11.11.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

Þingvíti

Ólafur Thors:

Ég er einn af þeim hv. þm., sem voru fjarverandi þennan dag, og játa, að ég hafði ekki til þess neitt leyfi og að ég fór ekki burtu úr bænum. Ég hafði þá setið fundi í 3 vikur, og ekkert hafði gerzt eða gerist enn á þinginu.

Ég hefi sérstaklega veitt því athygli, að hv. þingmenn eins ákveðins stjórnmálaflokks hefir vantað á þingfundi í meira en viku, og vænti ég að hæstv. forseti upplýsi það, ef hann hefir átt þátt í því að halda þeim frá fundarsókn. — Væri fróðlegt að fá það einnig upplýst, hvort þingið fer nú bráðum að taka til starfa, eða hvort það verður ekki fyrr en bæði alþýðusambandsþingi og flokksþingi kommúnista er lokið.