16.11.1937
Efri deild: 28. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (1725)

50. mál, drykkjumannahæli

Bjarni Snæbjörnsson:

Í fskj. í grg. frv. er talað eindregið um nauðsyn þess, að stofnað verði drykkjumannahæli. Undir þetta ritar dr. Helgi Tómasson ásamt mörgum fleiri. Ég gerði ráð fyrir því, að þessi skoðun hans væri óbreytt. — En það sér hver heilvita maður, að engin leið er að reka hæli, þótt í smáum stíl sé, fyrir einar 25 þús. kr. á ári. Slíkt hæli verður þó að hafa forstöðumann, karla og konur til að hugsa um sjúklingana, auk þess sem eitthvað verður að borga fyrir lækniseftirlit. Slíkt hæli er ekki hægt að nota fyrir neitt annað jafnframt. — Ég er smeykur um, að þó dagskrártill. verði samþ., verði ekkert gert í náinni framtíð í þessu máli. Og mér skilst, að þessi till. um smávægilega fjárveitingu sé einskonar plástur handa þeim áhugasömu mönnum, sem vilja, að eitthvað sé gert í þessu máli.