29.11.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

Minning látinna manna

forseti (JBald):

Ég hefi þá sorgarfregn að flytja hv. alþingismönnum, að einn úr hópi vorum, Magnús Guðmundsson alþm., er látinn. Hann veiktist snögglega fyrir tæpum þremur sólarhringum. Var gerður á honum holskurður síðastliðið föstudagskvöld, og í gær andaðist hann, hálfri stundu fyrir nón.

Magnús Guðmundsson var fæddur 6. febrúar 1879 á Rútsstöðum í Svínavatnshreppi í Húnavatnssýslu, sonur Guðmundar Þorsteinssonar bónda þar, síðar í Holti í Svínadal, og konu hans, Bjargar Magnúsdóttur, bónda í Holti Magnússonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1902 með ágætiseinkunn og tók lögfræðipróf við Kaupmannahafnarháskóla 5 árum síðar, 1907, með I. einkunn. Sama ár varð hann aðstoðarmaður í atvinnu- og samgöngumáladeild stjórnarráðsins hér og gegndi því starfi um 5 ára skeið, til 1912. Þá var hann skipaður sýslumaður Skagfirðinga og gegndi því embætti til 1918, en þá varð hann á öndverðu ári skrifstofustjóri í fjármáladeild stjórnarráðsins. Tæpum 2 árum síðar, 1920, varð hann fjármálaráðherra í 2. ráðuneyti Jóns Magnússonar og hélt því embætti í rúm tvö ár, til 1922, er það ráðuneyti fór frá, og gerðist hann þá málaflutningsmaður fyrir hæstarétti. 1924 varð hann atvinnumálaráðherra í 3. ráðuneyti Jóns Magnússonar, og þegar Jón féll frá, 1926, í ráðuneyti Jóns Þorlákssonar, og þá jafnframt dómsmálaráðherra. Ráðuneyti Jóns Þorlákssonar sagði af sér 1927, og þá hvarf Magnús aftur að málaflutningsstörfum. Árið 1932 varð hann í þriðja sinn ráðherra, dómsmálaráðherra í ráðuneyti Ásgeirs Ásgeirssonar, en það ráðuneyti sagði af sér 1934. Frá þeim tíma var hann síðan hæstaréttarmálaflutningsmaður til dauðadags. Á Alþingi átti hann sæti í 21 ár samfleytt, frá 1916, og var þetta 26. þingið, er hann sat. Hann var þm. Skagfirðinga frá 1916 til 1927, lengst af 1. þm., en við kosningarnar síðastl. sumar vart hann landsk. þingmaður.

Auk þeirra mörgu embætta og annara starfa, sem hér hafa verið talin, hafði Magnús Guðmundsson og á hendi fjölmörg önnur trúnaðarstörf í almenningsþarfir áður en og milli þess sem hann var ráðherra og eftir það að hann var síðast í landsstjórn. Skulu hér talin nokkur hin helztu þeirra. Hann var formaður sparisjóðs Sauðárkróks 1912–1918, yfirskoðunarmaður landsreikningsins 1922, í Þingvallanefnd frá 1928, í milliþinganefnd þeirri um skattalöggjöf, er skipuð var 1929, í landsbankanefnd frá 1928, í dansk-íslenzki ráðgjafarnefnd frá 1934, í milliþinganefnd þeirri, er skipuð var í ársbyrjun 1936 til þess að undirbúa löggjöf um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, og frá sama tíma í stjórn kreppulánasjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Í fjárveitinganefnd átti hana alllengi sæti og var formaður hennar um skeið. Í miðstjórn Íhaldsflokksins var hann frá stofnun hans og síðar Sjálfstæðisflokksins og jafnan varaformaður þess flokks.

Með Magnúsi Guðmundssyni er til moldar genginn einn þeirra manna, er fremstir hafa staðið í stjórnmálabaráttunni um síðastliðin 20 ár. Hafði hann og marga þá kosti til að bera, er skipuðu honum sess meðal hinna mest metnu manna í flokki sínum. Frá embættis- og stjórnmálastarfsemi sinni hafði hann meiri og viðtækari þekkingu á íslenzkum stjórnarháttum en flestir samtíðarmanna hans. Þá var og mikil þekking hans á atvinnuháttum þjóðarinnar, einkum á öllu, er að landbúnaði laut, og lét hann sér jafnan annast um málefni bændastéttarinnar, þó að langur embættisferill og stjórnmálastarfsemi veitti honum góða yfirsýn um þarfir og hagsmuni annara stétta þjóðfélagsins. Á Alþ. var Magnús Guðmundsson meðal hinna starfhæfustu og starfsömustu þingmanna og vann að hverju máli með þeirri samvizkusemi og nákvæmni, sem honum var eðlileg, og þó að flokksmönnum hans sé mest eftirsjá að fráfalli hans, þá munu einnig þeir, er andstæðingar hans voru í stjórnmálum, bera honum það vitni, að vart hafi getið samvinnuþýðari mann í störfum, innanþings og utan. Hann var velviljaður maður og friðsamur, en eigi vora þeir miklu kostir hans alltaf metnir sem skyldi. Magnús Guðmundsson rækti þingstörf sín hverjum manni betur.

Hann var á þingfandi síðastliðinn föstudag og virtist þú heill heilsu. En nú hafa hér orðið snögg umskipti, og þó að oss samþingismönnum hans falli þungt fráfall hans, verður hér engu um þokað.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að votta minningu þessa látna þingbróður vors virðinga sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir þm. risu úr sætum].