28.10.1937
Efri deild: 13. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1717)

50. mál, drykkjumannahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Þetta frv. er öllum hv. þdm. kunnugt, því að það hefir verið á ferð hér áður í ýmsum myndum, bæði sem þáltill. og frv. Það er því óþarfi að tala mikið um það, en ég vil þó fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum.

Kröfur almennings í þessum efnum hafa verið háværar. Á bindindisþinginu á Þingvöllum í sumar, þar sem mættir voru fulltrúar úr öllum héruðum landsins, var það einróma álit allra fundarmanna, að þessi stofnun, hæli handa drykkjumönnum, væri óumflýjanleg nauðsyn.

Grg. frv. ber það með sér, að ástandið í þessum efnum er orðið ískyggilegt hér á landi, en hún lýsir þó ekki öllum þeim hörmungum, skorti og heilsuleysi, sem steðja að heimilum þeirra manna, sem eru ofurseldir áfengisnautninni. Og hún segir ekki frá því, hvernig drykkjumönnunum sjálfum líður, þegar þeir ranka við sér, sjúkir á sál og líkama. Nei, það, sem í grg. stendur, eru aðeins óljósar myndir af því ástandi, sem einstaklingar og fjölskyldur eiga við að búa, þegar áfengisnautnin er búin að leggja að velli alla velsæmd.

Til skamms tíma var litið á ofdrykkjumanninn eins og nokkurskonar glæpamann. Að vísu má segja, að áfengisnautnin leiði oft á glæpabrautir, og má benda á mörg dæmi þess. Fangelsisstjórar, lögreglustjórar og dómarar um víða veröld hafa marga sorgarsöguna af því að segja, en nú er álit manna á ofdrykkjumanninum að breytast. Nú hneigjast menn að þeirri skoðun, að þeir séu aumkunarverðir sjúklingar, sem fyrst og fremst þurfi lækningar og hælis við.

Á Þingvöllum flutti dr. Helgi Tómasson í sumar einkar fróðlegt erindi um þennan sjúkdóm og meðferð hans. Eftir því, sem dr. Helga sagðist frá, er engum blöðum um það að fletta, að ofdrykkjumenn, sem neyta lengi slíkra lyfja, komast í tölu allra-aumustu sjúklinga. Þá er eina vörnin gegn þessu mikla böli að veita þeim aðstöðu til þess að njóta lækningar og meðhöndla þá eins og sjúka menn. Það mundi einnig verða beitt vopn í bindindisbaráttunni. Menn færu að hugsa sig um, hvort ekki bæri að forðast þau eiturlyf, sem gætu þannig komið þeim á kné.

Nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa komið á stofn slíkum hælum með miklum árangri. Í Danmörku eru þau elztu um 30 ára gömul. Það er talið, að fullur helmingur þessara sjúklinga læknist, vinni þar algerlega bug á drykkjuskaparástríðunni og geti gefið sig óskiptir að starfi sínu. Fjórði hluti þeirra fær sæmilegan bata og getur nokkurn veginn séð sér og sínum farborða, en fjórði hluti þeirra fer sömu leiðina aftur, þegar hælinu sleppir. Þeir hafa þá líklega ekki verið þar nógu lengi; eitt ár er lágmarkstími.

Þessar niðurstöður geta gefið oss góðar vonir um bærilegan árangur hér. A. m. k. er ekki horfandi í að gera tilraun í þessa átt, ekki einungis vegna drykkjumannanna sjálfra, heldur vegna eiginkvenna, barna, mæðra og allra aðstandenda þessara ógæfusömu manna.

Viðvíkjandi kostnaðinum vil ég benda á, að oftast verða þessir óreglumenn þjóðfélaginu til mikillar byrði hvort sem er. Framfærsluskylda þeirra leggst á annara herðar. Oftast er ekki annað fyrir hendi en að hið opinbera hlaupi undir bagga með heimilum þeirra. Mér er kunnugt um ýms slík heimili, sem eru svo aðframkomin af skorti vegna drykkjuskapar húsbóndans, að það þarf ekki lítið fé til þess að sjá þeim fyrir nauðsynlegustu þörfum.

Hér er ofdrykkjumönnum annaðhvort komið í „steininn“ eða þeir eru látnir sigla sinn sjó. En að setja þá á heilsuhæli, venja þá af ástríðunni og gefa þeim aftur trúna á starfið og lífið, það er bjargráð, sem mikið er gefandi fyrir. Í stað lítt sjálfbjarga manns fáum við reglumann, sem getur séð sér og sínum farborða. Hvers virði það er fyrir þjóðfélagið, verður ekki á vog vegið né með tölum talið.

Þá vil ég minna á þær upphæðir, sem þjóð vor hefir ráð á að borga fyrir áfengi. Tollur á áfengi er áætlaður 1 millj. kr., og ágóði af áfengisverzluninni 1300000 kr. Þetta eru engir smáræðis peningar. Sölugróði á dag getur orðið ca. 6300 kr. Tíu dagar kosta þá 63 þús. kr., og það eru ekki full 3% af áfengissölugróðanum. En það mundi nægja fullkomlega til þess að standa straum af slíku hæli.

Það mun vera almennt álitið, að það sé siðferðisleg skylda ríkisvaldsins, sem heldur áfengi að þegnum sínum, að sjá fórnardýrum þessarar nautnar fyrir heilsubót og reyna að sporna við því, að ísl. þjóðin verði að burðast með fjölda vesalinga, sem áfengið hefir orðið að fótakefli. Það er því ekki óeðlilegt, að einhver hluti af ágóðanum af sölu áfengis sé einmitt notaður til þess að hjálpa þeim, sem harðast verða fyrir barðinu á því. En langheppilegasta lausnin á því máli er einmitt heilsuhæli.

Ennfremur má benda á aðra fjárfúlgu, sem ekki væri nema sanngjarnt, að nota mætti að einhverju leyti í þessu skyni, og það er fjárfúlga sú, sem ætluð er á fjárlögum til sjúklinga samkv. bráðabirgðalögum nr. 78 frá 1936, um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Þar eru drykkjumenn teknir til sem ein tegund manna, sem undir þessa löggjöf koma, og þar er um að ræða 83000 kr. afgang, sem heilbrigðismálaráðuneytið hefir ráðstafað til geðveikisjúklinga. Mér finnst ekki úr vegi að athuga þessar leiðir, því að þessi sjúkdómur tilheyrir vissulega geðveiki, og fyrst ríkið telur sér skylt að sjá geðveikum mönnum fyrir hæli, því skyldu þá þessir geðveiku menn eiga að vera útundan og mega ekki njóta hælisvistar eins og aðrir geðveikir menn? Þó að um það mætti deila, hvers vegna þeir eru geðveikir, þá er það fremur lítil huggun fyrir sjúkling, sem kemur að leita sér lækninga, að honum sé sagt, að sýki hans sé sjálfskapað víti og því sé það mátulegt handa honum. Slík svör hæfðu ekki vænum manni, en þessu líkt er svarið frá hendi hins opinbera, ef ekkert er gert til þess að bjarga mönnum, sem illa eru farnir af þessum illa sjúkdómi. Mér sýnist ríkisvaldið hafa sömu skyldu að gegna við þessa tegund sjúklinga og aðra, og þess vegna hika ég ekki við að leggja þetta frv. fyrir hv. d. í því trausti, að það mæti skilningi og samúð hv. Alþingis.

Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um málið. Frv. ber með sér, við hvað er átt, en þó vil ég sérstaklega benda á tvö meginatriði, sem í frv. felast. Í fyrsta lagi, að það gefur hinum sjúku mönnum bætta aðstöðu til þess að leita sér hælis og lækninga, og í öðru lagi gefur það fjölskyldunum, eiginkonum og nánustu ættingjum, betri aðstöðu til þess að hlutast til um að útvega nauðsynlega hjálp, sem sjúklingurnir sjálfir koma ekki auga á, að þeir þurfi á að halda veikinda sinna vegna. Ég vil svo að lokum leggja til, að málinu verði vísað til hv. allshn.umr. lokinni.