18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að deila verulega við hæstv. ríkisstj. að þessu sinni út af stefnu hennar í gjaldeyrismálum.

En hæstv. fjmrh. var, að því er mér skildist, að hrósa sér og ríkisstj. af því, að Veiðarfæragerðin hefir nýlega lækkað verð sitt — til hagsbóta fyrir sjómenn. Hafi það verið meining hæstv. ráðh., að þetta væri verk hæstv. ríkisstj., er það alveg tilhæfulaust. Það var nefnd frá útgerðarmönnum sjálfum, sem náði samningum við Veiðarfæragerðina um þessa verðlækkun. Lækkunin á 5 pd. lóðum, bikuðum, nemur 16%, ef keyptar eru a. m. k. 15 tylftir í einu og greitt við móttöku. Samband íslenzkra fiskframleiðenda hefir lofað að safna saman pöntunum smáútgerðarmanna, svo að allir geti notið beztu kjara. Þessi lækkun, sem telja má, að þetta félag, S. Í. F., hafi útvegað og styrki menn til að nota sér, verður sjómönnum og útgerðarmönnum til mikilla hlunninda. En það er alls ekki ríkisstj. að þakka.