04.12.1937
Efri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Mér skilst, að samkomulag sé orðið um að taka aftur allar brtt. til 3. umr.

Hv. þm. Vestm. sagði, að ég væri að reyna að koma því til leiðar, að þegnar þjóðfél. væru beyttir misrétti. Það er ekki rétt, því að mínar till. eru einmitt á þann veg, að engum sérstökum aðilja er veittur sérstakur réttur. Í frv. eru engum veitt sérréttindi, en gjaldeyrisn. og bankarnir geta úrskurðað, hvort undanþágur á að veita eða ekki. Það er því engin ástæða fyrir hv. þm. að rjúka upp á nef sér og væna mig um hlutdrægni og óvináttu í garð sjávarútvegsins. Ef veittar væru undanþágur fyrir eina stétt, gæti það leitt af sér erfiðleika í framkvæmd gjaldeyrislaganna. Þá mundu koma fram kröfur frá öðrum aðiljum um sömu réttindi.

Hv. þm. Vestm. segir, að ég vilji, að S. Í. S. standi utan við lög og rétt. Ætlar hann að halda því fram, að Sambandið hafi fengið sinn rétt ólöglega? Nei, það er heimild til þess í þessum l., og eins til að veita útgerðarmönnum undanþágu, ef bankarnir og gjaldeyrisn. álíta það mögulegt.

Það er rangt hjá hv. þm., að aðrir hafi ekki samskonar undanþágur og Sambandið. Það er úr lausu lofti gripið, og það veit hv. þm. vel, því að það er samskonar undanþága, þegar síldarútvegsmenn, sem fá leyfi til að flytja inn tunnur, mega halda eftir af verði útflutningssíldar til þess að greiða innflutningsvöruna með. Sambandinu er skylt að nota sinn gjaldeyri eingöngu til greiðslu á vörum, sem það fær innflutningsleyfi fyrir, og það verður eins og aðrir að gefa sínar skýrslur, þegar þess er krafizt.

Ég benti á það um ferðamennina, að það er ekki meira, þó að þeir fylli út eyðublað um, hvernig stendur á þeirra ferðum, en þó að þeir fái sér vegabréf. Ég geri ráð fyrir, að flestir hafi gjaldeyrisleyfi, og ég býst ekki við, að framkvæmdin verði svo naglaleg, að hún komi neinum illa. Ég skil því ekki, hvað andmælendurnir gera mikið úr þessu ákvæði.

Ég mun taka aftur brtt. mína um að fella niður undanþáguheimildina, og fer fram á það, að n. eigi viðtöl við form. gjaldeyrisn. og fulltrúa frá bönkunum. En það er þó áríðandi, að málið tefjist ekki mjög.