13.12.1937
Efri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla að taka fram, að ég er meðmæltur till. hv. 1. þm. Eyf., sem er flutt á þskj. 336, um málamiðlun í þessu máli, og sætti mig vel við þau málalok eftir öllum ástæðum.

Ég ætla ekki að taka upp deilur við hv. þm. Vestm., og endurtaka með því það, sem við sögðum við 2. umr., þótt hann gæfi fullt tilefni til þess með því að halda ræðu um ranglæti og fleira slíkt í sambandi við gjaldeyri útvegsmanna. Ég vil taka það fram, að þótt till. mín væri samþ., þá er heimilt að veita útgerðarmönnum eða félögum þeirra leyfi til að greiða af sinum eigin gjaldeyri fyrir vörur, sem réttlátt er, að þeir fái, og ég mundi reyna að fylgjast með, hvort ástæða væri til þess. En ég vil benda hv. þm. Vestm. á, að ekki er hægt að bera saman einstaka útgerðarmenn og félagsskap eins og Samband ísl. samvinnufélaga, sem er samtök heillar stéttar, en væri stofnaður líkur félagsskapur fyrir útgerðina, mundi ég taka til athugunar, hvort ekki væri rétt að láta einnig hann öðlast þessa heimild, því það er fjarri mér að vilja gera nokkurn mun á einstökum stéttum.

Mín meining er að hafa gjaldeyrislögin sem heilsteyptust, svo að eftirlit sé með, að allur gjaldeyrir komist til skila. Ef fara ætti lengra út í þetta mál og taka sem dæmi, hvernig vöruverð er á sumum útgerðarvörum, eins og t. d. kolum og salti og olíu, mætti færa margt því viðvíkjandi sem rök fyrir því, að þessu máli væri betur komið án samþykktar þessa frv.

Ég skal taka fram, að ég hefi átt tal um þetta mál við bankastjóra Landsbankans, sem hefir einna mest með þessi gjaldeyrismál að gera, og hann var mér sammála um, að verra væri að hafa þetta ákvæði í l. Sama sagði formaður innflutnings- og gjaldeyrisn. Hitt er annað mál, hvernig þetta verður framkvæmt á hverjum tíma.