16.11.1937
Efri deild: 28. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (1722)

50. mál, drykkjumannahæli

Guðrún Lárusdóttir:

Herra forseti! Allshn. hefir nú skilað áliti sínu í þessu máli. Ég verð nú að segja, að ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum yfir því, að n. skyldi komast að þeirri niðurstöðu, að réttara væri að leggja frv. algerlega að velli með dagskrártill. heldur en að mæla með því, enda þótt n. sæi kannske ástæðu til að breyta því að einhverju leyti. Eigi að síður kann ég n. þakkir fyrir það, að hún hefir tvímælalaust látið í ljós það álit sitt, að ég hefði á réttu að standa um nauðsyn þessa máls, og er óneitanlega nokkurrar hjálpar að vænta með fjárveitingartill. þeirri, sem í hinni rökst. dagskrá felst, ef hún verður samþ. En þrátt fyrir þetta virðist mér, þegar ég ber saman frv. sjálft, með þeim ráðstöfunum, sem þar er gert ráð fyrir í sambandi við drykkjumenn og hælisvist þeirra, og dagskrártill., sem ekki gerir ráð fyrir neinu slíku, að munurinn sé nokkuð mikill. Auk þess sem frv. gerir ráð fyrir stofnun hælis í þeim ákveðna tilgangi að hjálpa þessum mönnum, þá felur það einnig í sér ákveðna till. um ráðstafanir og meðferð þessara manna, á hvern hátt þeim verði komið í hæli og hvernig frá þessu öllu sé gengið. Slíkar reglur eru vitanlega nauðsynlegar í þessu sambandi. Annarsstaðar, þar sem slík hæli, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, hafa verið rekin, eru ákveðin l. um þetta efni, og þykja þau eins ómissandi eins og hver önnur löggjöf. Og er þetta frv. eiginlega algerlega sniðið eftir samskonar löggjöf Dana, með nokkurri hliðsjón af sænskum l. Eins og margir vita, er bindindisstarfsemi hjá Svíum með miklum blóma, og löggjöf um þetta efni ber vitanlega blæ af því. Löggjöf Dana um þessi mál tekur afardjúpt í árinni, svo djúpt, að hún kveður jafnvel svo á, að maður, sem settur er í drykkjumannahæli sökum óreglu og vanrækslu á skyldum sínum, er dæmdur til að missa atkvæðisrétt sinn, þangað til hann fer burt af hælinu. Ég geri nú hvorki að mæla með þessu né móti. En ég tek þetta sem dæmi til þess að sýna, hvað Danir taka alvarlega á þessu máli. Það má líka finna svipað ákvæði í löggjöf Svía, en hjá hvorugri þessara þjóða er einu orði að því vikið, að svipta þurfi menn lögræði til þess að koma þeim á hæli, því að það er álitið, að menn, sem vegna áfengisnautnar vanrækja skyldur sínar við heimili sín og þjóðfélagið, hafi sjálfkrafa misst þann ákvörðunarrétt, sem aðrir frjálsbornir menn hafa yfir að ráða. Þessi ákvörðunarréttur verður lagður í hendur tveggja manna, sem standa nærri þessum málum, þar sem þeir fara með framfærslumálin í héraðinu. Í Svíþjóð er þessi ráðstöfunarréttur lagður í hendur áfengisvarnanefndunum, og þar sem slíkar nefndir eru ekki til, þá fara framfærslunefndirnar með hann. Þessi aðili ráðstafar svo drykkjumönnunum á drykkjumannahæli eða aðra staði fyrir slíka menn.

Frv. gerir ráð fyrir þrennskonar drykkjumönnum, eða þremur flokkum drykkjumanna. Í 3. gr. er um þá að ræða, sem fúslega viðurkenna, að þeir séu sjúkir. Við þá er enginn vandi að fást. Sú hjálp, sem gert er ráð fyrir í dagskrártill., getur komið þessum mönnum að gagni. — Í 4. gr. er talað um ódæla sjúklinga, menn, sem hegða sér illa, sýna af sér þvermóðsku og vilja ekki fara í hæli. Við þessa menn er ekki hægt að eiga, nema sett verði ströng lagafyrirmæli um meðferð þeirra. Eins og nú stendur er ákaflega erfitt að fást við þessi mál. Þeir, sem vinna að fátækramálum hér í Rvík, komast oft að raun um það. Hér eru heimili, þar sem kvartað er yfir misþyrmingum af hendi drykkjumanna, konan hefir verið barin og farið illa með börnin, og það er sífelldur ófriður á heimilunum. Eins og nú er, höfum við ekkert vald til þess að taka manninn og flytja hann burt af heimilinu. Ómetanleg stoð væri þá í því, að til væru ákveðin lagafyrirmæli, ákveðnar reglur, sem hægt væri að fara eftir.

Í 5. gr. frv. er minnzt á þriðju tegund drykkjumanna, en það eru þurfamenn, sem geta ekki staðið straum af heimili sínu, og ætla má, að fátækt þeirra eigi rót sína að rekja til drykkjuskaparins. — Hv. dm. munu vera mér sammála um það, að slíkum mönnum þarf að ráðstafa á tryggilegan hátt, t. d. eitthvað líkt og gert er ráð fyrir í frv. En það er enginn hægðarleikur, ef engin lagafyrirmæli eru til um meðferð þeirra. Ég held, að það yrði allt of umsvifamikið, ef ætti í hvert skipti að dæma af þessum mönnum sjálfræði; það tekur tíma, og er auk þess allharkaleg ráðstöfun. Þessir menn eru sjúklingar, þó að segja megi, að böl þeirra sé sjálfskapurviti. Þeir eiga raunalega æfi, og er varla á það bætandi. Ef til vill má segja, að ráðstöfunarréttur, eins og frv. gerir ráð fyrir honum, sé í rauninni svipting á sjálfræði manna þessara. En eiginlega er það sama og að leggja sjúkling í sjúkrahús. Drykkjumaðurinn er ósjálfbjarga eins og hver annar sjúklingur meðan á volæði hans stendur. Þess vegna þykir mér of hart að honum gengið með lögræðissviptingu.

Í hinni rökst. dagskrá kemst n. að þeirri niðurstöðu, að ekki sé rétt að reisa drykkjumannahæli að svo stöddu. Hv. n. vill fara hægt og rólega að öllu. Það er sjálfsagt gott og blessað, aðeins að það verði ekki sá seinagangur í málinu, sem stingur því svefnþorn, svo að ekkert verði aðhafzt og við megum enn um langa hríð standa ráðþrota í viðureign okkar við sjúklinga þessa og sjúkdóm þeirra. Ég þykist vita, að örlög frv. séu þar með ákveðin, því að mér þykir sennilegt, að rökst. dagskráin verði samþ. Og hefi ég þá ekki annað að gera en að sætta mig við þá afgreiðslu. Ég geri það samt í þeirri von, að hér sé aðeins um að ræða eitt spor af mörgum. Reynslan á eftir að leiða í ljós, að þá fyrst er þessu máli ráðið til lykta, er hæli er stofnað. Það þarf ekki að verða neitt óskapa bákn; við erum fámenn þjóð. En við þurfum að eignast slíkt hæli á afskekktum, rólegum stað, þar sem drykkjumenn geta fundið griðastað, þegar öll önnur sund eru lokuð. Enda þótt skoða megi þessa meðferð málsins, ef úr verður, svo sem hælisstofnun í smáum stíl, þá hefði það verið ólíkt heppilegra að samþ. frv. sjálft, eins og það liggur fyrir. Í umræðunum hefir verið bent á það, að mál þetta þyrfti undirbúnings með. Ég benti á það í hitteðfyrra, að þörf væri á slíkum undirbúningi, og flutti brtt. við fjárlögin um að verja nokkru fé í þessu skyni, sem sé að styrkja hæfan mann til að dvelja eitt ár á drykkjumannahæli erlendis, til þess að kynna sér fyrirkomulag slíkra hæla. Þessi till. var ekki samþ. Tel ég það miður, því að hefði orðið úr slíkri framkvæmd, ættum við nú kost á reyndum starfskröftum til þess að hefja starfið.

Ég geri nú ráð fyrir, að umr. um þetta frv. fari að verða lokið að sinni. Ég hefi þing eftir þing borið þetta mál fram, af því að ég hefi séð á því brýna þörf, og mig hefir langað til, að eitthvað yrði gert til að bæta úr þessu mikla böli. Ég verð enn að bíða átekta, en samt vona ég, að innan skamms eignist Íslendingar afdrep fyrir eyðimerkurfarana, sem falla í hendur ræningjanum Bakkusi. Fólkið mænir á aðgerðir Alþingis í þessu máli. Og ég bið góðan Guð að gefa það, að sú úrlausn, sem Alþingi kann að finna í þessu máli, verði öllum slíkum til blessunar. Það er þeirra vegna, sem ég hefi borið þetta frv. fram þing eftir þing. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að segja meira, og vil að lokum þakka nefndinni fyrir þann skilning sem hún hefir sýnt á þessu vandamáli, enda þótt hún gæti ekki aðhyllzt að fullu þá afgreiðslu á málinu, sem ég verð að telja hina langsamlega affarasælustu, sem er að samþ. frv. sjálft.