit fæst um utanfarir og þær ástæður, sem fólk gefur upp, sem hefir ekki keypt gjaldeyri í bönkunum, og það er strax mikils virði.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. fóru um það mörgum orðum, hvað siglingarnar væru þarfar. Það er rétt, menn sigla oft í þörfum erindum, en menn sigla líka oft erindisleysu, og mættu eins sitja heima í þeim gjaldeyrisvandræðum, sem nú eru. Heldur hv. þm. Vestm. ekki, að það væri eins gott að borga segldúkinn, sem hann var að tala um að hefði ekki verið greiddur, eins og að láta hina og aðra fara út um öll lönd og eyða þar gjaldeyri að þarflausu? Það er ekkert við því að segja út af fyrir sig, þó að menn sigli, en þegar menn þurfa að takmarka innflutninginn og erfiðleikar eru á að greiða nauðsynjavörur, þá er fyllsta ástæða að reyna að takmarka óþarfa siglingar.

Þá kem ég að þeirri till. minni, að taka burt úr frv. heimild fyrir útgerðarmenn til að ráðstafa þeim gjaldeyri, sem þeir fá fyrir útgerðarvörur sínar, að því leyti sem þeir þurfa hann til útgerðarinnar. Hv. þm. Vestm. var harðorður út af þessari till. og viðhafði þar um hin verstu orð. Hann sagði, að það væri undarlegt af mér að beita mér á móti þessu ákvæði, þar sem ég hefði kveðið svo á, að Samband íslenzkra samvinnufélaga skyldi fá gjaldeyri sinn til þess að greiða með sínar vörur. Ég vil fyrst spyrja hv. þm., hvar það standi í þessu frv., að S. Í. S. skuli hafa þennan rétt, og hann mun svara, að það standi hvergi. Hverjir hafa þá veitt þennan rétt til að greiða kröfur S. Í. S. með þeim gjaldeyri, sem það hefir undir höndum? Ég skal svara því, að það er ekki ég. Það er gjaldeyrisnefnd, sem hefir heimilað það með samþykki bankanna, en ég hefi ekki verið spurður að því, því að það hefir ekki verið undir mig lagt. Það eru þessir aðiljar, sem hafa samþ. þetta, og það hefir verið samþ. vegna þess, að þeir hafa talið það eðlilegt, og við höfum oft rætt um það áður hér á þingi og verið færð fram rök fyrir því, hvers vegna það er eðlilegt en það er vegna þess, að S. Í.S. hefir verið sjálfstæður aðili erlendis og fengið þar lán hjá bönkum til þess að greiða fyrir inniflutningsvörur sínar, og greitt síðan lánin með útflutningsvörum sínum síðar á árinu. Það er m. a. til þess að halda við því lánstrausti, sem S. Í. S. hefir haft, og hefir hjálpað bönkunum mikið í gjaldeyrisvandræðunum, að þetta hefir verið samþ. En þetta, að samþ. hefir verið að hafa það svo með S. Í. S., sýnir, að hægt er að fara þessa leið samkv. gildandi l. og frv„ þó að brtt. mín verði samþ., en það liggur þá aðeins undir ákvörðun gjaldeyrisn. og bankanna, hvort þeir telji rétt að fara þessa leið, og þar komum við að aðalatriði málsins. Ég tel, að það eigi að vera á valdi þessara aðilja, bankanna og gjaldeyrisnefndar, að hversu miklu leyti eigi að gefa slíka heimild, en þingið eigi ekki að setja sérákvæði um sérstaka aðilja.

Ég skal taka það fram, að þessum aðilja hefir einnig verið veitt svipað leyfi í ýmsum öðrum tilfellum. T. d. man ég eftir einu útgerðarfyrirtæki, sem hafði keypt verksmiðju og fékk leyfi til þess að halda eftir til þess að greiða fyrir hana, og fleiri dæmi svipuð eru til. En til þess að bankar og gjaldeyrisnefnd geti haft þessi mál sem bezt d valdi sína, þá á ekki að gera undantekningarnar í l., heldur á að leggja það undir vald gjaldeyrisnefndar og bankanna, hvað rétt sé að gera á hverjum tíma, og ég efast ekki um, að þessir aðiljar séu sammála um að reyna að gera það, sem eðlilegt er, en takmarka þó þær undanþágur, svo að ekki skapist óviðráðanlegur glundroði í framkvæmd gjaldeyrismálanna.

Ég vil algerlega vísa á bug öllum svigurmælum hv. þm. til mín fyrir fjandskap í garð sjávarútvegsins. Ég hefi ekki heldur haldið neinar hrókaræður um það, sem ég hafi gert fyrir sjávarútveginn, en ég get vísað til alls þess, sem hv. 1. þm. Reykv. taldi upp í ræðu sinni áðan, sem gert væri fyrir þann atvinnuveg, og eins og hv. þm. Vestm. veit, hefi ég staðið að öllum þeim ráðstöfunum, og ég get sagt það, að ég hefði viljað gera miklu meira, ef fjárhagur ríkissjóðs leyfði það. Ég sé því ekki ástæðu fyrir hv. þm. Vestm. að vera með neinn skæting til mín út af brtt. minni; hún er ekki fram komin til að vera steinn í götu sjávarútvegsins, heldur vil ég, að bankarnir og gjaldeyrisn. hafi valdið yfir gjaldeyrinum, eins og verið hefir, af því það er bæði eðlilegt og nauðsynlegt.

Ég ætla ekki að fara langt út í það að ræða um gjaldeyrisástandið yfirleitt. Mér er vel kunnugt um þau vandræði, sem oft eru á því að greiða allar þær upphæðir, sem þarf að greiða til útlanda fyrir sjávarátveginn, og hinsvegar hvernig bankarnir hafa lagt sig í líma til þess að greiða þær, enda hefir það tekizt svo, að ekki hefir þurft að hefta eða stöðva framleiðsluna fyrir það, að útgerðarvörur hafi skort. Þrátt fyrir alla þá erfiðleika, sem eru með erlendan gjaldeyri, tókst á síðastl. sumri að gera út þann stærsta síldarflota, sem nokkurn tíma hefir farið að veiðum. Auðvitað var þetta aðeins hægt með hjálp bankanna, og mér er ekki kunnugt um, að nokkur hafi setið heima, sem ætlaði sér að gera út á síldveiðar.

Ég skal nefna tvær ástæður af mörgum, sem eru fyrir þeim gjaldeyriserfiðleikum, sem nú eru. Önnur er sú, að meiri hl. hinnar miklu framleiðslu síldarafurða frá síðastl. sumri er enn óseldur, en á þá framleiðslu var vitanlega treyst, þegar ýms kaup voru gerð í útlöndum. Hin ástæðan er samskonar. Það liggur gríðarstór vöruforði óseldur af gærum, sem nánast hefir reynzt ómögulegt að selja nema í Þýskalandi, og það inn á „clearing“-reikning, sem verður til þess, að innieign í Þýzkalandi um áramót verður mjög há. Ef hægt hefði verið að selja þessu vöru fyrir frjálsan gjaldeyri, þá mundu erfiðleikarnir hafa verið miklu minni en þeir eru nú. Þetta kemur nú í sjálfu sér ekki við því atriði í frv., sem við erum að ræða um, en ég tek þetta fram vegna orða, sem hér hafa fallið. Nú er ég ekki viss um það, þó útgerðarmönnum væri leyfður frjáls hluti gjaldeyrisins, eins og um er talað, að öll þeirra vandræði væru þar með leyst, og að þeir ættu þá alltaf létt með þessar greiðslur. Það hefir átt sér stað, og það mjög áberandi, að sala hefir dregizt þannig, að gjaldeyri fyrir framleiðsluvörurnar hefir ekki verið hægt að nota til að greiða útgerðarkostnaðinn. Ætli útgerðarmenn þyrftu þá ekki að koma til bankanna og biðja um gjaldeyri, þó vörurnar væru áseldar? Skyldi það ekki vera svo, að bezt færi á því, að lausn þessara mála á hverjum tíma yrði bezt með samvinnu allra þessara þriggja aðilja, útgerðarmanna, bankanna og gjaldeyrisnefndar? Ég held, að svo sé, og þess vegna sé ekki rétt að gera neina undantekningu með vissan hóp manna. Það fer áreiðanlega bezt á því, að þetta verði eftirleiðis svo sem verið hefir í l. og að útgerðarmenn eins og aðrir uni við þá samninga, sem þeir geta fengið við gjaldeyrisnefnd og bankana á hverjum tíma.

Þá flytur hv. 1. landsk. brtt. við þá brtt. sína, sem áður var fram komin, sem virðist eiga að skylda gjaldeyrisnefnd til að veita hverjum útvegsmanni innflutningsleyfi á þeim vörum, er hann telur sig þurfa til útgerðarinnar. Svo erfitt sem það yrði að framkvæma ákvæði frv. eins og það nú er, þá yrði þetta þó hálfu verra, ef þessi brtt. yrði samþ. Samþykkt brtt. mundi leiða það af sér, að hver bóndi ætti að fá leyfi til að selja sinn gjaldeyri og kaupa vörur fyrir erlendis. Mundi þetta því skapa slíkan glundroða, að ekki yrði við neitt ráðið. Ég vil því alvarlega ráða hv. þdm. frá því að samþ. þessa brtt. Það getur vel verið, að hv. 1. landsk., eins og hv. þm. Vestm., geri mér upp fjendskap við sjávarútveginn fyrir það, að ég get ekki fallizt á þessa till. hans, en ég veit, að hv. þdm. skilja, að svo er ekki, heldur er ég Á móti brtt. vegna þess, að ég vil koma í veg fyrir óviðráðanlegan glundroða í þessu efni. Til staðfestingar því, að þetta er ekki sprottið af fjandskap frá minni hálfu, heldur þvert á móti, vil ég benda á það, að þar, sem útvegsmenn hafa stofnað með sér innkaupssamtök til þess að fá vörur með lægra verði, hefi ég verið starfsemi þeirra hlynntur og stutt hana, t. d. olíuinnkaup o. fl., svo ég vil algerlega vísa á bug öllum aðdróttunum í minn garð um fjandskap til þessara manna.

Ég vil svo benda á það, hvort ekki væri eðlilegt, eins og mér hefir heyrzt á einum hv. þm. í fjhn., að annaðhvort væru allar brtt. teknar aftur til 3. umr. eða þessari umr. frestað. Helzt vildi ég þó, að þær yrðu teknar aftur til 3. umr., svo fjhn. gefist kostur á að taka þær til nýrrar athugunar. Ég fyrir mitt leyti get tekið mína brtt. aftur til 3. umr.