09.12.1937
Efri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

Minning látinna manna

forseti (EÁrna) :

Áður en tekið verður til starfa hér í deildinni í dag vil ég minnast nokkrum orðum nýlátins manns, sem eitt sinn átti sæti. á Alþingi, og þá í þessari hv. deild. Þessi maður er Axel Tulinius. Hann andaðist í gær í Kaupmannahöfn.

Axel Valdimar Tulinius fæddist á Eskifirði 6. júní 1865. Voru foreldrar hans Carl Daniel Tulinius, kaupmaður á Eskifirði, og kona hans, Guðrún Þórarinsdóttir, prófasts á Hofi í Álftafirði Erlendssonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1884 og tók lögfræðipróf við Kaupmannahafnarháskóla 1892. Síðan var hann um eins árs skeið í lögregluliði Kaupmannhafnar. Frá ársbyrjun 1893 varð hann bæjarfógetafulltrúi í Reykjavík og gegndi því starfi í 1½ ár, en þá var hann (á miðju árinu 1894) settur sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeti á Seyðisfirði. Rúmu ári síðar, 1895, var honum veitt Suður-Múlasýsla, og gegndi hana því embætti til 1911. Þá sótti hann um og fékk lausn frá embætti og fluttist til Reykjavíkur. Á næstu árum, 1912–1918, hafði hann á hendi umboð fyrir erlend vátryggingarfélög. Þegar Sjóvátryggingarfélag Íslands var stofnað, 1918, var hana ráðinn forstjóri þess og hafði það starf á hendi til 1933. Á Alþingi átti hann sæti á einu þingi, 1901, var þá 1. þm. Sunnmýlinga.

Það, sem lengst mun halda á lofti minningu Axels Tulinius, er athafnir hans í þarfir íþróttamála landsins og hinn mikli áhugi hans á þeim málum. Hann hélt uppi fjörugu íþróttalífi á Eskifirði, meðan hann var þar sýslumaður, og þjóðkunn er starfsemi hans í þeim efnum eftir að hann fluttist til Reykjavikur. Hann var einn aðalfrumkvöðla að stofnun Íþróttasambands Íslands og var formaður þess frá byrjun, 1912, til 1916. Um langt skeið hefir hann verið yfirforingi íslenzkra skáta og lífið og sálin í þeim félagsskap.

Íþróttamenn og æskulýður landsins munu lengi minnast þessa vínsala og ötula forustumanns á sviði líkamsræktar.

Ég vil biðja hv. deildarmenn að votta minningu þessa merkismanns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

(Allir deildarmenn risu úr sætum].