13.12.1937
Efri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Við 2. umr. voru þær brtt., sem hér liggja fyrir, nema brtt. á þskj. 336, teknar aftur til 3. umr., til þess að fjhn. tæki þær til athugunar á milli umr. Fjhn. hefir síðan haldið fund og rætt till. nokkuð, og einnig málið í heild sinni, en samkomulag hefir ekki orðið í n. um till., og þess vegna hefi ég ekki neitt sérstakt um þær að segja frá hálfu n. Það var ráðgert á fundinum að ræða málið við stjórn Landsbankans, en úr því hefir ekki orðið. Aftur á móti hefi ég rætt málið við formann innflutnings- og gjaldeyrisn., og hann er mótfallinn till., sem fyrir lágu við 2. umr. að undantekinni till. á þskj. 223, frá hæstv. fjmrh. Að því er snertir till. um það, að veita útvegsmönnum undanþágu frá 1., og reyndar fleirum, þá telur hann, að það sé mjög varhugavert, og að ýmsir aðrir gætu haldið því fram, að þeim bæri sami réttur. Hitt muni ekki koma til, að á því standi, að útgerðarmenn fái leyfi og gjaldeyri til nauðsynlegra útgerðarvara.

Þá hefir 3. mgr. 1. gr. orðið nokkurt deiluefni, og hefir komið fram till. um að fella hana niður. Ég hefi leyft mér, án þess að bera mig saman við meðn. mína, að bera fram till. um breyt. á málsgr., nefnilega að fella niður ákveðið um, að óheimilt sé að selja farmiða, nema menn hafi vottorð frá lögreglustjóra um, að þeir hafi gefið þá skýrslu, sem um er að ræða. Samkv. till. minni er ferðamönnum engu að síður skylt að gefa þessa skýrslu, en það á bara ekki að ganga eftir henni áður en farmiði er seldur. Ennfremur legg ég til þá breyt., að skýrslan skuli gefin annaðhvort lögreglustjóra eða tolleftirlitsmanni. Er þetta gert til þess að létta framkvæmdina. Ég vænti þess, að till. mína á þskj. 336 megi skoða sem málamiðlun og að hv. þdm. geti sætzt um þetta atriði.