17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (1728)

50. mál, drykkjumannahæli

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vil ekki láta þetta mál fara svo út úr d., að ég ekki taki í því afstöðu, meðal annars af því, að ég er einn af flm. að þeirri dagskrá, sem hér liggur fyrir. Ég þarf litlu við það að bæta. sem hv. frsm. hefir gert grein fyrir, en út af þeim umr., sem hér hafa farið fram af hálfu 2 hv. þm., flm. frv. og hv. þm. Hafnf., þá langar mig til að segja nokkur orð, sem ef til vill skýra nokkru nánar afstöðu n. Ég hygg, að hv. flm. muni ekki væna okkur nm., a. m. k. 2 af þeim, um fullkominn skilning á nauðsyn þessa máls. N. hefir um þetta mál leitað álits 2 fróðra manna í læknastóli, og þeirra ekki af lakari tegundinni, þar sem annarsvegar er landlæknir, sem vitað er, að hefir hugsað mjög mikið um þessi mál, og hinsvegar geðveikralæknirinn á Kleppi, dr. Helgi Tómasson, sem ég veit ekki annað en sé mjög andvígur ofdrykkju og vilji leggja sitt lið til að stemma þar á að ósi. Þessir menn hafa upplýst n. um það, að úti í heimi væri að verða stefnubreyting í þessum málum, sem miðar í þá átt, að í staðinn fyrir að setja drykkjumennina á hæli, er nú meira farið að gera tilraunir með að lækna þá á ýmsan annan hátt. Þegar sjúklingarnir koma svo undan læknishendi, eru gerðar tilraunir með að koma þeim upp í sveit og láta þá jafna sig þar nokkurn tíma. Yfirleitt eru menn að færast á þá skoðun að nota frjálsari aðferðir við þessar lækningar en verið hefir. Drykkjumannahælin hafa verið höfð sem þvingunarráðstöfun fyrir þessa menn og því verið litin óhýru auga. Þetta hefir gert það að verkum, að það hefir skapazt andúð gegn þeim tilraunum, sem þjóðfélögin hafa viljað gera í þessum efnum. Ég fyrir mitt leyti hallast að þeirri leið, að það sé farið svo lipurlega í málið sem frekast er unnt og að ekki sé beitt þvingunarráðstöfunum fyrr en öll önnur sund eru lokuð. Þetta er meginkjarni þess, að við völdum þessa leið. Um fjárhagsspursmálið er það að vísu rétt, að ef reisa ætti hæli í þessu skyni, mundi verða af því ærinn kostnaður, en það er siður en svo, að ég teldi þann kostnað eftir, en ég er bara vonlaus, eftir því andrúmslofti, sem í þessum málum ríkir, að slík till. mundi verða samþ. hér á Alþ. Og af þessum ástæðum vil ég heldur fara þá leið, að byrja í smærri stíl og þá frekar færa sig upp á skaftið, eftir því sem reynslan leiddi í ljós. Þetta er mín afstaða til málsins.

Dr. Helgi Tómasson upplýsti það, að hér mundu ekki vera yfir 30 menn, sem þannig væri ástatt um, að þeir þyrftu hælisvistar með. Ég verð nú að draga þessar tölur stórlega í efa. Læknirinn mun hér sennilega eiga við þá menn eina, sem eru gersamlega fallnir. Það er hinsvegar vitað, að ekki mundu verða settir aðrir á þessi hæli en þeir, sem taldir væru komnir út á háskalega braut. Ég efast um t. d., að þeir menn væru taldir þurfa að fara á hæli, sem t. d. berja konur sínar í skyndiölæði. Ég er sammála flm. um, að slíkt er hegningarvert, en það er ekki þar með sagt, að þeir þurfi hælisvistar við. Það má annars á það benda að lokum, að það er nú orðin skoðun manna, að eins mikla áherzlu beri að leggja á það, að koma í veg fyrir sjúkdóma eins og að lækna þá, og að það sé aðalatriðið. Ef við gætum í þessu tilfelli verið sammála um að taka fyrir sjúkdóminn, þá þyrftum við engin hæli.

Ég skal skjóta því hér fram í þessu sambandi, að það, sem við sögðum, sem andmæltum hinu nýja syndaflóði, er allt komið fram, og miklu verra. Ég álit, að það sé stórmál, hvernig við eigum að bægja áfenginu frá hinni uppvaxandi kynslóð, sem hún virðist ætla að drukkna í. Og ég skal taka höndum saman við hvern þann mann, sem vill bera fram till. um að þurrka landið. Það álit ég beztu lækninguna.