16.11.1937
Efri deild: 28. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (1721)

50. mál, drykkjumannahæli

*Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eins og nál. á þskj. 118 ber með sér, leggur n. til, að þetta frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, á þann hátt, að lagt sé til, að upp í fjárl. verði tekin fjárveiting til ráðstöfunar fyrir heilbrigðisstjórnina á næsta ári. Þessa aðferð hefir n. viðhaft sökum þess, að hún vill sinna málinu og telur það mjög nauðsynlegt, en sér hinsvegar ekki fært að leggja til — eins og stendur —, að farið sé strax að stofna sérstakt hæli í þessum tilgangi, og hafði n. samráð um þetta mál við landlækni í fyrra og nú í ár við dr. Helga Tómasson, yfirlækni á Kleppi. — Það er nefnilega svo, eftir því sem dr. Helgi Tómasson upplýsir n., að víða um heim er vöknuð sú skoðun, að hæli handa svona mönnum sé ekki sem bezt, þar sem þeir eru margir saman og geta haft ill áhrif hver á annan. Þess vegna telur dr. Helgi rétt að prófa sig hér áfram og reyna að fá fjárveitingu fyrir heilbrigðisstj., sem hann svo fyrir sitt leyti — og n. finnst það skynsamlegt — gerir ráð fyrir, að varið verði á þann hátt að fá húsnæði, þar sem hægt væri að taka á móti slíkum mönnum til bráðabirgða, eða á meðan verið er að athuga. hvað tiltækilegast sé við þá að gera. Þessir menn eru náttúrlega á mjög mismunandi stigi. Sumir þurfa ekki nema stutta hælisvist, aðrir langa, og sumum hentar það að vera komið burt úr sollinum, en öðrum hentar betur að vera um lengri tíma undir strangri gæzlu. Enn aðrir eru þannig, að þeirra sjúkdómur er ólæknandi eða lítt læknandi, og við þá mun sennilega ekkert annað að gera en að láta þá eiga sig eða hafa þá til frambúðar á slíkum sjúkrahúsum.

Náttúrlega lá það á bak við hjá n., að það eru heldur þröngar ástæður til þess nú að leggja út í mikinn kostnað við að reisa slíkt hæli og valda sér þar með talsverðra árlegra útgjalda. En aðalatriðið var þó það fyrir n., að hún vill láta heilbrigðisstj. prófa sig áfram í þessu efni, enda er gengið út frá, að veittar verði á næstu árum í þessu skyni 15–25 þús. kr., og mun n. gera till. um það til fjvn., ef þessi rökst. dagskrá verður samþ. Og ef hún verður einróma samþ. eða með miklum meiri hl., þá ætti það að vera líklegt, að slík fjárveiting gæti gengið í gegn. N. mun telja sér skylt að fylgja málinu eftir í fjvn., og ef svo ólíklega færi, að hún vildi ekki taka þetta upp, þá mun n. sjálf flytja till. um þetta.

Það var eitt atriði, sem talsvert var rætt um í n., sem sé, hvort ekki væri rétt að breyta lögunum um lögræði frá 1919, til þess að hægt sé að komast hjá aðgerðum gagnvart þessum mönnum, því að það er auðvitað ekkert gagn í því að fá þessa menn í 1–2 daga, en svo geti þeir heimtað að fara, þegar þeim sýnist. En n. taldi ekki ástæðu til þess að koma með lagabreyt. um þetta, því að heimild sú, sem er í gildandi l. um lögræði til að svipta menn bæði sjálfræði og fjárræði, er nokkuð víð. Í 3. gr. l. um lögræði stendur svo: „Nú er sjálfráða maður eða fjárráða ófær til að ráða sér eða fé sínu sjálfur, vegna vanheilsu eða vanþroska eða af öðrum ástæðum, svo sem vegna eyðslusemi, og skal hann þá sviptur sjálfræði eða fjárræði, eða hvorutveggja, og honum skipaður lögráðamaður.“ Þessi heimild skildist ukkur vera svo víð, að ekki þyrfti nýja heimild, a. m. k. þá ekki fyrr en það sýndi sig, að dómstólarnir vildu ekki skilja þetta ákvæði á sama hátt og n. gerði.

Ég hygg, að engum, sem nokkuð hefir athugað þetta mál, komi á óvart, að n. telji fulla þörf á því að gera eitthvað í þessu efni, og styrktist n. ekki lítið í þessu við sitt viðtal við dr. Helga Tómasson, því að það voru ekki fagrar sögur, sem hann sagði okkur af ýmsum þessara manna. Ég hjó sérstaklega eftir því, að þess eru ekki allfá dæmi, að menn komi hingað til bæjarins með mikið sumarkaup, 1500–2000 kr., og leggjast að hér til þess að drekka það út, og meira að segja lýsa því yfir, að þeir hafi unnið sér þetta inn í þeim einum tilgangi að gera sér glatt af því, og hætti ekki fyrr en allt sé búið. Svo liggur náttúrlega ekki annað fyrir þessum mönnum, þegar þeir eru búnir með alla peningana og eyðileggja heilsuna, en að leita á náðir þess opinbera. N. felur þess vegna, að full þörf sé á því að reyna að stemma stigu fyrir þessu, en það má vera, að mörgum þyki smátt af stað farið, en það verðum við að láta okkur lynda í svo mörgu, og auk þess efast ég ekki um, að það sé rétt, sem þessi læknir upplýsti fyrir okkur, að skiptar væru skoðanir um það, hversu heppileg stærri hæli væru fyrir slíka sjúklinga.

Ég tel svo ekki, að ég þurfi að fara fleiri orðum um þetta, en óska, að þessi rökst. dagskrá verði samþ., og mun þá á eftir verða farið með málið á þann hátt, sem ég áður gat um.